Kim Simonsen
Rökstuðningur:
Hið óendanlega haf og hin einfalda manneskja
Ljóðabókin Lívfrøðiliga samansetingin í einum dropa av havvatni minnir um blóðið í mínum æðrum („Líffræðileg samsetning eins dropa af sjó minnir á blóðið í æðum mér“, óþýdd) eftir færeyska rithöfundinn, útgefandann, sýningarstjórann og fræðimanninn Kim Simonsen er stílhreint verk, skrifað skömmu eftir andlát föður ljóðmælandans. Í kjölfar andlátsins gengur ljóðmælandi um í landslagi æsku sinnar í ónefndum færeyskum bæ og vinnur úr sorginni.
Vaxandi birtan í vetrarlandslaginu, síbreytilegt veðrið, stormur, frost og þoka umlykja ljóðin og sameina þau smáum og stórum hringhreyfingum náttúrunnar. Hafið, öldurnar og droparnir, löður hafsins, ísaðir og hálir vegir, andardráttur dýranna – sem verður sýnilegur í froststillunni – allt særir þetta fram samhengi sem einkennist af stöðugum breytingum og sköpun.
Í fyrsta ljóði bókarinnar er þessum ferlum náttúrunnar lýst sem nokkurs konar framlengingu á láti föðurins:
„Faðir minn dó í morgun,
hann sigldi allt sitt líf
um heimshöfin fimm.
Nú brotna öldurnar
sem öldurnar hafa brotið
yfir öldur.
Þannig munu öldurnar
faðma að sér ströndina
landið
allt það
sem bætist
við ofan á
allt.“
Faðirinn sem sjómaður er vel þekkt persóna í færeyskum bókmenntum. Á sama hátt er myndin af aðstandendum sjómannsins, sem standa eftir á ströndinni og rýna út á hafið, svo sígild í færeyskum bókmenntum og listum að hún er orðin að klisju. Persónu sjómannsins og myndina af aðstandendunum má vitanlega rekja til þeirra sorglegu örlaga sem margir færeyskir sjómenn hafa hlotið, en í verki Simonsens er ekkert sem bendir til þess að faðir ljóðmælanda hafi farist á sjó. Hann er einfaldlega dáinn. Ljóðmælandi hefur lifað föður sinn og í þeirri einföldu staðhæfingu má skynja nokkurs konar dapurlegan sigur. Sonurinn lifði föður sinn. Barnið lifði foreldri sitt. Það er eins og það á að vera. Í þessu smáatriði bókarinnar brýtur samhengið milli föðurins og hafsins þó í bága við hina færeysku hefð. Það er ekkert hetjulegt eða tilfinningasamt við dauða föðurins. Dauða hans er varla lýst yfirhöfuð. Í raun er lífi hans heldur ekki lýst. Þess vegna má lesa ljóðin með óvæntum létti.
Hafið gefur og hafið tekur, er oft sagt af nokkurs konar stuttaralegri forlagahyggju, en í þessum ljóðum eru örlæti og græðgi hafsins hvorki stuttaraleg né forlögum undirorpin. Öllu heldur verður hafið eins og alráður einvaldur sem gefur líf, veitir innblástur og hefur djúpa innsýn í hlutina.
Flókinn skilningur á tíma liggur gegnum ljóðin og lætur þau sveiflast milli línulegrar framvindu og síendurtekinnar hringrásar, milli lífs og dauða, blóðs og hafs, milli líffræði og heimspeki. Ljóðin fara oft minnkandi í bókstaflegum skilningi hvað snertir lengd ljóðlína, hrynjandi og hljóm. Við lok hvers ljóðs hefur safnast fyrir nokkurs konar bergmál, sem þótt þversagnakennt megi virðast rennur ekki út í glymjandi kyrrð, heldur sameinast í skilningsþrunginn óm. Þannig eru ljóðin lesin og þannig er síðunum flett, taktfast og svo að heyrist, óslitið og síendurtekið.
„Við erum manneskjur,
en minnum á aðrar lífverur
án mennskra líkama.
„Við erum manneskjur,
á meðan visið grasið
bærist fyrir vindinum
og við gleðjumst bara
yfir því að vera.
„Við erum manneskjur,
sem vakna á hverjum morgni
með gamlar minningar
og fyrrverandi drauma
á meðan við drekkum kaffi.“
Kim Simonsen á yfir 20 ára feril að baki og höfundarverk hans teygir sig þvert á bókmenntagreinar og ýmis fræða- og listasvið. Fyrri ljóðabækur hans, Hvat hjálpir einum menniskja at vakna hesumegin hetta áratúsind (2013) og Desemburmorgun (2015), hlutu góðar viðtökur gagnrýnenda. Með Lívfrøðiliga samansetingin í einum dropa av havvatni minnir um blóðið í mínum æðrum hefur Simonsen þó náð hápunkti skáldferils síns hingað til.
Hér hefur hann beitt tungumálinu til að skapa verk um sorg og sorgleg feðgasambönd sem teygir sig út yfir hið nána og persónulega, en verður hvorki biturt né tilfinningasamt. Þetta er sterkt, vistljóðrænt verk sem lætur lesandann fylgja skáldinu í stillilega tilvistarlegu atferli. Lívfrøðiliga samansetingin í einum dropa av havvatni minnir um blóðið í mínum æðrum eftir Kim Simonsen er sjálfri sér samkvæm, greindarleg, ljóðræn og afbragðs góð ljóðabók.