Óskað eftir tilnefningum til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

05.02.15 | Fréttir
Reykjavík kommun
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Hver á heiður skilinn fyrir að hafa stuðlað að minni losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum? Nú geta allir lagt fram tilnefningar til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015. Tilkynnt verður um verðlaunahafa á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Reykjavík.

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í 21. sinn á verðlaunahátíð í Hörpu þann 27. október.

Þema verðlaunanna í ár er losun gróðurhúsalofttegunda. Að sögn dómnefndarinnar verða verðlaunin veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem þróað hefur undraverða vöru eða uppfinningu eða með öðrum skapandi hætti stuðlað að minni losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum til frambúðar.

Hér er hægt að leggja fram tilnefningu.

Tilnefningarfrestur er til 13. apríl 2015. 

Tilkynnt verður um tilnefningar til náttúru- og umhverfisverðlaunanna í júní. 

Reykjavíkurborg hlaut verðlaunin í fyrra

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsundum danskra króna. Í fyrra féllu þau í skaut Reykjavíkurborgar fyrir framlag sveitarfélagsins til umhverfismála.

Þema síðasta árs tengdist umhverfisstarfi sveitarfélaga eða staðbundinna samfélaga en í ár verður einnig hægt að tilnefna einstaklinga.

Fyrri verðlaunahafar

Verðlaunin hafa verið veitt frá 1995 og meðal fyrri verðlaunahafa eru Selina Juul, fyrir starf sitt í baráttunni gegn matarsóun, hin þekktu norsku umhverfissamtök Bellona, grænlensku umhverfissamtökin Inuit Circumpolar Conference, skrifstofa Agenda 21 á Álandseyjum, umhverfisbaráttumaðurinn Bogi Hansen frá Færeyjum, sveitarfélagið Albertslund í Danmörku, þrír norrænir bankar auk Scandic-hótelanna.