Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um réttarstöðu samnorrænna stofnana og starfsfólks þeirra

18.12.19 | Samningar
Samningur þessi var undirritaður hinn 9. desember 1988 og öðlaðist gildi hinn 21. desember 1989. Upprunalega textanum var breytt hinn 3. júlí 2002 og öðluðust breytingarnar gildi hinn 27. júlí 2008. Samningurinn kveður á um réttarstöðu samnorrænna stofnana og starfsfólks þeirra.

Upplýsingar

Undirritun samnings
09.12.1988
Gildistaka samnings
21.12.1989
Aðildarlönd
Danmörk
Finnland
Ísland
Noregur
Svíþjóð

Fyrirvari

Athugaðu að þessi texti er ekki opinber útgáfa. Ekki ber að nota textann í lagalegum tilgangi. Norræna ráðherranefndin tekur ekki ábyrgð á villum sem kunna að koma fyrir í textanum.

___________________

 

Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, 

 

sem eru sammála um að efla norrænt samstarf, 

 

sem gera sér ljóst að norræna ráðherranefndin hefur komið á fót, sem lið í þessu samstarfi, opinberum samnorrænum stofnunum með norrænu starfsliði og gera ráð fyrir að slíkar stofnanir verði settar á stofn í framtíðinni, 

 

sem æskja þess að setja sameiginlegar reglur um réttarstöðu þessara stofnana, þar á meðal um launa- og starfsskilyrði starfsfólks þeirra, 

 

hafa komið sér saman um eftirfarandi:

1. gr.

Sérhver samnorræn stofnun, sem norræna ráðherranefndin hefur komið á fót og fjármagnað, er sjálfstæður réttaraðili með sömu lögaðild og aðrir lögaðilar í landinu þar sem hún hefur aðsetur. Hún getur þannig eignast og látið af hendi fasteignir og lausafjármuni og verið málsaðili fyrir dómstólum. 

2. gr. [1]

Við ráðningu norrænna ríkisborgara í ábyrgðarstöður hjá einstökum stofnunum skal reynt að skipta stöðum réttlátlega á milli norrænu landanna.

3. gr.

Ráðherranefndin eða sá, sem hún tilnefnir, ákveður erindisbréf og starfsreglur fyrir starfsfólk við samnorrænar stofnanir. Í starfsreglunum skal koma fram hvaða aðili eða aðilar bera ábyrgð á ráðningu starfsfólks fyrir stofnunina. 

 

Áður en erindisbréf eða starfsreglur verða samþykktar skal viðkomandi stéttarfélögum gefinn kostur á að láta í ljós álit sitt. 

4. gr.

Hver samningsaðili skuldbindur sig til að reikna starfstímann í stofnun eins og opinbert starf sem innt er af hendi í heimalandinu. Fastráðnir ríkisstarfsmenn, sem fá tímabundið starf við stofnun, fá leyfi frá störfum í þann tíma sem ráðningin stendur. 

 

Tímabundið starf merkir ráðningu sem ekki varir lengur en átta ár. 

5. gr.

Ráðning að samnorrænni stofnun skal framkvæmd með skriflegum samningi milli ráðherranefndarinnar eða þess sem hún ákveður annars vegar og þess sem ráðinn er hins vegar. Hafi ráðherranefndin ekki samþykkt annað skal samningurinn gerður á grundvelli heildarsamningsins sem ráðherranefndin hefur þegar staðfest. 

 

Ráðherranefndin ákveður launa- og starfsskilyrði starfsfólks samnorrænna stofnana. Almenn starfsskilyrði, sem fyrrgreind ákvæði taka ekki til, eru ákveðin eða breytt að undangengnum samningaviðræðum milli þess opinbera stjórnvalds sem fer með vinnuveitendamál varðandi almenn launa- og starfsskilyrði ríkisstarfsmanna í því landi þar sem stofnunin hefur aðsetur og fulltrúa viðkomandi stéttarfélaga. Áður en slíkar samningaviðræður hefjast skal norræna launa- og starfsmannanefndin taka málið fyrir. 

6. gr.

Hvert starfsland skuldbindur sig til að láta starfsfólk við samnorrænar stofnanir njóta góðs af lífeyrissjóði ríkisins í starfslandinu samkvæmt sömu skilyrðum og gilda fyrir samsvarandi stöður í ríkisþjónustu í starfslandinu, sé annað ekki ákveðið með samningi við einstaka starfsmenn. 

 

Samningur sem er eða kann að verða gerður milli Norðurlanda um samræmingu réttinda sem aflað hefur verið í lífeyrissjóði ríkisins eða samsvarandi lífeyrissjóði skal einnig gilda fyrir starfsfólk samnorrænna stofnana sem hefur lífeyrisréttindi í þeim Norðurlandanna sem hafa gerst aðilar að samningnum. 

7. gr.

Deilur um túlkun eða notkun ráðningarsamnings skulu útkljáðar af sáttanefnd, komi aðilar sér ekki saman um annað. 

 

Sáttanefnd skal skipa ef annar deiluaðila krefst þess. Sáttanefndin skal skipuð þremur mönnum. Deiluaðilar tilnefna hvor sinn manninn sem í sameiningu tilnefna hinn þriðja sem verður formaður sáttanefndarinnar. Ef sáttanefndarmenn sem tilnefndir eru af deiluaðilum verða ekki ásáttir um tilnefningu þriðja manns skal fara þess á leit við formann þess dómstóls í starfslandinu, sem fer með vinnudeilur, að hann tilnefni þriðja mann. 

 

Úrskurður sáttanefndar skal vera skriflegur og undirritaður af nefndarmönnum. 

 

Sáttanefndin ákveður sjálf starfsreglur sínar að öðru leyti. 

 

Norræna ráðherranefndin ákveður þóknun sáttanefndar eftir tillögu frá sáttanefndinni. 

 

Sáttanefndin ákveður skiptingu kostnaðar af sáttameðferðinni milli deiluaðila. 

8. gr.

Ráðherranefndin getur ákveðið að samningurinn gildi einnig fyrir stofnanir sem ekki eru fjármagnaðar af norrænu fjárlögunum en eru fjármagnaðar á annan samnorrænan opinberan hátt. 

 

Ráðherranefndin getur ákveðið að ákvæðin í þessum samningi verði aðeins notuð að hluta við ákveðna stofnun. 

9. gr.

Samningur þessi öðlast gildi 30 dögum eftir þann dag er allir samningsaðilar hafa tilkynnt norska utanríkisráðuneytinu að hann hafi verið samþykktur. 

 

Norska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum samningsaðilum um móttöku þessara tilkynninga og um þann dag er samningurinn öðlast gildi. 

10. gr.

Samningsaðili getur sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu þess efnis til norska utanríkisráðuneytisins sem tilkynnir þá öðrum samningsaðilum um móttöku slíkrar tilkynningar og um efni hennar. 

 

Uppsögn tekur aðeins til þess aðila sem að uppsögninni stendur og tekur gildi sex mánuðum eftir að norska utanríkisráðuneytinu barst tilkynning um uppsögnina. 

11. gr.

Frumrit samnings þessa skal varðveitt í norska utanríkisráðuneytinu sem sendir öðrum samningsaðilum staðfest afrit af því.

___________________

[1] Ný hljóðan 2002