Carl Jóhan Jensen: Eg síggi teg betur í myrkri

Carl Jóhan Jensen
Skáldsaga, Sprotin, 2014

Titill skáldsögunnar Eg síggi teg betur í myrkri eftir Carl Jóhan Jensen er tilvitnun í ljóðið „I see thee better – in the Dark“ eftir Emily Dickinson. Þversögnin sem felst í ljóðlínunni vísar til hinna tveggja laga í skáldsögu Jensens; söguþráðarins og hugmyndarinnar að baki.

Aðalpersóna skáldsögunnar er innblásin af hinum íslenska Einari Benediktssyni (1864–1940), skáldi sem átti sér miklar hugsjónir um hvernig koma mætti íslensku samfélagi inn í nútímann. Þó að áform Einars um þróun iðnaðar á Íslandi hafi hlotið dapurleg endalok báru þau vott um mikinn og sterkan vilja hans. Í bókinni eru einnig fjölmargar vísanir í heimspekikenningar Schopenhauers, en þar eru gegnumgangandi hugmyndir um vilja og verund. Einar Benediktsson þýddi líka bókmenntir á íslensku úr öðrum tungumálum, m.a. Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen, sem er merkingarbært í tengslum við skáldsögu Jensens.

Aðalpersóna Eg síggi teg betur í myrkri heitir Benedikt Einarsson og hefst sagan þann 25. ágúst 1939, um borð í s/s Lýru á siglingu frá Björgvin í Noregi og norður á bóginn. Uppbygging sögunnar er brotakennd, frásögnin stekkur fram og til baka í tíma, ýmist raunsætt endurlit eða draumkenndar lýsingar. Þungamiðjan er þó augnablik á þilfari Lýru.

Líkt og í hefðbundnum þroskasögum er mikið lagt í að rekja ætt og uppruna aðalpersónunnar. Í fyrsta hluta bókarinnar er sagt frá foreldrum Benedikts; sýslumanninum og alþingismanninum Einari Þorsteinssyni og frú Ásu, konu hans, og hjónabandi þeirra.

Benedikt er fullur eldmóðs og þjóðerniskenndar, innblásinn af hugmyndum iðnbyltingarinnar um hið nútímalega samfélag og hefur mikil áform um að byggja hafnir, raforkuver og verksmiðjur til að vekja vilja íslensku þjóðarinnar til sjálfstæðis og gera hana betur í stakk búna fyrir það. Með þetta veganesti heldur hann til Evrópu til að vekja áhuga umheimsins á Íslandi og finna leiðir til að fjármagna áform sín. Meðal annars kemur hann til Lundúna, Parísar og Berlínar og eru margar frásagnir af veru hans í þessum borgum, sumar myrkar og ofsafengnar, aðrar skemmtilegar og kaldhæðnar, en allar hafa þær ævintýralegt yfirbragð og bera vott um næmni sögumanns fyrir smáatriðum og hinum harmrænu hliðum tilverunnar. Frásögnin er afkáraleg á köflum, en inni á milli glittir í viðkvæm og ljóðræn augnablik.

Líkt og fyrirmyndin Einar Benediktsson hefur Benedikt þýtt Pétur Gautá íslensku, og form þessa vel þekkta leikrits liggur skáldsögunni til grundvallar. Benedikt og Pétur eiga ýmislegt sameiginlegt og örlög þeirra verða hin sömu. Báðir standa á mótum ólíkra strauma í mannkynssögunni, þar sem hið rómantíska tímabil er á undanhaldi og mætir nútímalegu, iðnvæddu samfélagi. Drifkraftur beggja er rómantíkin, en sú veröld sem þeir mæta á vegferð sinni er gerólík veröld rómantíkurinnar. Hið undirliggjandi stef vilja og þjáningar kemur meðal annars fram í sársaukafullum árekstrum við óumflýjanlegan veruleika. Þannig ferðast Benedikt um tímann og mannkynssöguna og er undir það síðasta að lotum kominn. Hann situr í sólstól á þilfari Lýru og endurlifir lífshlaup sitt. Þegar Helga kemur út á þilfarið og bindur enda á líf hans er verknaðurinn markaður staðfastri ró, en einnig meðaumkun og miskunn. Sjálf dauðastundin á þilfari Lýru er stórkostlega ljóðræn.

Tungumál skáldsögunnar er að öllu leyti ljóðrænt tungumál höfundarins. Frásagnarmáti bókarinnar er listaverk út af fyrir sig. Hinn ljóðræni stíll opnar lesandanum dyr að einhverju öðru og meira en þeirri atburðarás sem rakin er í textanum. Höfundur gælir við hvert og eitt orð og laðar fram ljós og skugga, engla og djöfla, hluti sem eru ekki næstum því eins sýnilegir í úr sér gengnu hversdagsmáli. Textinn ber þess vitni að höfundurinn er ljóðskáld, kannski fyrst og fremst, og að hann virðist ekki taka mörkin milli skáldsögunnar og ljóðsins of hátíðlega í skrifum sínum.