Norðurlandaráð tók þátt í norrænu lýðræðishátíðunum

Árið 1952 var myndaður opinber rammi um samstarf norrænu þjóðþinganna. Norðurlandaráð fagnar því 70 ára afmæli í ár.

Í sumar hefur Norðurlandaráð verið viðstatt norrænu lýðræðishátíðirnar fimm og staðið fyrir umræðuröð þar sem sérstaklega hefur verið fjallað um það hvað hvernig norrænu samstarfi eigi að vera háttað í framtíðinni. Umræðuröðin er liður í 70 ára afmælisfögnuði Norðurlandaráðs.

Frá Borgundarhólmi, yfir Almedalen, til Arendal, SuomiAreena og á Fund fólksins. Hringferð Norðurlandaráðs um lýðræðishátíðir sumarsins lauk með Fundi fólksins á Íslandi þar sem fjallað var um mikilvægi norræns samstarfs á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Mikilvæg málefni á borð við menntun þvert á landamæri, öryggismál á Norðurlöndum, glæpastarfsemi sem teygir sig yfir landamæri og umhverfis- og loftslagsmál hafa verið til umræðu í sumar. Hér fyrir neðan má lesa meira um þemun, sjá helstu atriði og finna tengla á umræðurnar í heild sinni.

Folkemødet

Fyrsti viðkomustaður var Folkemødet á Borgundarhólmi í Danmörku. Þar ræddum við tækifæri í menntun án landamæra á Norðurlöndum. Það kom nefnilega í ljós í kórónuveirufaraldrinum að hin opnu og landamæralausu Norðurlönd eru ekki alltaf alveg landamæralaus. Hvernig getur stjórnmálafólk tryggt að ungt fólk geti treyst því að það geti stundað nám í nágrannalöndunum í framtíðinni án þess að aftur verði skellt í lás? Og hvaða kostir felast í því fyrir ungt fólk sem einstaklinga og fyrir samfélagið í heild að hægt sé að stunda nám í öðrum norrænum löndum?

 

Hér má sjá helstu atriði umræðunnar:

Almedalsvikan

Næst var röðin komin að Almedalsvikunni í Svíþjóð. Hér var umfjöllunarefnið „nordic crime“. Glæpastarfsemi færist í vöxt, einkum í Svíþjóð sem er nú efst á lista í Evrópu þegar kemur að skotárásum. Hvernig berjast norrænir nágrannar okkar gegn glæpum? Hvernig vinnur lögreglan saman þvert á landamæri til að koma í veg fyrir að ofbeldið breiðist út?

Hér má sjá helstu atriði umræðunnar:

SuomiAreena

Næst var haldið til Finnlands á SuomiAreena þar sem öryggismál á Eystrasaltssvæðinu og Norður-Evrópu voru til umræðu. Innrás Rússlands í Úkraínu hefur gerbreytt stöðu öryggismála á alþjóðavettvangi. Hvar standa Norðurlönd – og hvert liggur leiðin? Hvað þurfa Norðurlönd að gera til að tryggja öryggi og stöðugleika á svæðinu?

Hér má sjá helstu atriði umræðunnar:  

Arendalsvikan

Öryggismál voru einnig til umræðu í Arendalsvikunni í Noregi. Hvernig eiga norrænu löndin að bregðast sameiginlega við herskárri framgöngu Rússlands og hvað þurfa Norðurlönd að gera til að tryggja frið og stöðugleika á svæðinu?

Hér má sjá helstu atriði umræðunnar:

Fundur fólksins

Botninn var sleginn í hringferðina á Fundi fólksins á Íslandi þar sem rætt var um þörfina á samnorrænni loftslagsstefnu. Myndi hún auðvelda okkur að ná markmiðinu um sjálfbær Norðurlönd? Og hvernig tryggjum við að pólitískar ákvarðanir endurspegli sjónarmið barna og ungs fólks, sem er sá hópur sem loftslagsbreytingarnar bitna mest á?

 

Hér má sjá helstu atriði umræðunnar: