Anna María Bogadóttir

Anna María Bogadóttir

Anna María Bogadóttir 

Ljósmyndari
Portrætfoto: Saga Sig
Anna María Bogadóttir Jarðsetning, skáldævisaga. Angústúra, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur: 

Hvernig mótar umhverfið okkur sem manneskjur? Hvernig er best að vinda ofan af þeirri hugmynd að uppsprettur jarðar séu ótæmandi? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem Anna María Bogadóttir arkitekt spyr í bókverkinu Jarðsetningu. Bókin kallast sterklega á við annars vegar gjörning sem Anna María stóð fyrir í stórhýsi Iðnaðarbankans í miðborg Reykjavíkur í aðdraganda þess að húsið var rifið til að rýma til fyrir nýrri og arðvænni starfsemi og hins vegar samnefnda kvikmynd hennar um niðurrif byggingarinnar sem var frumsýnd 2021. Í 40 myndaopnum bókarinnar, sem eru vel staðsettar í textaflæðinu, má sjá ljósmyndir Önnu Maríu frá niðurrifinu og stillur úr kvikmyndinni ásamt eldri svarthvítum ljósmyndum sem fanga notkun byggingarinnar með tilheyrandi mannlífi.  

Bankabyggingin myndar ytri ramma frásagnarinnar þar sem fjallað er um tilurð eða fæðingu hennar, þróun, andlát og loks útför. Jafnvel þó stórhýsinu hafi við byggingu verið ætlað hlutverk til langrar framtíðar fékk það aðeins að þjóna tilgangi í rúma hálfa öld áður en það var dæmt úr leik og afskrifað sem einnota. Þrátt fyrir að byggingin leiki stórt hlutverk í Jarðsetningu er bókin miklu meira en fræðirit um arkitektúr. Með frumlegum texta og heillandi myndefni tekst höfundi að brúa bilið milli arkitektúrs og bókmennta. Jarðsetning er áhrifamikið verk og persónulegt þar sem höfundur speglar sig sem manneskju og eigið æviskeið í sögu umræddrar byggingar. Því eins og Anna María orðar það þá geymir hús, líkt og líkaminn, minningar og kannski erum við öll byggingar – ýmist á leið í urðun eða uppfyllingu.  

Jarðsetning er ekki aðeins saga af húsi heldur geymir hún þroskasögu höfundar sjálfs og er í þeim skilningi margslungin skáldævisaga. Anna María deilir minningum af uppvaxtarárum sínum í fámennu sjávarþorpi á Austfjörðum, unglingsárum í Reykjavík og leit að réttri menntun sem leiðir hana til Frakklands að lesa frönsku, heim til Íslands aftur að nema bókmenntir, til Danmerkur í táknfræði og menningarfræði og loks Bandaríkjanna í arkitektúr.  

Samhliða eigin þroskasögu stiklar höfundur, í fyrstu persónu frásögn, á stóru í því samfélagsumróti sem orðið hefur vegna tæknibreytinga, aukinnar alþjóðavæðingar og sífellt umfangsmeiri áhrifa kapítalismans. Eftir því sem sjóndeildarhringurinn stækkar fara efasemdir hennar um ágæti ýmissa kerfa að hreiðra um sig og Anna María gerir sér sífellt betur grein fyrir því að yfirborð og innihald fara ekki endilega saman. Í stað þess að lesa aðeins bækur og ljóð fer höfundur markvisst að lesa hús til að fá innsýn í tungumál þeirra og táknkerfi.  

Jarðsetning er margþætt verk sem á brýnt erindi við samtímann. Höfundur gengur á hólm við hugmyndafræði og gildismat samfélags sem stýrt er af markaðs- og fjármálaöflum þar sem bruðl og sóun á kostnað jarðarinnar hafa fengið að viðgangast alltof lengi. En eins og höfundur bendir á getur það að varðveita í raun verið framsæknasta lausnin meðan niðurrif og nýbyggingar geta verið dæmi um afturhald.  

Þó kveikjan að bókverkinu sé niðurrif eins húss á Íslandi er Anna María á skapandi og skáldlegan hátt að skoða og greina valdakerfi, orðræðu og strúktúr í menningarsögulegu og alþjóðlegu samhengi. Jarðsetning er mikilvægt innlegg í umræðuna um hlutskipti kvenna, sem lengi vel voru ekki teiknaðar inn í almenningsrýmið og þóttu fram af tuttugustu öld ekki eiga neitt erindi í karllægan heim byggingalistarinnar. Sú snjalla leið höfundar að spegla ævi sína í Iðnaðarbankahúsinu skapar sterka hluttekningu með byggingunni sem sárt er að kveðja undir lok bókar þegar niðurrifið hefst. Á sama tíma markar endirinn óumflýjanlega nýtt upphaf. Hér er á ferðinni óvenjuleg og mögnuð bók. 

 

Nánari upplýsingar um höfundinn: https://www.urbanistan.is/stofan