Nýrri úttekt ætlað að auka skilvirkni í vinnunni að frjálsri för

22.01.24 | Fréttir
Passkontroll på flygplats.

Passkontroll

Photographer
Yadid Levy/norden.org
Norræna ráðherranefndin hyggst vinna stefnumarkandi úttekt á vinnunni að afnámi stjórnsýsluhindrana, það er að segja hindrana sem torvelda frjálsa för á milli Norðurlandanna. Markmiðið er að vinnan verði skilvirkari.

Úttektin á að greina styrkleika og veikleika núverandi fyrirkomulags auk þess að koma með tillögur að því hvernig megi efla vinnuna og auka skilvirkni á mismunandi stigum.

Það voru norrænu samstarfsráðherrarnir sem ákváðu að ráðast skyldi í gerð úttektarinnar, meðal annars vegna þess að þeir vilja sjá hvort hægt sé að ná áþreifanlegri árangri í vinnunni að afnámi stjórnsýsluhindrana. Hugmyndin er að úttektin skili sér í stefnumarkandi tillögum að því hvernig hægt sé að byggja vinnuna upp og endurnýja verklag frá og með árinu 2025. 

„Það er grundvallaratriði fyrir samkeppnishæfni okkar og hagvöxt að við höldum áfram að létta undir með fyrirtækjum og fólki að geta starfað þvert á landamæri. Það er kjarninn í norrænu samstarfi. Í dag er unnið að því á mörgum stigum að afnema stjórnsýsluhindranir en það er mikið verk óunnið. Ég vona að þessi úttekt stuðli að því að gera vinnuna enn skilvirkari,“ segir Jessika Roswall, ESB-ráðherra Svíþjóðar, sem einnig ber ábyrgð á málefnum Norðurlanda og fer fyrir norrænu samstarfsráðherrunum í ár.

Útboðsferli hafið

Nýlega setti Norræna ráðherranefndin af stað útboðsferli til þess að finna aðila til að vinna úttektina. Lokaskýrsla með tillögum verður kynnt fyrir samstarfsráðherrunum á sumarfundi þeirra 18.–19. júní.

Mikilvægur liður í úttektinni verður fólginn í því að tryggja aðkomu þeirra sem vinna að afnámi stjórnsýsluhindrana, meðal annars embættismanna í löndunum og annarra aðila á norrænum og svæðisbundnum vettvangi. Leitast verður við að ná sem víðtækastri þátttöku til þess að tryggja að vinnan njóti breiðs stuðnings og fá viðeigandi innlegg í vinnuna.

Frjáls för ofarlega á dagskrá Svíþjóðar

Vinnan að frjálsri för, það er að segja að tryggja að einfalt sé að vinna, flytja, stunda nám og stofna fyrirtæki þvert á norræn landamæri, er forgangsmál í norrænu samstarfi. Hún er jafnframt veigamikill þáttur í vinnunni að því að uppfylla markmið hinnar norrænu framtíðarsýnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030.

Svíar, sem gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2024, leggja sérstaka áherslu á frjálsa för í formennskutíð sinni.

Í dag fer vinnan að afnámi stjórnsýsluhindrana einkum fram á vegum stjórnsýsluhindranaráðsins en einnig vinna aðilar á innlendum og staðbundnum vettvangi að þessum málum.