Sigurður Pálsson

Sigurður Pálsson
Ljósmyndari
Jóhann Páll Valdmimarsson
Sigurður Pálsson: Ljóð muna rödd. Ljóðasafn, JPV útgáfa, 2016

Sigurður Pálsson fæddist á Skinnastað í Öxarfirði 30. júlí 1948. Fyrstu ljóð hans birtust á prenti árið 1967 og átti hann því rétt tæplega fimmtíu ára höfundarferil að baki þegar ljóðabókin Ljóð muna röddkom út árið 2016. Sigurður hafði þá einnig skrifað skáldsögur, leikrit, sjálfsævisögur og handrit fyrir bæði útvarp og sjónvarp, auk þess að vera afkastamikill þýðandi.

Ljóð muna rödd er sextánda ljóðabók Sigurðar, en þeim fimmtán sem á undan komu má deila í fimm þríleiki. Á sama tíma og í henni má greina kunnugleg stef úr verkum Sigurðar er hún jafnframt ein allra persónulegasta bók hans. Sigurður greindist árið 2015 með ólæknandi krabbamein í brjósthimnu. Veikindi hans eru bersýnilegur og afar áhrifamikill þráður í gegnum alla bókina, þar sem ljóðmælandi beitir orðinu gegn ofuraflinu, dauðanum.

Verk Sigurðar einkennast mörg af mótspili tveggja póla, leiksins og orðflæðisins og strúktúrs. Í Ljóð muna rödd er verkið byggt á fjórum köflum sem heita eftir sjálfum náttúruöflunum, undirstöðum lífsins.

Fyrsti hluti bókarinnar ber heitið Eldur og skuggar og í samnefndu upphafsljóði birtast tvö af lykilstefjum bókarinnar. Röddinni, sem ljær bókinni titil sinn, bregður fyrir strax í annarri línu, auk þess sem ljóðmælandi ákallar og minnist áhrifamestu kennara sinna, lærimeistaranna Voltaire, Mozart og Nietzsche. Við skynjum því þegar að hér er á ferðinni persónulegt verk og þegar röddin brýnir fyrir okkur að „sólrík glaðværð“ sé rétta afstaðan gagnvart órættlæti og ofbeldi er tónninn gefinn.

Í þessum fyrsta kafla birtist röddin, orðin, ljóðið okkur sem umbreytandi afl, jafnvel andspænis slíkum ofurkröftum sem dauðanum, eins og segir í ljóðinu Orð og draumar þar sem dauðanum er haldið fjarri á meðan „ágústbirtan breytir draumum í orð, breytir orðum í drauma“. Á sama tíma er hverfulleikinn hið eina sem er stöðugt: „stafróf eldsins er síbreytilegt. Skapandi og eyðandi í senn.“

Ljóðin í öðrum kaflanum, Jörð, standa mörg nær prósaforminu. Ljóðin markast af endurliti og í þeim má greina melankólíu og fínlegan trega, en ekki eftirsjá. Í ljóðinu Fámenn eyja er dauðinn enn nær en fyrr: „Íbúar fjölmennra landa verða einir á banabeði. Nákvæmlega eins og ég. Engar milljónir samlanda þeirra verða þeim að neinu liði. Ekki frekar en mér.“

Þriðji hluti verksins samanstendur af samnefndum ljóðabálki, Raddir í loftinu.Þar færumst við enn nær kjarna verksins þar sem ljóðmælandi stillir fegurðinni, ljóðlistinni, upp andspænis dauða og gleymsku og fegurðinni sem kjarna lífsins. Ljóðlínurnar iða af leikgleði: Ljóðlínurnar iða af leikgleði: „Að vera lifandi / er að viðhalda glaðværri spurn / og undrun / sem kviknar á hverjum morgni.“

Lokakafli verksins heitir Vötnin yfir, vötnin undir og þar teygir skáldið sig yfir í það sem koma skal, við fetum okkur varlega inn á ótroðnar slóðir, það sem bíður handan dauðans. Ummyndunin nálgast, í næstsíðasta ljóði bókarinnar gufar sjálfur ljóðmælandinn upp og skilur ekkert eftir sig nema blað með bókstöfum.

Ljóð muna rödd er hrífandi verk og áhrifamikið. Tónninn sem raddir skáldsins slá er kunnuglegur og um leið nýskapandi, hann er tónninn sem berst frá hljómkvísl mennskunnar. Skáldið er hér fánaberi fegurðarinnar og listarinnar andspænis eyðingaröflum, jafnt pólítískum sem náttúrulegum.

Röddin sem í verkinu hljómar er djúpvitur og vís, en jafnvel þar sem hún ber okkur skýran boðskap er hún aldrei rödd hins upphafna kennara eða fyrirlesara. Röddin er vissulega íhugul, en líka glettin, brothætt, erótísk og jafnvel stríðin. Og alltaf mannleg, fram að síðustu umbreytingu.

Þótt verkið sé afar persónulegt er það allt annað en persónubundið, það talar til hinna eilífu lögmála, hverfulleika mannsins andspænis dauðanum og skyldu hans til þess að „hefja upp raust sína og /gegna hlutverki sínu / göfugu hlutverki sínu: // Að syngja hinu hverfula dýrðaróð / Syngja hinu horfna saknaðaróð / Syngja hinu ókomna fagnaðaróð.“

Sigurður Pálsson lést af veikindum sínum í Reykjavík haustið 2017. Honum var kunnugt um tilnefninguna til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og kom að þýðingu verksins.