Anne-Grethe Leine Bientie & Bierna Leine Bientie

Anne Grethe og Bierna Leine Bientie

Anne Grethe og Bierna Leine Bientie

Photographer
Bientie
Anne-Grethe Leine Bientie & Bierna Leine Bientie: Jaememe mijjen luvnie jeala, sögur, Iđut, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Jaememe mijjen luvnie jeala („Dauðinn lifir á meðal okkar“, ekki gefin út á íslensku) eftir hjónin Anne-Grethe Leine Bientie og Bierna Leine Bientie er ljóðræn bók sem vekur lesendur til umhugsunar, skrifuð af mikilli lífsvisku. Bókin inniheldur ellefu sögur af fólki með afar ólíkan bakgrunn og í ólíkum aðstæðum sem allt hefur komist í návígi við dauðann. Dauðinn hefur mismunandi áhrif á persónurnar og þær bregðast við aðstæðum sínum með ólíkum hætti.

 

Í fyrsta og síðasta textanum hefur ástkær lífsförunautur horfið á braut, og þetta setur ljúfsáran tón sem einkennir alla bókina. Hinn aldraði eftirlifandi maki heldur lífinu áfram líkt og í hægri kvikmynd; líkt og í helgiathöfn kveikir hann upp í ofninum, hellir upp á kaffi og leggst til hvílu við hlið ástarinnar sinnar. Því erfiða við að sættast við dauðann og sleppa takinu er lýst af mikilli væntumþykju. „Daesnie gællesjem jïh dutnjien vuartesjem. Dagke manne jieliminie jïh datne sealadamme?” (Hér ligg ég og horfi á þig. Er það yfirhöfuð mögulegt að ég lifi en þú hafir dáið?) (67)

 

Í textanum „Gurhtie“ („Lómur“) veldur dauður lómur í netinu samviskubiti hjá veiðimanninum þegar ásakandi gargið í hinum lóminum og yfirgefnum lómsungunum berst yfir stöðuvatnið. Þessar flóknu tilfinningar koma upp á milli konunnar og eiginmanns hennar, og hún sver: “In edtjh gåessie viermide jadtedidh mearan dijjen leah tjovhkh” („Ég mun aldrei aftur leggja net á varptíma“) (20).

 

Þó að dauðinn sé nærri í öllum sögunum, þá umfaðma þær bæði lífið og dauðann í hversdeginum með skýrum hætti, sem sýnir að lífið getur farið vel sé það tekið föstum tökum.

 

Bókin inniheldur líka frásagnir af fólki sem ekki á í nánum samböndum við aðra þegar lífsferlinum lýkur, og sem yfirgefur lífið með kergju, þeirri sömu og það lifði með. Þannig er það í „Gaatoelamme“ („Horfinn“) þegar barn kemur að heimsækja gamlan frænda sem er þar ekki lengur. Kona frændans vill ekki útför, ekki dánartilkynningu, alls ekki neitt. Ekkert pláss er gefið fyrir tilfinningar, aðeins fyrir praktískar lausnir. 

 

Í „Viere“ („Að binda krans“) hefur uppkominni dóttur verið falið að útbúa krans fyrir útför föður síns. Hún bindur þyrnóttar greinar úr rósarunna móður sinnar innst inn í kransinn, og hugsar: „Eah baakoeh daerpies gosse daate vïere gæstoen nelnie“ („Við þurfum engin orð með þennan krans á kistunni“) (45). Líkt og í helgiathöfn bindur hún sársaukafulla reynslu bernskunnar inn í kransinn og upplifir sátt og heilun. Svo oft hefur hún hugsað: „Gosse jaama, dellie edtjem aavoedidh“ („Það verður gleðidagur þegar pabbi deyr“) (46). Nú er tíminn kominn og hún finnur kraftinn ólga innra með sér.

 

Flestir textarnir hafa sammannlegan hljóm og hin samísku einkenni birtast í smáatriðum, svo sem þegar textinn rennur skyndilega út í ljóðrænu sem minnir á jojk-söng. Textinn á samísku dregur lesandann inn í reynsluheim Sama með nákvæmu orðavali – oft getur eitt orðasamband opnað heilan heim.

 

Bierna Leine Bientie hefur starfað sem suður-samískur prestur. Hann er einnig sálmaskáld og hlaut suður-samísku menningarverðlaunin árið 2021. Anne-Grethe Leine Bientie er sálmaskáld og rithöfundur. Barnabók hennar Joekoen sjïehteles ryöjnesjæjja („Fyrirmyndar hreindýrahirðir“, ekki gefin út á íslensku) var tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Norska þýðingin á hinni tilnefndu bók, Midt iblant oss lever døden, hefur verið valin af menningarráði Noregs til innkaupa á norsk bókasöfn.

 

Í bókinni eru fallegar og blæbrigðaríkar myndskreytingar eftir dóttur hjónanna, Ellen Söru Reiten Bientie. Myndirnar leiða lesandann að enn fleiri nýjum frásögnum og vangaveltum sem hægt er að grufla í eða stranda á, og lesa svo einu sinni enn, og skynja í því visst öryggi að dauðinn er hvorki skuggalegur né ógnvekjandi heldur fyrst og fremst eðlilegur hluti lífsins.