Samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað

06.05.19 | Samningar
Samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað undirritaður 6. mars 1982, gekk í gildi 1. ágúst 1983. Kemur í stað fyrri samkomulags frá 22. maí 1954.

Upplýsingar

Signing of agreement
06.03.1982
Effective date for the agreement
01.08.1983
Signing countries
Danmörk
Noregur
Ísland
Svíþjóð
Finnland

Fyrirvari

Athugaðu að þessi texti er ekki opinber útgáfa. Ekki ber að nota textann í lagalegum tilgangi. Norræna ráðherranefndin tekur ekki ábyrgð á villum sem kunna að koma fyrir í textanum.

___________________

 

Ríkisstjórnir Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar,

 

sem telja það grundvallarrétt ríkisborgara norrænu landanna að þeim sé frjálst að starfa og taka sér búsetu í öðru norrænu landi,

 

sem eru sammála um að þetta eigi að geta gerst við efnahagslega og félagslega tryggar aðstæður sem fyrirfram eru kunnar,

 

sem stefna að því að viðhalda fullri atvinnu hver í sínu landi og vinna saman að því markmiði, sem einnig með norrænni samvinnu leitast við að koma á jafnvægi í svæðisbundinni þróun, jafnt innanlands sem milli landanna,

 

sem telja að samvinnu milli landanna eigi að haga þannig að hún styðji aðgerðir hvers einstaks lands fyrir sig til tryggingar samræmdri þróun atvinnumála, að fólksflutningar milli landanna raski ekki jafnvægi á vinnumarkaðnum og sé í heild gagnleg efnahagslegri og félagslegri þróun í þessum löndum, sem stefna að jafnrétti kvenna og karla í atvinnulífi,

 

sem telja að ákvörðun menntunartækifæra í hverju landi og samvinna á því sviði sé mikilvægur þáttur í viðleitninni til að koma á jafnvægi á vinnumarkaðnum,

 

sem vísa til samnings frá 22. maí 1954 um sameiginlegan vinnumarkað,

 

sem vísa til bókunar frá 22. maí 1954 um að leysa norræna ríkisborgara undan skyldu til að hafa vegabréf og dvalarleyfi við dvöl í öðru norrænu landi en heimalandinu,

 

sem 23. mars 1962 gerðu samstarfssamning (Helsingforssamninginn), sem breytt var 13. febrúar 1971 og 11. mars 1974,

 

sem 15. september 1955 gerðu samning um félagslegt öryggi sem endurnýjaður var 5. mars 1981, hafa með tilliti til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað síðan samningurinn frá 1954 var gerður gert með sér nýjan samning um sameiginlegan norrænan vinnumarkað, sem hljóðar þannig:

1. gr.

Í samningslöndunum skal ekki krafist atvinnuleyfis fyrir ríkisborgara neins hinna samningslandanna.

2. gr.

Ákvæði um vinnumarkaðinn í landi hverju mega ekki gera ríkisborgara annarra samningslanda verr setta en eigin ríkisborgara landsins.

 

Ríkisborgari samningslands sem starfar í öðru samningslandi skal njóta sama réttar og ríkisborgarar þess lands að því er varðar laun og önnur starfskjör.

3. gr.

Stjórnir vinnumiðlana í samningslöndunum skulu í samstarfi sínu og með aðgerðum innanlands stuðla að því að atvinnuleitendur sem vilja vinna í öðru norrænu landi og atvinnurekendur sem vilja leita eftir vinnuafli frá öðru norrænu landi notfæri sér þjónustu hinnar opinberu vinnumiðlunar.

 

Með þetta fyrir augum geta stjórnirnar í sameiningu ákveðið aðgerðir sem efla aðstoð vinnumiðlunarinnar við flutning milli landanna í því skyni að auka möguleika hennar til að tryggja öryggi einstaklingsins í sambandi við flutning.

 

Í þessu sambandi skal vinnumiðlunin m.a. hafa til reiðu víðtækar, hlutlægar og raunhæfar upplýsingar og aðra þjónustu fyrir atvinnuleitendur og atvinnurekendur.

 

Stjórnvöld í samningslöndunum skulu einnig hafa með sér samvinnu í því skyni að tryggja skilyrði til flutnings aftur til baka.

4. gr.

Stjórnvöld í hverju landi skulu stöðugt gefa stjórnvöldum í hinum löndunum upplýsingar um atvinnu, lausar stöður og atvinnuleysi, yfirlit um væntanlega þróun á vinnumarkaðnum, upplýsingar um áformaðar aðgerðir til þess að viðhalda eða ná fullri atvinnu svo og upplýsingar um vinnu- og lífsskilyrði.

