Styrkir til umhverfisverkefna sem tengjast útivist og líffræðilegum fjölbreytileika

14.02.18 | Fréttir
Grantræ i skov
Ljósmyndari
Benjamin Suomela / Norden.org
Norræna ráðherranefndin auglýsir eftir umsóknum um styrki til norrænna umhverfisverkefna á sviði sjálfbærrar útivistar og verkefna sem taka til ógna við líffræðilegan fjölbreytileika.

Verkefni geta hlotið allt að 500.000 danskar krónur í styrk á ári frá vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar um lifandi auðlindir (TEG). Á árinu 2019 forgangsraðar TEG verkefnum þar sem sjónum er beint að

  • áhrifum náttúruferðamennsku og útivistar á líffræðilegan fjölbreytileika og mikilvægt náttúru- og menningarumhvemhverfi.
  • verkefnum sem snúa að ágengum tegundum og sjúkdómfaröldrum meðal tegunda á landi og í vatni sem ógna líffræðilegum fjölbreytileika á Norðurlöndum.

Hver getur sótt um styrk?

Yfirvöld landa og svæða, sveitarfélög, háskólar og félagasamstök geta sótt um styrk. 

Skilyrði sem verkefnin þurfa að uppfylla

Verkefni um sjálfbæra útivist eiga að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúru- og menningarumhverfis. Í verkefnunum skal leggja fram áþreifanlegar tillögur og verkfæri sem nýst geta á Norðurlöndum til þess að draga úr neikvæðum áhrifum af náttúruferðamennsku og útivist.

Verkefni sem snúa að ógnum við líffræðilegan fjölbreytileika eiga að stuðla að því til dæmis að draga úr og koma í veg smit milli svæða og tegunda, hindra að ágengar framandi tegundir búi um sig og draga úr útbreiðslu þeirra. 

Til þess að hægt sé að sækja um styrk til verkefnisins þarf að felast í því samstarf við aðila í að minnsta kosti þremur norrænum ríkjum. Verkefnið verður einnig að vera vel tengt við umhverfisyfirvöld landanna. Hrein rannsóknarverkefni eru ekki styrkt. 

Umsóknarfrestur rennur úr 18. júní 2018.