Vigdis Hjorth

Vigdis Hjorth

Vigdis Hjorth

Ljósmyndari
Sara Angelica Spilling
Vigdis Hjorth: Er mor død. Skáldsaga. Cappelen Damm, 2020 Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Vigdis Hjorth hefur áratugum saman verið í hópi þýðingarmestu höfunda sem skrifa á norsku. Þó hefur viss breyting átt sér stað undanfarin ár. Hún hefur fengið fleiri lesendur, fleiri af bókum hennar hafa verið þýddar á fleiri tungumál en áður og hún hefur hlotið fleiri verðlaun, en ýmsir gagnrýnendur myndu einnig segja: Bækur hennar hafa orðið æ betri.

Er mor død („Er mamma dáin“, hefur ekki komið út á íslensku) er spennuþrungin og áleitin skáldsaga þar sem mörg hinna helstu viðfangsefna Hjorth koma saman – lausn og uppgjör í nánum samböndum, sú spurning hver eigi tiltekna frásögn, sjónarhorn hvers eigi að vera ráðandi og hvernig megi láta rödd sína heyrast – allt í þéttu stofudrama.

Í skáldsögunni segir frá myndlistarkonunni Johönnu. Þrjátíu árum fyrr tók Johanna ákvörðun: Hún flutti til Bandaríkjanna og hefur þar sinnt list sinni og eignast fjölskyldu. Hún hefur ekki talað við móður sína eða aðra ættingja í Noregi árum saman, og það sem í fyrstu virtist saklaus skortur á samfellu í samskiptum hefur smám saman orðið að gapandi sári.

Þegar hún flytur heim til Noregs tekur hún skyndiákvörðun og hringir í móður sína, hugsar sem svo að kannski losni um flækjuna ef einhver tekur bara fyrsta skrefið. En móðirin vill ekki tala við hana, og samfara hinum vaxandi mótþróa Johönnu verður forvitni hennar smám saman að þráhyggju sem lætur hana liggja í runnunum fyrir utan heima hjá móður sinni, njósna um hana, elta hana heim úr búðinni. Í stuttum, áleitnum köflum með fyrstu persónu frásögn verður sagan æ tilfinningaþrungnari í rannsókn sinni á því sem gerist innra með okkur þegar náin tengsl fara forgörðum: hugmyndin um það sem tapast hefur vex og tekur loks á sig sjálfstæða mynd sem er nánast meira lifandi í ímyndun en nokkru sinni í raunveruleikanum. Og það veit Johanna líka sjálf: „Ég yrki mömmu með orðum!“

Togstreitan í fjölskyldu Johönnu hefur ekki skýran kjarna, en megininntakið er grundvallarósætti um sameiginlega forsögu fjölskyldunnar, hið innra líf hennar. Móðir Johönnu og systir hafa sína útgáfu, hún sjálf allt aðra. Er mor død  sækir að hluta innblástur í  Den burtkomne faderen  (1899) (Týndi faðirinn, David Östlund 1902, Árni Jóhannsson þýddi) eftir Arne Garborg. Líkt og í skáldsögu Garborgs hefur Johanna farið til Bandaríkjanna í leit að frelsi – frelsi sem hún hefur meðal annars nýtt til að skapa list um fjölskyldutengsl. Hún hefur þó talið að verk á borð við „Barn og móðir 1“ og „Barn og móðir 2“ veki fyrst og fremst spurningar almenns eðlis og botnar í fyrstu ekki í uppnámi móður sinnar og systur, sem lesa neikvæða framsetningu á fjölskyldu listakonunnar úr verkum hennar. Kaflana um tengsl listar og lífs – þar sem alls ekki er víst að listamaðurinn sjálfur hafi veigamest rök fram að færa – er freistandi að lesa í samhengi við þá umræðu um lifandi fyrirmyndir skáldsagnapersóna sem kviknaði eftir útkomu skáldsögunnar Arv og miljø (2016) eftir Hjorth.

En þetta snýst ekki eingöngu eða fyrst og fremst um list. Höfundur nýtir hinn óræða skaða sem orðið hefur – það hvernig tengslin fjöruðu smám saman út – til að rýna í eðli fjölskyldutengsla út frá ómeðvituðu samspili þátta sem hníga ekki alltaf í sömu átt og orðin sem fólk segir. Slík rannsókn á draumórum okkar um fólk sem ekki er lengur hluti af lífi okkar – á því hvernig við sköpum hvert annað með orðum og myndum – getur átt við um alls kyns tengsl, og í skáldsögunni er því líka lýst hve stutt er á milli þeirrar fíknar sem ástin kveikir og æðisins sem runnið getur á fólk í kjölfar höfnunar. Gjörðir hins aðilans, þess sem maður sér aðeins í eigin draumum eða martröðum, vekja mestan áhuga: „Af því að við erum goðsagnakennd fyrirbæri hvert í augum annars, og af því að við erum óvinir – hver er ekki forvitinn um óvini sína?“

Ef mamma er ekki dáin í eiginlegum skilningi geymir skáldsagan óvenju áleitna lýsingu á því hvernig manneskjur sem verið hafa mjög nánar verða líkt og lifandi draugar hver fyrir annarri, jafnvel löngu áður en þær deyja í raun og veru. Johanna veit að sú mynd sem hún hefur af móður sinni og systur er hennar eigin hugarfóstur og hefur kannski lítið að gera með manneskjurnar að baki hlutverkunum sem hún hefur ljáð þeim á sínu innra leiksviði: „Þær eru báðar í slíkri fjarlægð að ég er ekki í stakk búin til að sjá þær, í staðinn set ég tvær vofur á þann stað sem ég ímynda mér að þær séu.“

„Er mamma dáin“, er spurt í titli skáldsögunnar – en án spurningarmerkis. Sjálf frásögnin er krökk af spurningum, en þetta er líka skáldsaga sem opnar á það að jafnvel í grófustu fullyrðingum geti falist tilraun til samræðu, og þar sem ekki er talið sjálfsagt að frammistaða eins aðila sé sannari en annars.

Líkt og Johanna fylgir eftir eigin forvitni með óumflýjanlegum afleiðingum fylgir skáldsagan að forminu til þessari sömu hvöt til að leita uppi það erfiðasta af öllu og horfast í augu við það. Skáldsagan vex smám saman að styrk, allt að að lokasenunni þar sem ofurvenjuleg íbúð verður vettvangur mikillar og goðsagnakenndrar baráttu heimsmynda sem rekast á. Er mor død eftir Vigdis Hjorth er ógleymanleg skáldsaga um það sem nánast er og flóknast í mannlegum samskiptum.