 

Stjórnvöld skulu á sama hátt veita upplýsingar um þróunaráform varðandi landssvæði eða landið allt sem geta haft í för með sér meiri háttar breytingar á eftirspurn eftir vinnuafli frá öðru samningslandi.

5. gr.

Er þörf krefur skulu löndin fjalla um fyrirbyggjandi og aðrar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir það að jafnvægisleysi á vinnumarkaði eins lands valdi vanda á vinnumarkaði annars lands.

6. gr.

Innan marka þessa samnings geta tvö eða fleiri samningslandanna gert sérstaka samninga. Áður en slíkur samningur er samþykktur af hlutaðeigandi löndum skal hinum samningslöndunum gefinn kostur á því að láta í ljósi sitt álit.

7. gr.

Ákvæði þessa samnings taka einnig til starfshópa sem sérstakir samningar eru gerðir um varðandi viðurkenningu á starfsréttindum í öðru samningslandi.

8. gr.

Norræna vinnumarkaðsnefndin skal fjalla um mál varðandi framkvæmd þessa samnings. Hún er einnig ráðgefandi aðili fyrir ráðherranefnd Norðurlanda (vinnumálaráðherra). Í vinnumarkaðsnefndinni skulu eiga sæti tveir fulltrúar frá hverju samningslandi. Þeir geta leitað til sérfræðinga eins og þörf krefur.

9. gr.

Hlutverk norrænu vinnumarkaðsnefndarinnar er fyrst og fremst eftirfarandi:

a. að fylgjast með þróuninni á vinnumarkaðnum í norrænu löndunum og fjalla um stefnumarkandi aðgerðir í vinnumarkaðsmálum og aðrar aðgerðir til þess að tryggja fulla atvinnu,

 

b. að leggja fram tillögur um aðgerðir sem varða sameiginlega hagsmuni vinnumarkaðs í norrænu löndunum,

 

c. að fylgjast með fólksflutningum milli norrænu landanna og setja reglur um samvinnu stjórna vinnumarkaðsmála,

 

d. að setja reglur um skipti á upplýsingum sem fara eiga fram í samræmi við þennan samning,

 

e. að stuðla að samræmingu hagskýrslna landanna um vinnumarkaðinn,

 

f. að hafa samband við aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndum um málefni sem varða norræna samvinnu í vinnumarkaðsmálum.

10. gr.

Ráðherranefnd Norðurlanda (vinnumálaráðherrar) skal hafa reglulegt samráð við aðila vinnumarkaðarins um mál sem varða vinnumarkað og atvinnu á Norðurlöndum.

11. gr.

Nánari ákvæði um framkvæmd þessa samnings er að finna í meðfylgjandi bókun sem tekur gildi samtímis samningnum og hefur sama gildi og gildistíma og hann.

12. gr.

Óski land að segja samningnum upp skal skrifleg tilkynning um það afhent danska utanríkisráðuneytinu sem skal skýra ríkisstjórnum hinna norrænu landanna frá því.

 

Uppsögn gildir aðeins fyrir það land sem upp segir og gildir hún frá og með byrjun þess almanaksárs sem hefst að liðnum að minnsta kosti sex mánuðum frá því að danska utanríkisráðuneytinu barst tilkynning um uppsögnina.

 

Sérhvert samningsland getur fyrirvaralaust fellt samninginn úr gildi gagnvart einu eða fleirum hinna samningslandanna ef til styrjaldar kemur eða hætta á styrjöld vofir yfir eða aðrar sérstakar aðstæður á alþjóðavettvangí eða innanlands gera það nauðsynlegt. Þessa ákvörðun skal tafarlaust tilkynna ríkisstjórnum hlutaðeigandi landa.

13. gr.

Samning þennan skal fullgilda og fullgildingarskjölunum komið til varðveislu í danska utanríkisráðuneytinu sem skal koma staðfestum afritum samningsins til hinna samningslandanna. Samningurinn gengur í gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst að liðnum tveim heilum almanaksmánuðum frá þeim degi er öll löndin hafa afhent fullgildingarskjöl sín til varðveislu.

14. gr.

Þegar samningur þessi gengur í gildi fellur úr gildi samningur frá 22. maí 1954 milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um sameiginlegan vinnumarkað ásamt bókun þeirri sem þeim samningi fylgdi.

[- - -]

Bókun

Samtímis undirritun samnings um sameiginlegan norrænan vinnumarkað, sem dagsettur er í dag, hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, orðið ásáttir um eftirfarandi:

1.

