Kathrine Nedrejord

Kathrine Nedrejord

Kathrine Nedrejord

Photographer
Elliot Delage
Kathrine Nedrejord: Forbryter og straff, skáldsaga, Forlaget Oktober, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Forbryter og straff („Glæpamaður og refsing“, ekki gefin út á íslensku) er fjórða skáldsaga Kathrine Nedrejord. Allt frá titli verksins, sem geymir skýra vísun í átakamikið meistaraverk Dostojevskís, byggir Nedrejord upp víðfeðma og vægðarlausa skáldsögu í einræðuformi um eftirmál ofbeldis. Enginn vafi leikur á því hver hefur orðið – þetta er ófegruð og sorgarþrungin frásögn fórnarlambsins, og um leið er Forbryter og straff skáldsaga sem hikar ekki við að blanda saman ádeilu og örvæntingu í þversagnakenndri og sársaukafullri tvíhyggju.

 

Maður kemst ekki oft í tæri við bókmenntir sem hafna fyrirgefningu og sakaruppgjöf sem siðferðislegri og lögfræðilegri ákvörðun með jafnskýrum og afdráttarlausum hætti. Forbryter og straff er skáldsaga um miskabætur, já, jafnvel hefnd og miskabætur. Drifkraftur og heimspekilegur grundvöllur þessarar áleitnu og orkumiklu skáldsögu liggur í örvæntingarfullri og umbúðalausri kröfu um að fá áheyrn án þess að vera vísað á bug, án þess að láta þvingast til auðsveipni og málamiðlana.

 

Með aðdáunarverðri stjórn á forminu og af visku fremur en hófsemi, af reiði fremur en fyrirvörum sjálfsskoðunar, leggur Nedrejord fram ákæru sína. Hún skiptir með áhrifaríkum hætti á milli knappra, viðkvæmra setninga, sem hljóma nánast í stakkató, og langra, vandlega mótaðra hugleiðinga. Forbryter og straff er auðug skáldsaga sem tekst að tala inn í samtímann og vekja jafnframt tengingar við skáldverk á borð við The Scarlet Letter, hjartaskerandi skáldsögu Nathaniels Hawthorne.