Jessica Polfjärd forseti Norðurlandaráðs 2019

01.11.18 | Fréttir
Jessica Polfjärd ved Nordisk Råds Session 2018
Photographer
Sara Johannessen
Forseti Norðurlandaráðs 2019, Jessica Polfjärd, ræðir 70. þing ráðsins og er ánægð með inntak og vægi umræðnanna. Starf hennar í forystu Norðurlandaráðs hefst formlega í janúar þegar Svíþjóð tekur við formennsku í ráðinu af Noregi.

Polfjärd, sem er fulltrúi í flokkahópi hægrimanna, vill vinna áfram að þeim málefnum sem formennska Noregs hefur beitt sér fyrir árið 2018 en einnig líta til nýrra sviða.

„Fyrst og fremst munum við starfa áfram að jafnréttismálum, loftslagsmálum, afnámi stjórnsýsluhindrana og lýðræðismálum,“ segir hún.

Hlutverk norræns samstarfs er að fást við þau fjölmörgu viðfangsefni sem erfitt er að leysa á vettvangi einstakra landa. Yfirvofandi brotthvarf Breta úr ESB skapar hættu á fjölda nýrra stjórnsýsluhindrana og annarra áskorana, líka á Norðurlöndum. Einnig verður sameiginleg stefna í loftslagsmálum æ meira aðkallandi.

„Loftslagsmálin varða okkur öll, óháð þjóðerni, aldri eða kyni. Starfið á sviði loftslagsmála kemur öllum við og því aðeins rétt að allir hópar sameinist um það. Ýmsar afleiðingar loftslagsbreytinga munu koma snemma fram í norrænu löndunum,“ segir Jessica Polfjärd.

Ungmenni í brennidepli

Í samtalinu við nýja forsetann kemur þátttaka ungmenna ítrekað til tals.

„Það er afar mikilvægt að ungmennin fái jákvæða sýn á norrænt samstarf,“ segir Jessica Polfjärd. Hún leggur sérstaka áherslu á hlutverk unga fólksins í samstarfinu og vill beita sér fyrir málum sem auki vægi samstarfsins í augum yngri kynslóðanna. Norðurlandaráð æskunnar hefur til dæmis vakið athygli á þörf fyrir að viðurkenna ýmiss konar verkmenntun, en Polfjärd vill gjarnan að Norðurlandaráð taki það mál upp.

„Ef Norðurlöndin eiga að vera einn vinnumarkaður þarf einmitt að uppræta hindranir af þessu tagi,“ segir hún.

Það er afar mikilvægt að ungmennin fái jákvæða sýn á norrænt samstarf

Jessica Polfjärd

Auk þess að afnema stjórnsýsluhindranir sem hefta frjálsa för er mikilvægt að Norðurlandaráð reyni að varna því að nýjar hindranir myndist.

„Löggjöf í löndunum og innleiðing á reglugerðum ESB geta torveldað hreyfanleika fólks í tilfellum þar sem okkur finnst engar hindranir eiga að vera,“ segir Jessica Polfjärd.

Varaforseti Norðurlandaráðs árið 2019 er Gunilla Carlsson.