Innan marka löggjafar sinnar og með hliðsjón af ákvæðunum í þeim samningi og öðrum samningum sem eru í gildi milli þessara landa skal sérhvert samningslandanna gera ráðstafanir sem miða að því að

a. hvetja eigin ríkisborgara sem hafa í hyggju að leita sér atvinnu í öðru norrænu landi til þess að leita til vinnumiðlunar í því landi þar sem þeir eru búsettir.

 

b. gera ríkisborgurum norræns lands sem dveljast og leita sér atvinnu í öðru norrænu landi kleift að hafa samband við vinnumiðlunina einnig í fyrrnefnda landinu.

 

c. hvetja atvinnurekendur sem hyggjast leita eftir vinnuafli frá öðru norrænu landi til þess að gera það fyrir milligöngu opinberrar vinnumiðlunar.

 

d. koma í veg fyrir að atvinnurekendur falist á eigin vegum eftir vinnuafli í öðru norrænu landi.

2.

Stjórnir vinnumarkaðsmála skulu sjá um að atvinnuleitendum sem búsettir eru í umdæminu, hverrar þjóðar sem þeir eru og með hliðsjón af persónulegum ástæðum, verði vísað á lausar stöður áður en fengið er vinnuafl frá öðrum samningslöndum.

3.

Við vinnumiðlun milli landanna skal stefnt að því að atvinnuleitandi eigi kost á viðunandi húsnæði og að honum séu veittar upplýsingar um tungumálakennslu, barnagæslu og skólagöngu svo og aðrar upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir starfsmanninn og fjölskyldu hans, áður en tilvísun á sér stað.

4.

Stjórnum vinnumarkaðsmála ber að fylgjast með framvindunni að því er varðar kjör þess sem flust hefur og, ef þess gerist þörf, að gera tillögur um þær ráðstafanir sem öðrum stjórnvöldum ber að gera til þess að auðvelda aðlögun að nýjum vinnu- og lífsskilyrðum.

5.

Fjárhagslega aðstoð við flutning frá einu norrænu landi til annars er unnt að veita samkvæmt meginreglum sem lönd þessi ákveða með sérstöku samkomulagi.

6.

Löndin skulu með sérstöku samkomulagi innan marka þessa samnings ákveða kjör þess starfsfólks sem sækir vinnu yfir landamæri.

7.

Samningurinn skal ekki vera því til fyrirstöðu

a. að stefnumarkandi aðgerðir í vinnumarkaðsmálum séu gerðar til hagsbóta eigin ríkisborgurum og þeim ríkisborgurum annarra samningslanda sem um tiltekinn tíma hafa verið búsettir eða verið atvinnulausir í landinu,

 

b. að í löndunum gildi ákvæði um ráðningu útlendinga til fyrirtækja eða starfsemi sem krefst löggildingar eða í starfsgrein sem leyfi þarf til,

 

c. að sérstök ákvæði séu sett um störf á svæðum eða í fyrirtækjum þar sem sérstök öryggis- eða varnarsjónarmið eru gildandi,

 

d. að í löndunum gildi ákvæði um ráðningu útlendinga til opinberra starfa,

 

e. að í löndunum gildi ákvæði um tilkynningarskyldu starfsfólks frá öðru norrænu landi,

 

f. að íslensk stjórnvöld geti, í sérstökum tilvikum og að höfðu samráði við hin samningslöndin, áskilið atvinnuleyfi í því skyni að koma í veg fyrir röskun jafnvægis vegna hópflutninga starfsfólks eða meiri háttar flutninga einstaklinga sem beinast að sérstökum svæðum, störfum eða atvinnugreinum.

8.

Á grundvelli ákvörðunar færeysku heimastjórnarinnar eða grænlensku heimastjórnarinnar getur danska ríkisstjórnin með orðsendingaskiptum að áskildri gagnkvæmni gerst aðili að samningnum dagsettum í dag einnig að því er tekur til Færeyja eða Grænlands, eftir því sem við á.

9.

Ríkisstjórnir Danmerkur og Svíþjóðar eru sammála um að samningurinn sem þessi ríki gerðu 18. nóvember 1946 um miðlun vinnuafls m. m. falli úr gildi um leið og þessi bókun tekur gildi.

 

Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa umboð ríkisstjórna sinna, undirritað bókun þessa.

 

Gjört í Kaupmannahöfn 6. mars 1982 í einu eintaki á íslensku, dönsku, finnsku, norsku og sænsku, og eru allir textarnir jafngildir.

 

Bókun þessari skal komið til varðveislu í danska utanríkisráðuneytinu sem skal koma staðfestum afritum til hinna samningslandanna.