Minna Lindeberg og Jenny Lucander (myndskr.)

Vildare, värre Smilodon
Minna Lindeberg og Jenny Lucander (myndskr.): Vildare, värre, Smilodon. Myndabók, Förlaget, 2016

Vildare, värre, Smilodon („Villtari, verri, Smilodon“, hefur ekki komið út á íslensku) eftir Minnu Lindeberg (f. 1968) og Jenny Lucander (f. 1975) boðar nýja tíma í ritun finnlandssænskra myndabóka.

Sagan gerist á leikskóla, þar sem lífið snýst um að aðlagast hópnum og ögra honum í senn. Sögusviðið skapar rými til að fjalla um fjölbreytileika og samfélagsleg viðfangsefni á áhrifamikinn hátt. Bækur Minnu Lindeberg hafa verið myndskreyttar af ýmsum teiknurum. Mildar pastelmyndir Liisu Kallio í Pappa född lejon (2006) kalla fram allt önnur hughrif en litskrúðugar og blæbrigðaríkar teikningar Lindu Bondestam eða Jenny Lucander. Jenny Lucander (f. 1975) er ein af þeim listamönnum sem eiga myndabækur á ferðasýningunni BY. Hún myndskreytti bókina Dröm om drakar (2015) eftir Sönnu Tahvanainen, sem tilnefnd var til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016, Flickan som blev varg eftir Sofiu Hedman (2014) og Singer (2012) eftir Katarinu von Numers-Ekman. Í Vildare, värre, Smilodon fær þétt og blæbrigðarík persónusköpun að njóta sín í lúmskum teikningum þar sem ytri veruleiki og innri hugarheimur renna saman í eitt. Jenny Lucander ögrar hefðbundinni rúmskynjun lesandans og hefur meistaraleg tök á myndabókarforminu. Texti Minnu Lindeberg er eins og tónverk, flutt af hljómsveit undir styrkri stjórn Jenny Lucander. Saman eiga teikningar og myndmál Lucander og texti Lindeberg í kraftmiklu samtali.

Hér mætast tveir sjálfstæðir listamenn með neistaflugi sem veitir þeim sem les og hlýðir á söguna þá ánægju að meðtaka frásögnina af eigin rammleik og á mörgum sviðum samtímis. 

Um listina að falla inn í hópinn eða falla í glötun

Aðalpersónur bókarinnar, hin hömlulausa Annok Sarri og hin íhugula Karin Bergström, eiga í vináttusambandi sem á hug þeirra allan. Full nöfn stúlknanna eru notuð, sem gefur til kynna að hér sé sjónarhorn barnsins í fyrirrúmi. Starfsfólk leikskólans er sífellt í kaffi og sýnir bjástri barnanna lítinn áhuga, þangað til Annok tekur kast og hendir dúkku í spegil svo að hann mölbrotnar. Samtöl starfsfólksins og stúlknanna tala sínu máli:

„Hvað ertu að hugsa um, Annok Sarri?“ veltir Marianne fyrir sér. „Hugsarðu nokkuð yfirleitt?“

„Nei, ég er bara að hugsa um skít!“ æpir Annok.

„Spegilbrotin eru flott, þetta er eins og bankarán,“ segi ég til að hughreysta Annok.

En rödd mín lýtur auðveldlega í lægra haldi fyrir óhljóðum hinna fullorðnu.

Minna Lindeberg skrifar knappan og nákvæman stíl. Annok er nafna norsk-samíska rithöfundarins Annok Sarri Nordrå, sem skrifaði um tilraunir samískrar stúlku til að aðlagast á nýjum stað, og er það greinileg skírskotun í umræðu um þjóðabrot og uppruna. Eftir að Annok tekur kastið flytur hún í hjarta Lapplands; Gáregasnjárga í Utsjoki.

Stéttabarátta og femínismi fyrir byrjendur

Eitt af því frumlega við Vildare, värre, Smilodon er hvað persónurnar eru áberandi fulltrúar sinnar stéttar. Pabbi Annok, með derhúfu og fýlusvip, og mamma Karinar með skærbleikt eða grænt hár og úttroðna matarpoka úr stórmarkaðnum, brjóta upp það miðstéttarsjónarhorn sem hefur verið ríkjandi í norrænum myndabókum. Á borðinu heima hjá Karin liggur tölublað af kvennatímaritinu Astra, og á forsíðunni sést finnska listakonan Iiu Susiraja – sem notar offitu og uppreisn gegn hefðbundnu heimilishaldi sem stef í sjálfsmyndum sínum – sýna lesandanum digran fingur. Þetta auðgar persónusköpun bókarinnar og gerir hana margbrotnari en ella.

Myndræn og skrautleg frásögnin er ögrandi miðað við hefðir samtímans og listasögunnar. Sumar opnurnar í bókinni minna helst á munstur Josephs Frank. Höfundur notar kvenlega listsköpun og listaheiminn almennt sem stef í verkinu og nær þannig að útvíkka snertifleti þess. Það er tímanna tákn hversu áberandi er í bókinni að talað sé til lesenda þvert á kynslóðir, enda er hún allt eins ætluð fullorðnum og börnum. Kjarni sögunnar er hrífandi lýsing á vináttu og söknuði.

Áhugi Karinar á náttúruvísindum veitir sameiginlegri veröld stúlknanna aukna vídd. Þannig verður til dæmis fornaldardýrið Smilodon, sverðkötturinn, táknmynd þeirra breytinga sem þær ganga í gegnum. Á síðustu opnu bókarinnar sjáum við daglegt líf Karinar í stórborginni við hliðina á lífi Annok í Utsjoki, þar sem norðurljós líða yfir himininn í stórfenglegri sýn á tilveruna á okkar norðlægu slóðum, og á það hvernig söknuður og samkennd geta gert fjarlægðir að engu.