Fredrik Sonck og Jenny Lucander

Photographer
Niklas Sandström / Linus Lindholm
Fredrik Sonck og Jenny Lucander (myndhöf.): Freja och huggormen. Myndabók, Förlaget, 2023. Tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

Hafið glitrar og Freja dvelur ásamt fjölskyldu sinni í sumarbústað þeirra í álenska skerjagarðinum. Skyndilega er sveitasælunni raskað af höggormi sem birtist á milli steinanna á ströndinni. Það þarf að fjarlægja hann, ákveður fullorðna fólkið og segir þau verða að hugsa um öryggi litla bróður. Fyrst reynir pabbi systkinanna að fá höggorminn til að hringa sig utan um prik en þegar það mistekst er þolinmæði föðurins á þrotum og hann drepur höggorminn. Freja, sem hefur gefið höggorminum nafnið Ormis, snýr sér að pabba sínum og kallar hann morðingja. Hún forðast að tala við hann það sem eftir er dags og það er ekki fyrr en um kvöldið, þegar feðginin hafa rætt atburðinn og þær tilfinningar sem vöknuðu, að þau ná að sættast.  

 

Í myndabókinni Freja och huggormen („Freja og höggormurinn“, hefur ekki verið þýdd á íslensku) má finna ýmis mikilvæg og áhugaverð viðfangsefni sem hægt er að ræða við börn samhliða lestrinum: dauðann, réttindi dýra og vald mannfólksins yfir náttúrunni og því hver skuli lifa og deyja. Líka það hvernig ótti og gremja geta komið fólki til að gera hluti sem það annars hefði ekki gert. Rithöfundurinn Fredrik Sonck kemur sjónarhorni barnsins vel til skila í frásögn sinni og fjallar af alvöru um tilfinningar barnsins. Fullorðnir lesendur sjá eflaust líka eitthvað kunnuglegt í þeim mörgu hlutverkum sem fullorðið fólk getur neyðst til að leika, til dæmis hlutverki karlmannsins. Þó að pabbi Freju reynist vera lélegur höggormafangari finnst honum hann verða að leysa úr þeim vanda sem höggormurinn skapar. 

 

Myndirnar í bókinni sýna þó að einnig má finna glettni mitt í öllu havaríinu og Jenny Lucander myndhöfundur kemur ýmsum fjölbreytilegum tilfinningum til skila með svipbrigðum persónanna. Lucander nýtir öll blæbrigði litrófsins í myndum sínum af hinum fjörugu meðlimum fjölskyldunnar og daglegu lífi þeirra í sumarbústaðnum. Fegurð álenska sumarsins er alltumlykjandi og fær oft að breiða úr sér yfir heilu opnurnar. Í lýsingu myndhöfundar á dauðanum býr vísun í þekkt málverk eftir finnska listmálarann Akseli Gallen-Kallela sem nefnist Móðir Lemminkäinens og byggist á söguljóðinu Kalevala. Málverk Gallen-Kallela sýnir móður að syrgja son sinn, fallna hetju, við árbakka. Úti á vatninu syndir svanur frá Tuonela, ríki hinna dauðu. Í útgáfu Lucander, sem er ekki síður dramatísk, sjáum við Freju sitja við ströndina hjá dauða höggorminum. Blátt vatnið er orðið svart á lit og hvítur svanur fylgist með stúlkunni.  

 

Hér er á ferð einstök hversdagssaga um mannlega tilvist, sögð frá sjónarhóli barns og prýdd listilegum myndum sem falla vel að frásögninni og bæta við hana. Rithöfundurinn Fredrik Sonck (f. 1982) er blaðamaður og framkvæmdastjóri hjá Ríkisútvarpi Álandseyja. Myndhöfundurinn Jenny Lucander (f. 1975) býr í Helsinki og hefur getið sér gott orð fyrir myndir sínar. Sonck og Lucander gáfu út myndabókina Freja och kråkungen árið 2020, sem var fyrsta bókin um Freju. Jenny Lucander hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2020, ásamt sænska rithöfundinum Jens Mattsson, fyrir myndabókina Vi är Lajon!. Hún hefur átt farsælt samstarf við fjölda norrænna rithöfunda og er tilnefnd til minningarverðlauna Astrid Lindgren (ALMA) árið 2024.