Malin Klingenberg og Maria Sann

Ljósmyndari
Aja Lund
Malin Klingenberg og Maria Sann (myndhöf.): Skelettet. Myndabók. Schildts & Söderströms, 2022. Tilnefning til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

Teo fer í veislu í kanínubúningi. Hann skemmtir sér vel þangað til dálítið leiðinlegt kemur fyrir. Inni á dimmu baðherbergi mætir hann glottandi beinagrind sem hræðir hann svo að hann dettur og meiðir sig. Á sjúkrahúsinu fer hann í röntgenmyndatöku og fær gifs á brotinn handlegginn. Þá áttar Teo sig á því að það er líka beinagrind inni í honum sjálfum. Hvernig getur það verið? Verður beinagrindin hans líka hrædd? 

 

Myndabókin Skelettet („Beinagrindin“, hefur ekki verið þýdd á íslensku) eftir Malin Klingenberg og Mariu Sann er sögð frá sjónarhóli barnsins og hefur útgangspunkt í samstöðu og inngildingu. Teo reynir að skilja beinagrindina, bæði sem raunverulegt fyrirbæri og myndlíkingu – sem eitthvað sem er til bæði utan og innan hans sjálfs. Með hugmyndaflug og leikgleði að vopni tekst hann á við ýmsar tilvistarlegar spurningar sem þessar ólíku hugmyndir um beinagrindur vekja. Viðfangsefnið og leikræn framsetningin standa föstum fótum í sýn Teos á heiminn í kring – sem sýnir um leið getu barnsins til þess að skilja tilveruna og ljá henni merkingu á sinn hátt: „Ég velti fyrir mér hvort beinagrindinni minni líði vel í líkamanum mínum. Ég velti fyrir mér hvort beinagrindin mín svitni líka þegar við hlaupum. Ég velti fyrir mér hvort beinagrindina mína dreymi um að fá að leika draug í tívolíi. Ég velti fyrir mér hvort beinagrindin mín muni sakna mín þegar ég dey.“ 

 

Knappur texti Klingenberg og dýnamísk samtölin eru umvafin úthugsuðum myndheimi eftir Sann. Á sláandi svartri kápunni stendur Teo augliti til auglitis við glottandi beinagrind (eða brosir hún vinalega?) sem lýsir í myrkri. Svarti liturinn birtist einnig á opnum inni í bókinni þar sem myndhöfundur lætur myrkur og ljós eiga í heillandi samspili svo að útkoman minnir á röntgenmynd, til dæmis þegar mamma Teos ber höndina upp að náttborðslampanum til að sýna honum að það sé líka beinagrind inni í henni. Sann gerir myndabók úr frásögninni á snurðulausan hátt og kemur lesandanum á óvart á hverri síðu með fjölbreytilegum opnum, óvæntu sjónarhorni og einkar næmum myndlýsingum á hinum tilfinningaríka dreng sem sagan hverfist um. 

 

Skelettet er myndabók sem virðist einföld við fyrstu sýn en vex með hverjum lestri. Klingenberg og Sann takast á við hin tilvistarlegu stef frásagnarinnar af mikilli færni og næmleika. Hin djúpa alvara textans er krydduð með hlýrri og leikandi kímni á grípandi hátt sem ávallt er nærri upplifun barnsins. Eins og titilsíða bókarinnar sýnir, þá býr mögulegt „skrímsli“ innra með okkur öllum. Eða að minnsta kosti beinagrind sem við getum faðmað og vingast við. 

 

Malin Klingenberg (f. 1979) er finnlandssænskur rithöfundur sem gaf út sína fyrstu barnabók árið 2010. Síðan þá hefur hún einkum skrifað barnabækur og myndabækur í samstarfi við ýmsa myndhöfunda. Bækur hennar hafa meðal annars verið þýddar á finnsku, dönsku, ensku, eistnesku, búlgörsku, þýsku, spænsku, tékknesku, ítölsku, kínversku og kóresku. Klingenberg hlaut Runeberg Junior-verðlaunin árið 2017. 

 

Maria Sann (f. 1982) er finnskur myndhöfundur sem hefur myndlýst ýmsar barna- og myndabækur síðan fyrsta bók hennar kom út árið 2019. Árið 2021 hlaut hún Rudolf Koivu-verðlaunin fyrir myndabókina Bokstavsvärldar, sem inniheldur texta eftir Henriku Andersson. Skelettet (2022) er önnur myndabókin sem Klingenberg og Sann vinna að saman.