Arnar Már Arngrímsson

Sölvasaga unglings
Arnar Már Arngrímsson: Sölvasaga unglings. Skáldsaga, Sögur, 2015

Sölvi er 15 ára gamall og allt í einu „munaðarlaus.“ Foreldrar hans hafa byggt of dýrt hús og skulda of mikið. Þau rífast líka oft en hafa nú ákveðið að taka best launuðu sumarvinnu sem þau geta fengið og fara sitt í hvora áttina.

Þau senda Sölva til föðurömmu sinnar, eldgamallar „nornar“ úti á landi. Fyrir Sölva eru þetta verri örlög en dauðinn af því að hann fær hvorki að taka símann sinn með né tölvuna og þetta eru nú einu sinni einu vinirnir sem hann á fyrir utan Skugga sem er jafn mikill lúser og hann sjálfur.

Sölvi hatar skólann, hatar foreldrana, hatar sveitina og hatar klisjur. Versta klisjan er að vandræðabörn úr borginni hafi gott af að vera í sveitinni og vinna. Sölvi ætlar ekki að láta það gerast. Hann er mjög reiður og tættur. Ef foreldrarnir halda að hann muni þroskast og vitkast af því að vera hjá ömmu sinni í sveitinni ætlar hann að sýna þeim að það virkar ekki. En það er leiðinlegt að láta sér leiðast. Það er líka erfitt að standast það góða fólk sem kringum hann er og smám saman færist ró yfir drenginn, þó aldrei lengi í einu.

Sölvasaga unglings er afar falleg innsýn í stormana sem geisa í sálarlífi unglinga sem þarfnast handleiðslu en þola hana ekki, eru á valdi kynhvata sem enginn vill sjá eða heyra, óttast höfnun og þrá viðurkenningu en kunna ekki réttar leiðir að neinu. Sagan er fjörlega skrifuð og fyndin. Sköpunargáfa Sölva er heilmikil en bókin sýnir líka hve erfið unglingsárin geta verið og stutt í afdrifaríkar öfgar.

Arnar Már Arngrímsson (f. 1972) er íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri.