Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason

Ljósmyndari
Ari Magg
Andri Snær Magnason: Um tímann og vatnið. Skáldsaga. Forlagið, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Í bókinni fléttast saman hlýleg fjölskyldusaga af þremur ættliðum og ógnvekjandi vísindasaga af heiminum sem þetta fólk byggir. Það er leitað í fornar norrænar og indverskar goðsagnir, visku þeirra, samhljóminn í þeim og skilning á voðanum sem af því stafar að vanvirða gjafir náttúrunnar. Það er skilmerkilega rakið hvernig vísindamenn hafa einnig bent á ógnina sem því mun fylgja ef við leyfum okkur að eyðileggja jörðina okkar. Þá eyðum við sjálfum okkur, börnum okkar og barnabörnum, sögu okkar og allri menningu. Höfundinum bregst hvorki frásagnarlistin né þekkingin á umhverfisvísindum.

Vísindi og frásagnir af fólki og tilfinningum eiga samleið þó að mönnum hafi löngum sést yfir þau sannindi.  Um tímann og vatnið hefur verið þýdd á 28 tungumál, þ. á m. öll norrænu málin og er í senn persónulegt og vísindalegt rit og sameinar þannig orðræðu bókmennta og vísinda.

Frá miðri 20. öld hefur okkur Vesturlandabúum verið sérstaklega tamt að berja höfðinu við steininn þegar um þetta er rætt og segja að vísindi hljóti alltaf að vera ópersónuleg og persónulegur texti sé það sama og óvísindalegur texti. Trúnni á óskeikulleika og mátt vísindanna hefur löngum verið teflt gegn stopulum mannlegum tilfinningum og meintum hugarórum, tilfinningagreindin talin andstæð allri rökhyggju og huglæg viðhorf líkleg til að ala á hættulegri hlutdrægni, stuðla að afneitun, efla hræðsluáróður og varðveita ýmiss konar lífslygi. Iðnaður og vísindi síðustu áratuga hafa hins vegar ekki reynst jörðinni vel og blikur eru á lofti. Í bókinni Um tímann og vatnið kemur það skýrt fram að ætli mannkynið sér að sigrast á umhverfisvá tímans þarf að sameina þá krafta sem felast í vísindalegri þekkingu okkar og persónulegum tilfinningum.

Rit Andra Snæs Um tímann og vatnið fjallar um jörðina okkar og framtíð barna okkar og annarra afkomenda. Bókin er skrifuð af jafnvægi, þekkingu, skilningi á viðfangsefninu og sterkum vilja til þess að gera heiminn betri en hann er.

Andri Snær Magnason (f. 1973) hefur gefið út skáldsögur, ljóð og leikrit. Ádeiluritið Draumalandið, sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð sló í gegn á Íslandi og eftir þeirri bók var gerð kvikmynd. Bókinni og kvikmyndinni fylgdu snarpar deilur um íslensk umhverfismál en Andri Snær hefur lengi verið meðal fremstu baráttumanna þjóðar sinnar á þeim vettvangi. Hann hefur margsinnis fengið verðlaun fyrir ritverk sín, þar á meðal Íslensku bókmenntaverðlaunin þrisvar. Árið 1999 hlaut hann verðlaunin fyrir Söguna af bláa hnettinum, 2006 fyrir Draumalandið og 2013 fyrir Tímakistuna.

Bækur Andra Snæs hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál. Barnabókin Sagan af bláa hnettinum þó líklega oftast þeirra allra.