Øyvind Torseter

Mulegutten
Øyvind Torseter: Mulegutten. Myndabók/teiknimyndasaga, Cappelen Damm, 2015

Mulegutten (Múlaguttinn) er ævintýri um konung sem sendir sex af sjö sonum sínum út í heim að finna sér prinsessur. Þegar enginn þeirra snýr aftur leggur Mulegutten, sjöundi sonurinn, af stað til að grafast fyrir um afdrif bræðra sinna. Hann kemst að því að tröll hefur breytt bræðrunum og unnustum þeirra í stein, og eltir tröllið inn í fjallið til að frelsa prinsessuna sem þar er haldið fanginni.

Bókin byggir lauslega á norska ævintýrinu um Hjartalausa risann en er þó fjarri því að vera endursögn; sagan um Mulegutten fer sínar eigin leiðir allt frá fyrstu síðu. Mulegutten leggur af stað á taugaveikluðum hesti með furðulegan gang. Líkt og bóndasonurinn úr öskustónni í öðru ævintýri finnur hann ýmsa muni á leiðinni; hér er það saxófónn sem mun koma sér vel, og fíll sem hefur fest ranann í trjábol en ekki norn sem hefur fest á sér nefið.

Höfundur nýtir sér eiginleika myndabóka og teiknimyndasagna sitt á hvað. Frásögnin fer ýmist fram í myndum eða texta, sem stundum er inni í talblöðrum. Litavalið er einkennandi og áhrifamikið, með skýrum línum og hvítum fígúrum, og lesendur hafa sennilega aldrei séð annað eins tröll. Eða aðra eins prinsessu; dálítið frakka, talsvert ráðagóða og svolítið lúmska. Hér er á ferðinni kímin, átakanleg og falleg saga. Hver opna kemur á óvart og er frábrugðin hinum fyrri, og alltaf er eitthvað fyrir augað; hver mynd segir heila sögu.

Frásögnin byggir á þjóðlegri kvæðahefð, en sýnir hefðina jafnframt í kaldhæðnu ljósi. Bókin talar beint inn í hnattvæddan samtíma okkar. Mulegutten er hreinasta fjársjóðskista.

Bókin hlaut Kritiker-verðlaunin í heimalandinu og var tilnefnd til verðlauna norska menningarmálaráðuneytisins fyrir bestu myndabók ársins 2015.

Hinn norski Øyvind Torseter er verðlaunaður myndskreytir, höfundur barnabóka og teiknimyndasagna og myndlistarmaður. Hann hefur gefið út fjölda myndabóka, bæði með eigin textum og sem myndskreytir í samstarfi við aðra höfunda. Fyrir þær hefur hann hlotið ýmis virt verðlaun og viðurkenningar.

Øyvind Torseter stundaði nám við Merkantilt Institutt og Skolen for Grafisk Design í Noregi, svo og Kent Institute of Art and Design í Englandi.