Blár hagvöxtur er svalur

06.10.17 | Fréttir
 Blue Fashion Challenge
Ljósmyndari
Federico Peltretti
Sjávarútvegsráðuneyti Færeyja stóð að fyrsta alþjóðlega málþinginu undir yfirskriftinni „Large Ocean Nations Forum on Blue Growth“ sem fram fór dagana 2.–4. október 2017 með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðstefnunni lauk með umræðum en í pallborði sátu ráðherrar og aðrir háttsettir fulltrúar frá Grænhöfðaeyjum, Grenada, Íslandi, Máritíus, Saó Tóme og Prinsípe og Seychelles-eyjum auk framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Eyþjóðir stjórna stórum hafsvæðum. Þær bera ábyrgð og skyldu til að tryggja öryggi og heilbrigði sjávar auk þess sem þær gegna lykilhlutverki þegar fjallað er um málefni sjávar á alþjóðavettvangi. Höfin og auðlindir þeirra fela í sér mikil sóknarfæri á sviði sjálfbærs hagvaxtar.

Málþing eyþjóða um bláan hagvöxt

Á ráðstefnunni var rætt um hnattrænt samstarf eyþjóða þar sem miklar vonir eru bundnar við efld tengsl eyríkja hvort sem þau eru á norðurhveli eða suðurhveli jarðar.

Meðal þess sem bar á góma var verðmætasköpun og verðmætakeðjur, auðlindir sjávar sem eru lítið sem ekkert nýttar, smáframleiðsla á hágæða sjávarafurðum til útflutnings, tískuhönnun úr sjávarafurðum, heilsubótarvörur og aðrar vörur úr sjávarafurðum en einnig rannsóknasamstarf og afkastageta á því sviði.

Þar kom fram að þær mörgu áskoranir og tækifæri sem eyþjóðir eiga sameiginlega, eru traustur grundvöllur fyrir enn sterkari alþjóðlegri samvinnu þjóðanna.

Atvinnuþátttaka kvenna og ungmenna á öllum sviðum sjávarútvegs er forsenda þess að hægt verði að nýta fyllilega þau sóknarfæri sem leynast í bláum hagvexti í sjálfbærri þróun úthafsþjóða.

 

Atvinnuþátttaka kvenna og ungmenna mikilvæg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands, tók þátt í hringborðsumræðunni. Hún benti á mikilvægi atvinnuþátttöku kvenna og ungmenna á öllum sviðum sjávarútvegs enda væri hún forsenda þess að hægt væri að nýta fyllilega þau sóknarfæri sem leynast í bláum hagvexti í sjálfbærri þróun úthafsþjóða.

Ýmsir ráðamenn sem sátu málþingið bentu á mikilvægi alþjóðlegrar stjórnunar auðlinda og sjálfbærni hafsins. José Filomeno Monteiro, sendiherra Grænhöfðaeyja hjá ESB, sagði engan vettvang um málefni hafsins, reglur eða aðgerðir njóta lögmætis nema eyríki heimsins kæmu þar að málum. Eyþjóðir yrðu að vera sammála.

Færeyjar hafa skuldbundið sig til að undirbúa fleiri fundi úthafsþjóða í framtíðinni.

Blár hagvöxtur er svalur

Þátttakendur lýstu yfir stuðningi við tillögur málþingsins, þar á meðal um að koma á öflugu samstarfi, skapa stofnanir sem styðja bláan hagvöxt, kalla samfélagið og neytendur til þátttöku og gera bláan hagvöxt eftirsóknarverðan.

„Færeyingar hafa skuldbundið sig til að undirbúa fleiri flundi úthafsþjóða í framtíðinni,“ sagði Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja. Í lok umræðunnar tilkynnti ráðherrann að Færeyingar myndu standa að hliðarviðburði á fundi fiskveiðinefndar matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) á árinu 2018 þar sem málþinginu á Möltu verður fylgt eftir.

Málþing eyþjóða um bláan hagvöxt fór fram á Möltu með þátttakendum frá Grænhöfðaeyjum, Færeyjum, Grænlandi, Grenada, Íslandi, Möltu, Máritíus, Noregi, Papúa, Saó Tóme, Seychelles-eyjum, Vanúatú og framkvæmdastjórn ESB.

 

Large Ocean Nations’ Forum on Blue Growth opens in Malta (FAO)