Handhafi barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016
Arnar Már Arngrímsson tók við barna- og unglingabókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir bókina Sölvasaga unglings á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
Rökstuðningur dómnefndar
Verðlaunabókin fjallar um nútímaungling og viðfangsefnin sem hann þarf að glíma við. En þó vandamálin séu kunnugleg er unglingurinn það ekki. Höfundi tekst í þessari fyrstu bók sinni að búa til persónu sem er áhugaverð, fyndin, óþolandi, leitandi og heillandi. Tungutak sögunnar er lífleg blanda af unglingamáli og ritmáli eldri kynslóðarinnar og þar rekast á menningarheimar. Lesendur fylgja unglingnum gegnum tilvistarkreppur hans sem sýna hve stormasöm unglingsárin eru og erfitt að stýra gegnum þau án skipbrots.
Því nær höfundurinn, Arnar Már Arngrímsson, að miðla af einlægni og trúnaði sínum við ungt fólk í Sölvasögu unglings.