Charter – Svíþjóð

Bilde från "Charter" - Ane Dahl Torp och Troy Lundkvist
Ljósmyndari
Sophia Olsson
Sænska kvikmyndin „Charter“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Eftir að hafa nýlega gengið gegnum erfiðan skilnað hefur Stokkhólmsbúinn Alice ekki séð börn sín í tvo mánuði þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar, sem býr í Norður-Svíþjóð með börnin, meinar henni að hitta þau. Meðan Alice bíður lokaúrskurðar í forræðismálinu fær hún símtal um miðja nótt frá Vincent, syni sínum, sem er í miklu uppnámi. Hún flýtir sér af stað norður á bóginn til að hitta Vincent og Elinu systur hans. Þegar vonir Alice um sættir verða að engu stuttu eftir komuna á áfangastað nemur hún börnin á brott og heldur í óleyfi með þau til Tenerife til að reyna að tengjast þeim á ný.

Rökstuðningur dómnefndar

Amanda Kernell bregður upp mynd af átakanlegri forræðisdeilu með sterka tengingu við samtímann þar sem hið margslungna eðli lífsins og náinna sambanda birtist líkt og í skuggsjá. Við sjáum hin fullorðnu með augum barnanna. Hin fullorðnu með þeirra eigin augum. Skörp smáatriði og afbragðsgóð persónusköpun veita frásögninni aukna dýpt og gera hana að krefjandi spennusögu þar sem engin endanleg svör liggja á lausu. Allt frá ísköldum vetrarkvöldum Norður-Svíþjóðar til heitra nátta á Tenerife skapa leikstjórn Kernell og kvikmyndataka Sophiu Olsson myndræna frásögn sem endurómar lengi og vægðarlaust í hugum áhorfenda.

Handritshöfundur/leikstjóri – Amanda Kernell

Amanda Kernell (1986) er fædd í Umeå og útskrifuð frá Kvikmyndaskóla Danmerkur. Margar mynda hennar eiga sér sterkar rætur í samískri menningu og náttúru. Hún hefur leikstýrt fjölda stuttmynda sem unnið hafa til verðlauna, þar á meðal Norra storfjället sem var heimsfrumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni 2015.

Fyrsta mynd hennar í fullri lengd, Samablóð (2016), sló í gegn og vann til fjölda verðlauna, þar á meðal Fedeora-verðlaunanna fyrir bestu frumraun í fullri lengd á Venice Days og Dragon-verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg fyrir bestu norrænu myndina og bestu kvikmyndatöku (Sophia Olsson). Kvikmyndin var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017. Samhliða Samablóði leikstýrði Kernell hinni meðallöngu mynd I Will Always Love You Kingen. Önnur kvikmynd hennar í fullri lengd, Charter, var frumsýnd í keppnisflokki Sundance-hátíðarinnar 2020.

Framleiðandi – Lars G. Lindström

Lars G. Lindström (1955) hefur starfað hjá framleiðslufyrirtækinu Nordisk Film í Svíþjóð síðan 2013. Hann á að baki fjölbreyttan feril í kvikmyndum, sjónvarpi og leikhúsi.Árið 1984 hóf hann störf hjá borgarleikhúsinu í Stokkhólmi þar sem hann sinnti framleiðslu, listrænni stjórnun og viðskiptaþróun næstu 19 árin. Meðfram leikhúsferlinum var hann fyrsti aðstoðarleikstjóri fjölmargra norrænna kvikmynda. Eftir fjögurra ára starf hjá Sænsku kvikmyndamiðstöðinni (2009–2012) hóf hann að vinna sem framleiðandi í fullu starfi. Hjá Nordisk Film hefur Lindström framleitt myndirnar Babylonsjukan í leikstjórn Daniels Espinosa, Den man älskar í leikstjórn Åke Sandgren og Unga Astrid í leikstjórn Pernille Fischer Christensen.

Charter er önnur kvikmyndin í fullri lengd sem Lindström vinnur að ásamt Amöndu Kernell en sú fyrri var Samablóð sem naut velgengni víða um heim.

Framleiðandi – Eva Åkergren

Eva Åkergren (1980) stundaði nám í framleiðslu sjónvarpsefnis í Gamleby í Smálöndum og hefur starfað í kvikmyndageiranum frá árinu 2001. Hún hefur verið fastráðinn framleiðandi hjá Nordisk Film í Svíþjóð síðan 2018. Åkergren var sjálfstætt starfandi framleiðslustjóri í mörg ár og vann að sænskum stórmyndum og sjónvarpsþáttaröðum á borð við Wallander (2009), Maria Wern (2011–12) og Gentlemen & Gangsters (2016). Hún hafði yfirumsjón með framleiðslu (e. line producer) verðlaunamyndanna Samablóð (2016), Dröm vidare (2017) og Border (2018) Önnur kvikmynd Amöndu Kernell í fullri lengd, myndin Charter sem var heimsfrumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni 2020, er fyrsta myndin sem hún framleiðir. Åkergren er meðframleiðandi The Long Night, væntanlegrar kvikmyndar í leikstjórn Ali Abbasi.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Charter

Enskur titill: Charter

Leikstjórn: Amanda Kernell

Handritshöfundur: Amanda Kernell

Aðalhlutverk: Ane Dahl Torp, Sverrir Guðnason, Tintin Poggats Sarri, Troy Lundkvist

Framleiðendur: Lars G. Lindström, Eva Åkergren

Framleiðslufyrirtæki: Nordisk Film Production Sverige AB

Lengd: 94 mínútur

Dreifing í heimalandi: Nordisk Film

Alþjóðleg dreifing: TrustNordisk