Eva-Stina Byggmästar
Rökstuðningur:
Ljóðabókin Vill du kyssa en rebell? („Viltu kyssa uppreisnarsegg?“, óþýdd) eftir Evu-Stinu Byggmästar (f. 1967) er tilkomumikið verk sem býður dauðanum birginn. Hér lýsir skáldið hamingjusamri og alltumlykjandi ást í bókmenntaverki sem er nánast laust við óróleika og skuggahliðar. Uppreisnarseggurinn er sá sem hafnar í ást sinni allri skynsemi, hófsemi og málamiðlunum. Það að ætlunarverk skáldsins hafi tekist – að útkoman skuli vera róttæk ástarljóðlist, full af eldmóði – má þakka því að Byggmästar hikar hvergi. Sú spenna sem ljóðlistin krefst sprettur ekki úr ástarsambandinu sem lýst er, heldur úr væntingunum til þess hvernig skuli lýsa því. Skáldið veit að hún berskjaldar sig fyrir gagnrýni en heldur sínu striki og skrifar með sínu lagi, án þess að hvika.
Viðfang ástarinnar verður að öllum heiminum – er ekki aðeins líkt við hið vanalega, eins og sólina eða vindinn, heldur líka við bláskel og við tónlistarhús með gleymdri rauðri regnhlíf í fatahenginu. Og ástarviðfangið getur virst eins og barn, eins og kolkrabbi. Þannig vex ástarsambandið – þrátt fyrir áhersluna á samneyti tveggja elskenda nær bókin líka að spanna allan hinn hugsanlega heim þar sem elskendurnir hrærast í tilfinningum, hugsunum og aðgerðum.
Líkt og segir í ljóðinu Svetslågan snýst málið „um meira en hið litla en villta / orð ljóð“, það snýst um „logsuðuna – hið ofbeldisfulla / ljós í útlínum þínum sem greypti / sig fast“.
Mörg ljóðanna eru einlægar ástarjátningar til viðfangsins sem ávarpað er í annarri persónu. Þrátt fyrir það er tungumálið í Vill du kyssa en rebell? á vissan hátt aðhaldssamara en í mörgum öðrum bókum Byggmästar. Hér er minna um nýyrði, naívisma og orðaleiki. Heimurinn umhverfis elskendurna er ekki framandi eða ævintýralegur – ef ástríðan fær þá umflúið slíkt – heldur er hann samsettur úr áþreifanlegum og kunnuglegum hlutum. Þetta er nauðsynlegt svo að ekki sjóði upp úr þeim tilfinningalega suðupotti sem verkið er. Að baki sprúðlandi óhófi og fögnuði sýnir Byggmästar fullkomna stjórn á þeim verkfærum tungumálsins sem hún beitir.
Vill du kyssa en rebell? er tuttugasta og fimmta ljóðabók Evu-Stinu Byggmästar. Hún sendi frá sér sína fyrstu bók árið 1986 og hefur síðan hlotið fjölda verðlauna í Finnlandi og Svíþjóð, meðal annars Bellman-verðlaun Sænsku akademíunnar 2018 og Karl Vennberg-verðlaunin, sem veitt eru af Samfundet De Nio, árið 2009.