Korparna – Svíþjóð

Billede fra "Ravens" (Sverige) - Reine Brynolfsson
Ljósmyndari
Film And Art Affairs
Sænska kvikmyndin „Korparna“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018.

Korparna (Hrafnarnir) er byggð á samnefndri skáldsögu sem höfundurinn, Tomas Bannerhed, hlaut hin virtu August-verðlaun fyrir árið 2011.

Sögusviðið er sænskt bóndabýli á áttunda áratug síðustu aldar. Agne er bóndi í dreifbýli þar sem íbúum fer stöðugt fækkandi. Bústörfin valda honum ama og hann er haldinn þráhyggju gagnvart því að elsti sonurinn Klas taki við býlinu, svo og nagandi grun um að einhver vilji vinna fjölskyldunni mein. Klas er 15 ára. Hann dreymir um að komast langt burt frá búskapnum og er heillaður af veröld fuglanna. Þegar utanaðkomandi hættur steðja að og samviskubitið segir æ sterkar til sín stendur Klas frammi fyrir óumflýjanlegu vali milli frelsis og uppgjafar.

Rökstuðningur dómnefndar

Þessi fyrsta mynd Jens Assurs í fullri lengd er epískt verk sem bregður upp sterkri heildarmynd með skörpum smáatriðum. Afbragðsgóður og blæbrigðaríkur leikur mætir stílhreinni og fallegri kvikmyndun í verki um sænskt samfélag á breytingatímum. Bóndinn Agne tekst á við búskapinn, brostna drauma og hækkandi aldur. Eiginkona hans reynir að varna því að veröld þeirra liðist sundur meðan elsti sonurinn fylgist angurvær með sínum ástríku hröfnum í skóginum. Sagan gerist á áttunda áratug síðustu aldar og er þannig bæði fjarri og nærri nútímanum. Asser sýnir mikið listrænt hugrekki með þessari grípandi og einörðu sögu án málamiðlana sem býr yfir alheimsvíðri skírskotun.

Handritshöfundur / leikstjóri / framleiðandi – Jens Assur

Jens Assur (f. 1970) er heimsþekktur ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður. Fyrsta stuttmynd hans, Den sista hunden i Rwanda (2005), var byggð á upplifunum hans sem ljósmyndari á átakasvæðum. Myndin hlaut fjölda verðlauna, meðal annars fyrstu verðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tribeca og Best Live Action-verðlaunin á stuttmyndahátíðinni í Palm Springs. Önnur stuttmynd Assurs, Killing the Chickens to Scare the Monkeys, var frumsýnd á Directors‘ Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2011 og hefur hlotið yfir 20 viðurkenningar, svo sem fyrstu verðlaun á Nordisk Panorama. Næstu stuttmyndir hans, A Society og Hot Nasty Teen, voru báðar valdar á dagskrá stuttmyndahátíðarinnar í Clermont-Ferrand.

Korparna, frumraun Assurs i fullri lengd, var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og sýnd í kjölfarið á 15 öðrum hátíðum, m.a. í San Sebastián, Busan, Lundúnum, Róm, Rotterdam og San Francisco. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna, meðal annars sem besta mynd og fyrir besta leik í aðalhlutverki á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Þessalóníku í Grikklandi.

Árið 2012 hlaut Jens Assur viðurkenninguna International Filmmakers Award, sem veitt er af Sundance-stofnuninni og japönsku ríkisfréttastofunni NHK.

Framleiðandi – Jan Marnell

Sænski framleiðandinn Jan Marnell (f. 1946) hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á alþjóðavettvangi á yfir 30 ára ferli sínum í kvikmyndum og sjónvarpi, en auk Norðurlandanna hefur hann starfað í Ástralíu, Marokkó, Jórdaníu og á Spáni. Hann er einn af stofnendum framleiðslufyrirtækisins Right2Screen.

Marnell lauk námi frá Swinburne-kvikmyndaskólanum í Ástralíu árið 1978 og hlaut þjálfun hjá ástralska framleiðslufyrirtækinu Crawfords. Fyrsta myndin sem hann framleiddi var Skuggan av Henry fyrir sænska ríkissjónvarpið árið 1985. Síðan hefur Marnell unnið að yfir 15 sjónvarpsmyndum og styttri og lengri þáttaröðum. Þar á meðal eru Arn – Tempelriddaren eftir Peter Flinth (2010) og þáttaröðin Midnattssol eftir Måns Mårlind og Björn Stein (2016).

Á meðal kvikmynda sem Marnell hefur framleitt eru Carambole eftir Daniel Lind Lagerlöf, Hamilton – I nationens intresse eftir Kathrine Windfeld og verðlaunamyndin Korparna, leikstjórnarfrumraun Jens Assur.

Framleiðandi – Tom Persson

Tom Persson (f. 1986) er einn af stofnendum framleiðslufyrirtækisins Film & Art Affairs, en áherslusvið þess eru kvikmyndir í fullri lengd og listræn ljósmyndun. Hann er einnig eigandi fjárfestingafyrirtækisins Co_Made.

Persson útskrifaðist frá MetFilm School í London árið 2008. Eftir útskrift fluttist hann aftur til Stokkhólms þar sem hann starfaði meðal annars fyrir Titan Television. Síðar framleiddi hann Korparna, leikstjórnarfrumraun Jens Assurs. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna, meðal annars sem besta mynd og fyrir besta leik í aðalhlutverki á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Þessalóníku í Grikklandi.

Persson starfar með fjölda fyrirtækja á sviði sjónvarps, kvikmynda, sýndarveruleika o.fl. á vettvangi fjárfestingafyrirtækis síns, Co_Made.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Korparna

Leikstjórn: Jens Assur

Handrit: Jens Assur

Aðalhlutverk: Reine Brynolfsson, Maria Heiskanen, Jacob Nordström

Framleiðendur: Jan Marnell, Tom Persson, Jens Assur

Framleiðslufyrirtæki: Film & Art Affairs, Right2Screen

Lengd: 107 mínútur

Dreifing í Svíþjóð: TriArt

Alþjóðleg dreifing: Celluloid Dreams