Tómas Zoëga og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir

Ljósmyndari
Forlagið
Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur (myndhöf.): Skrímslavinafélagið. Barnabók, Forlagið, 2023. Tilnefning til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

Skrímslavinafélagið segir frá Stefaníu og Pétri sem leika sér daglega við skítalækinn á skólalóðinni og safna hugrökkum vatnabobbum sem leynast inn á milli ryðgaðra innkaupakerra. Við kynnumst líka Jóhanni Steini, sem er nýbyrjaður í bekknum hennar Stefaníu. Það kemur fljótt í ljós að Pétur er alls ekki spenntur fyrir þessum nýja skólafélaga og finnst ekki pláss fyrir fleiri en tvo í leynifélaginu þeirra Stefaníu.  

 

Í Skrímslavinafélaginu er fjallað um hversdagslegt mótlæti frá sjónarhóli ungra lesenda í einfaldri en vandaðri frásögn sem er skrifuð af virðingu fyrir börnum. Áherslan er ekki á móralskan boðskap heldur felst styrkur bókarinnar í því hvernig hversdagslegt líf og ævintýrahugsun blandast saman. Höfundarnir hafa einstakt lag á að draga fram allt hið smávægilega en samt stórkostlega sem einkennir æskuna. 

 

Stefanía og Pétur taka sýni af dularfullu svörtu dufti sem veggurinn í skólanum þeirra framleiðir og sýna hverfisnorninni. Hér er sjónarhorn barnsins styrkt enn frekar. Nornin er eldri kona í hverfinu sem er aðeins á skjön við hið hefðbundna, en það er ekkert til að fjölyrða um. Fullorðinn lesandi áttar sig á því hvaða efni börnin hafa fundið. Mygla í skólahúsnæði er algengt vandamál og jafnvel hálfgert samfélagsmein á Íslandi. En það sem er alvörumál í augum hinna fullorðnu verður krökkunum efni í magnað ævintýri. 

 

Persónusköpun bókarinnar er einstaklega skemmtileg og sýnir sig best í glímu vinanna við ytri aðstæður. Stefanía er forvitin, djörf og drífandi, en Pétur er var um sig og tekur engar óþarfa áhættur, hvorki gagnvart fólki né náttúru. Stefanía er sterk fyrirmynd. Hún stríðir ekki, hún er fjörug og skemmtileg en segir vini sínum líka til. Pétur hefur hins vegar tilhneigingu til óöryggis. Dýnamíkin milli persónanna hjálpar ungum lesendum að þróa með sér siðferðislegan áttavita, án þess að honum sé beinlínis þröngvað upp á þau. 

 

Myndir Sólrúnar Ylfu eru litríkar og lifandi, fullar af húmor og litlum skemmtilegum andartökum sem auka aðdráttarafl bókarinnar. Stíllinn er markviss og myndirnar kallast á við texta bókarinnar í einfaldleika sínum og fjölmörgum smáatriðum sem í þeim leynast.  

 

Bókin tekur á vináttu, flækjunum þegar tvíeyki verður að þríeyki, því að verða útundan eða fá að vera með. Hún býður upp á spjall um ákvarðanir í daglegu lífi barna, hverjar séu afleiðingar fyrir þau sjálf og aðra og hvernig hægt sé að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Umfjöllunarefnið er beintengt raunveruleika íslenskra barna, en vandamálin sem fjallað er um verða samt aldrei stærri en ævintýrið. 

 

Tómas Zoëga stundar doktorsnám við háskólann í Ósló jafnframt því að sinna ritstörfum. Fyrir barnabókina Vetrargestir hlaut hann Íslensku hljóðbókaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2020. Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir er fiðluleikari, myndskreytir og hreyfimyndasmiður. Hún hefur myndskreytt barnabækur og gert stop motion stuttmyndir. Sólrún stundar fiðlunám við Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Tómas og Sólrún Ylfa unnu samkeppni Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar um jóladagatal ársins 2020 með sögunni Nornin í eldhúsinu