Nefnd vill laða pílagrímsgöngufólk til Norðurlanda

27.06.23 | Fréttir
Vandrare tar en paus på ett berg i nordisk natur
Photographer
Helgi Thorsteinsson/norden.org
Norðurlönd gætu orðið áhugaverður nýr áfangastaður fyrir pílagrímsgöngur. Með samstarfi á milli þeirra pílagrímsleiða sem þegar eru til og sameiginlegri markaðssetningu væri hægt að vekja aukinn áhuga á leiðunum bæði innan Norðurlanda og erlendis.

Þetta er álit norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar sem kom saman til sumarfundar í Mariehamn þann 26. júní. Nefndin vill að Norræna ráðherranefndin stuðli að því að efla samstarfið á milli norrænu pílagrímsleiðanna og sameina þær undir norrænu pílagrímsátaki. Vegir Ólafs helga til Þrándheims og Birgittuvegirnir til Vadstena eru nú þegar vinsælar pílagrímsleiðir sem að mati nefndarinnar hafa burði til að öðlast enn meiri vinsældir.

„Það væri gott að geta nýtt þessar gömlu leiðir, sem fólk hefur notað öldum saman, enn betur á þeim nýju tímum sem við lifum á, bæði með tilliti til ferðaþjónustu og sjálfbærni. Pílagrímsleiðirnar liggja í gegnum tíma og rúm,“ segir Camilla Gunell, formaður norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.

Pílagrímsgöngur njóta sífellt meiri vinsælda og hefur fjöldi göngugarpa sem leggja leið sína um þekktustu leiðirnar til Santiago de Compostela í gegnum Frakkland, Spán og Portúgal margfaldast undanfarinn áratug. Norræna þekkingar- og menningarnefndin telur að Norðurlönd gætu haslað sér völl sem spennandi áfangastaður fyrir pílagrímsgöngufólk.

Margs konar norrænt notagildi

Þrándheimur, Vadstena og Åbo eru helstu áfangastaðir norrænna pílagrímsleiða og þar eru nú þegar til staðar samtök sem vinna að markaðssetningu leiðanna. Nefndin bendir á að aukið samstarf í tengslum við leiðirnar gæti komið sér vel á mörgum sviðum með snertiflöt við ferðaþjónustu, menningu, sögu og guðfræði.

Jafnframt er bent á að langferðir á tveimur jafnfljótum séu gott dæmi um sjálfbæra ferðamennsku sem rímar vel við stefnumarkandi áherslur Norrænu ráðherranefndarinnar um félagslega sjálfbær, græn og samkeppnishæf Norðurlönd.

Á meðal beinna tillagna má til dæmis nefna sameiginlega markaðssetningu og vefsvæði fyrir norrænar pílagrímsleiðir ásamt árlegum málþingum og vefþingum til að miðla þekkingu á milli norrænu landanna.