Gunnar Harding

Gunnar Harding

Gunnar Harding

Photographer
Portrætfoto af: Thomas Wågström
Gunnar Harding: Minnen från glömskans städer. Ljóðabók, Wahlström & Widstrand, 2023. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur:

Í Minnen från glömskans städer („Minningar úr borg gleymskunnar“, óþýdd), að því er virðist lítilli bók eftir Gunnar Harding, kallar sögumaðurinn sig draugahöfund. Hann fer um borg þar sem allir voru eitt sinn á ferli og lífið var í fullum gangi. Nú er orðið áliðið í tilverunni og brátt rúmar minnið aðeins gleymskuna:  

 

Tíminn er af æ skornari skammti. 

Samt gengur sífellt hægar að leita  

þess sem gengið er framhjá, sem verður æ lengra utan seilingar.  

 

Hér er talað um „það sem gengið er framhjá (det förbigångna)“ en ekki „hið liðna (det förgångna)“, eins og hefði kannski mátt búast við af skáldi sem hefur lagt meirihluta ferils síns að baki. En hér er á ferð ljóðskáld sem lítur af forvitni til margra átta: nostalgían lætur ekki á sér kræla. Harding skrifar um lífið sem var en einnig töluvert um það líf sem nú er, um stríðið í Úkraínu, nýjan veirusjúkdóm – og hið óhjákvæmilega myrkur: „Sjálft taumleysið, / innileiki fashana / sem bíður þess / að myrkrið slokkni líka“. Í skörpum og einföldum ljóðum er dregin upp nákvæm og blæbrigðarík mynd af tilveru þar sem fundir – fundir við annað fólk, fundir við list – sitja eftir þegar margt annað er fallið í gleymskunnar dá, þegar meira að segja sjónvarpslöggan Wallander er orðinn gamall og búinn að leysa sitt síðasta mál. 

 

Minnen från glömskans städer er tuttugasta og fyrsta ljóðabók Hardings og rúmar ljóð sem fjalla, án nokkurs uggs eða votts af kurteisisreglum, um allra stærstu spurningarnar. Hvað reyndist ástin vera? Hvað var mikilvægast? Og hvernig eigum við að geta komist síðasta spölinn – „niður að bátnum“, í okkar hinstu ferð?  

 

Harding reynist traustur leiðsögumaður um spurningar lífsins. Í nærfærnislegum og oft hversdagslegum senum, í einföldum línum sem lötra áfram í rólegum takti, leiftrar skyndileg upplifun af algerri nærveru. Ljóðrænn tjáningarmáti skáldsins er náttúrulegur og öruggur, gæddur alveg sérstökum tóni. Og Harding veit hve langt hann getur gengið án þess að týna lesandanum eða sjálfum sér. Stundum eru engin svör, heldur bara þetta:  

 

Myrkrið sagði: Hvað vissir þú þá 

sem þú ekki veist 

þann dag sem er í dag? 

Ekki margir vita 

hvers vegna skordýr laðast að ljósi, 

að sannleika,  

til að tortímast þar. 

Veist þú það? 

 

Í Minnen från glömskans städer byggir Harding á reynslu sinni eftir langa ævi í heimi ljóðlistarinnar. Stíll verksins er fágaður og aðdáunarverð nákvæmni í bæði málnotkun og ljóðrænu. Þessi bók er sjálfgefinn og verðugur kandídat til að hljóta bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. 

 

Gunnar Harding er fæddur 1940 og hefur skrifað, þýtt, kynnt og rætt ljóð og bókmenntir um áratuga skeið. Framlag hans til sænskra bókmennta sem ljóðskáld, esseyisti, gagnrýnandi og ritstjóri, meðal annars á vettvangi tímaritsins Lyrikvännen, hefur verið umtalsvert. Fyrsta bók Hardings, Lokomotivet som frös fast, kom út 1967. Síðar höfðu verk hans útgangspunkt í bandarísku beat-stefnunni og frönskum módernisma, einkum Apollinaire.