Tilnefningar 2012

Mjölkört
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Tilnefningar til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2012.

Carsten Rahbek, Danmörku

Carsten Rahbek er einn helsti sérfræðingur heims á sviði líffræðilegs fjölbreytileika. Með rannsóknum sínum hefur hann eflt og stuðlað að raunhæfri stjórnun líffræðilegs fjölbreytileika heima og erlendis, átt hlut í að mennta vísindamenn og stjórnendur líffræðilegs fjölbreytileika í framtíðinni, tekið þátt í þjóðfélagsumræðunni og stuðlað að aukinni þekkingu almennings á lífrræðilegum fjölbreytileika.

Søren Rud/Stine Trier Norden, Life Exhibitions, Danmörku

Með utanhússljósmyndasýningum sínum um loftslags- og umverfismál og líffræðilegan fjölbreytileika hafa Stine Trier Norden og Søren Rud unnið að því að koma erfiðum skilaboðum til milljóna manna. Þau byrjuðu árið 2001 með að setja upp ljósmyndasýningu hins fræga franska ljósmyndara Yann Arthus-Bertrands, Jörðin séð frá himnum, og voru á þann hátt upphafsmenn að stefnu sem margir hafa síðan fylgt. Um þessar mundir sjá þau um sýningu um náttúru Evrópu, Wild Wonders of Europe.

Olli Manninen, Finnlandi

Olli Manninen hefur verið virkur í verndun skóglendis og í herferðum frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfismála frá því 1998. Árið 2005 hóf hann að byggja upp samstarf frjálsra félagasamtaka í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi og annarra áhugamanna um málefni skógar með það að markmiði að safna og miðla þekkingu um náttúruleg gildi skóga og stuðla að kynningu á náttúruvernd.

Luonnonperintösäätiö, (ásamt Naturarvet), Finnlandi

Stofnunin Luonnonperintösäätiö var stofnuð árið 1995 með það að markmiði að efla náttúruvernd í Finnlandi. Stofnunin leitar að ósnertu skóglendi í Finnlandi með eignarhald í huga svo hægt sé að friða það varanlega samkvæmt náttúruverndarlögum. Starf stofnunarinnar byggir að mestu á frjálsum framlögum. Framlögin eru notuð til þess að kaupa landsvæði og vernda skóglendi.

Jens-Kjeld Jensen, Færeyjum

Jens-Kjeld Jensen hefur með markvissu starfi og af miklum áhuga tekið þátt í að rannsaka og varðveita færeyska náttúru og umhverfi um margra ára skeið. Hann er einn af dyggustu stuðningsmönnum ábyrgrar náttúrustjórnunar í Færeyjum og hefur hann með staðgóðri þekkingu, áhuga og djörfung verið talsmaður ábyrgrar náttúrustjórnunar jafnt á einka sem almennum vettvangi

Eymundur Magnússon, Íslandi

Eymundur Magnússon bóndi í Vallanesi og eigandi fyrirtækisins Móðir jörð ehf. hefur undanfarin 25 ár stundað lífrænan búskap og gróðursett skjólbelti með staðbundnum trjátegundum sem eru grundvöllur vistkerfa þar sem aðrar plöntur þrífast. Hann hefur einnig lagt áherslu á mannlegan fjölbreytileika: ár hvert starfa hjá honum ungir sjálfboðaliðar og mynda þannig alþjóðlegan félagsskap sem er trúr jörðinni og lærir að sýna umhverfi sínu virðingu.

Pétur Mikkel Jónasson, Íslandi

Pétur M. Jónasson hefur á löngum ferli sem frumkvöðull í rannsóknum á vistkerfum vatna unnið að því að upplýsa almenning og vísindamenn um vatnalífverur og vistkerfi í vötnum á norðurhveli jarðar. Pétur M. Jónasson og samstarsfmenn hans hafa stundað rannsóknir í mörgum löndum, en mest við Mývatn og Þingvallavatn.

Regnskogfondet, Noregi

Regnskogfondet vinnur að því að varðveita regnskóga heimsins og tryggja frumbyggjum og samfélögum á þeim svæðum réttindi og lifibrauð. Sjóðurinn leggur áherslu á að ekki felist mótsögn í sjálfbærri nýtingu skógar og varðveislu regnskógarins fyrir komandi kynslóðir. Stofnunin er í fararbroddi á Norðurlöndum hvað varðar verndun regnskóga.

Insamlingsstiftelsen Naturarvet, (ásamt Luonnonperintösäätiö), Svíþjóð

Naturarvet eru söfnunarsamtök sem hafa virkjað þúsundir manna í Svíþjóð, og víðar á Norðurlöndum og um allan heim, með það að markmiði að bjarga skóglendi með viðkvæma náttúru. Söfnunarsamtökin Naturarvet nefndust áður „Ett klick för skogen”, sem endurspeglar hvernig samtökin hafa á nýstárlegan hátt virkjað almenning, fyrirtæki og samtök til þess að safna fjármagni til að kaupa skóglendi með mikinn líffræðilegan fjölbreytileika.

Stiftelsen Nordens Ark, Svíþjóð

Nordens Ark eru hugsjónasamtök sem vinna að því að tryggja framtíð dýra í útrýmingarhættu með ræktun, fóstrun, rannsóknum og menntun ásamt því að vinna að miðlun þekkingar um líffræðilegan fjölbreytileika. Stór hluti starfseminnar fer fram í náttúrunni, bæði í Svíþjóð og erlendis. Nordens Ark nýtir aðferðir sem fjölga dýrum með því að sleppa þeim út í náttúruna og með því að bæta vistkerfi þar sem dýrin lifa.

Ålands biodlarförening r.f., Álandseyjum

Samtök býflugnaræktenda á Álandseyjum halda upp á tuttugu og fimm ára afmæli sitt árið 2012. Félagar í samtökunum miðla þekkingu um nytsemi býflugna í náttúrunni til viðskiptavina sem kaupa hunang á mörkuðum og til ávaxta- og berjaræktenda. Býflugnaræktendur á Álandseyjum hafa einnig verið lausir við varroa-maurinn í búum sínum, sem hefur gert þeim kleift að flytja út bú til Svíþjóðar og Íslands. Öll býflugnabú á Íslandi eru frá Álandseyjum.

Contact information