Norrænar og baltneskar lýðræðishátíðir 2023

alt=""
Photographer
norden.org
Þátttaka Norðurlanda á lýðræðishátíðum á árinu 2023 mun hverfast um umræður um græn umskipti, öryggismál og hvernig við verndum og styrkjum lýðræðið. Norræna ráðherranefndin tekur þátt í átta lýðræðishátíðum í ár; í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og á Íslandi auk Eistlands, Lettlands og Litháens.

Hvernig sköpum við lausnir til þess að ná að uppfylla framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims?  

Fjölbreytt þemu verða á norrænu lýðræðishátíðunum í ár og sérstök áhersla verður á þátttöku ungs fólks í samfélaginu, græn umskipti og orkuöryggi.

Á viðburðum okkar verður hægt að hitta sérfræðinga, aðgerðasinna og stjórnmálamenn af ýmsum stigum stjórnsýslunnar, á sviðum sem norrænu löndin vinna saman á til að gera okkur betur í stakk búin til að takast á við úrlausnarefni samtímans.

Lýðræðishátíðir 2023:

(Sjá fyrri hátíðar neðst á síðunni).

15.–16. september: Fundur fólksins á Íslandi

Hvernig tryggjum við jafnari tækifæri á húsnæðismarkaði? Hvernig komum við í veg fyrir vanlíðan ungs fólks? Hvað með loftslagsmálin? Og mataræði Norðurlandabúa? Þetta og marg annað er á dagskrá fundarins.

Fyrri hátíðir:

26. ágúst: Būtent! í Litháen

Tilgangur hátíðarinnar er að stuðla að menningu sem einkennist af opnum umræðum, samhljómi og umburðarlyndi. „Būtent!“ hefur haslað sér völl sem vettvangur umræðna og samkenndar sem ýtir undir virka þátttöku í samfélaginu og lýðræðinu.

12.–18. ágúst: Arendalsvikan í Noregi

Norrænt samstarf er áberandi á 25 viðburðum í Arendal á þessu ári. Í brennidepli eru framhaldið eftir Úkraínu, grænar lausnir og staða barna og ungmenna á Norðurlöndum. Svo verður besta heilbrigðis-app Norðurlanda kjörið, Svansmerkið afhendir umhverfisverðlaun og fjallað verður um lýðskrum og falsfréttir á Norrænum fjölmiðladögum. Velkomin í tjald Norðurlanda á Tyholmen.

11. ágúst: Arvamus-hátíðin í Eistlandi

Markmið okkar er að Norðurlönd og Eystrasaltsríkin verði grænt, samkeppnishæft og félagslega sjálfbært svæði fyrir 2030. Þetta mun endurspeglast í þeim umræðum sem við leiðum á Opinion Festival í ár þar sem við munum beina sjónum okkar að félagslegum og umhverfislegum viðnámsþrótti.

27.–28. júní: Almedalsvikan í Svíþjóð

Norrænt samstarf efnir til umræðna um orkumál, Norðurlönd og Nató og margt fleira í samvinnu við fjölda samstarfsaðila. Einnig verður fjallað um regluverk í tæknigeiranum og nýju norrænu næringarráðleggingar, svo eitthvað sé nefnt.

27.–28. júní: Suomi Areena í Finnlandi

Orkukreppan og hlutverk Norðurlanda og norrænt samstarf í veröld í krísu verða helstu þemun í Björneborg. Einnig fer fram viðburður sem fjallar um stjórnsýsluhindranir og hreyfanleika ásamt umræðum um það hvernig við getum virkjað fleiri ungmenni til þátttöku í samfélaginu.

15.–18. júní: Folkemødet í Danmörku

Í ár verður hægt að sækja 12 viðburði í norræna tjaldinu á Borgundarhólmi. Boðið verður upp á umræður um orkulausnir, verkmenntaskóla, líffræðilega fjölbreytni, ungt fólk og nærsamfélög. Við bjóðum ykkur einnig velkomin á sérstakan viðburð þar sem úkraínskar og rússneskar konur hittast.

9.–10. júní: Conversation Festival LAMPA í Lettlandi

Conversation Festival LAMPA varð til fyrir átta árum og er þegar orðin að árvissum og ómissandi viðburði í lettnesku samfélagi. Hátíðin stendur í tvo daga og norræna dagskráin samanstendur af tíu viðburðum á ýmsum sviðum þar sem hagsmunir norrænu og baltnesku landanna skarast: Sjónarmið varðandi norrænt-baltneskt samstarf eftir 2022, viðnámsþolin samfélög, enginn úrgangur, stafræn inngilding, vindorka og þéttbýlislandbúnaður.


 

Norrænu stofnanir

Á nokkrum hátíðanna verða hinar svokölluðu norrænu stofnanir í aðalhlutverki. Stofnanir á borð við Norrænu nýsköpunarmiðstöðina (Nordic Innovation), Norrænar orkurannsóknir, Norrænu rannsóknastofnunina í skipulags- og byggðamálum (Nordregio), Norræna rannsóknarráðið (Nordforsk) og Norrænu erfðaauðlindastofnunina (Nordgen) leika mikilvægt hlutverk þegar kemur að því að fjármagna nýsköpun og rannsóknir og styrkja tengslanet og þekkingarmiðlun þvert á norrænu löndin á mörgum sviðum, svo sem heilbrigðistækni, orkumálum og matvælaöryggi.