Norðurlandaráð gefur út leiðbeiningar fyrir loftslagsvæna þingmenn

15.11.17 | Fréttir
Riksdagen
Ljósmyndari
Foto: Magnus Fröderberg/norden.org
Norðurlandaráð hefur gefið út nýja handbók fyrir þingmenn, Clever climate legislation. Handbókin undirbýr þingmenn um allan heim undir það mikilvæga verkefni að ná loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins frá 2015

Handbókin er skrifuð af hinum fyrrum danska þingmanni og meðlimi í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs, Steen Gade, sem býr yfir innsýn í pólitísku kerfin sem liggja að baki þeim alþjóðlegu samningaviðræðum sem leiddu til Parísasamkomulagsins. Í henni eru kynntar nokkrar aðferðir sem þingmenn geta beitt til þess að hafa áhrif á stefnumótum í loftslagsmálum í heimalöndum sínum sem og alþjóðlegar aðgerðir til þess að ná fram þeim markmiðum sem skilgreind eru í samkomulaginu.

Norðurlandaráð vonar að handbókin muni hvetja sitjandi þingmenn og þingmenn framtíðarinnar til þess að verða enn kraftmeiri í viðleitni sinni til þess að draga úr hættulegum áhrifum loftslagsbreytingar.

Þegar utanríkisráðherra Frakklands lýsti því yfir að Parísarsamkomulagið væri í höfn þann 12. desember 2015 á COP21, brutust út langvarandi fagnaðarlæti meðal allra viðstaddra. Og nákvæmlega á þeirri stundu fengu þingmenn þjóðanna stóra og mikla ábyrgð beint í fangið.
(Tilvitnun í handbókina Clever climate legislation)

 

„Þingmenn um allan heim standa frammi fyrir gríðarlegu verkefni, sem er að tryggja lagalegan grundvöll undir þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að draga úr loftslagsbreytingum,“ segir Britt Lundberg forseti Norðurlandaráðs. „Það krefst skynsamlegrar og skilvirkrar löggjafar um allan heim að halda í við markmið Parísarsamkomulagsins.“

Skilvirk loftslagsstefna í hverju landi

Parísarsamkomulagið er þó aðeins upphafið að breytingaferli í átt að lágkolefnisframtíð. Það byggir á loftslagsmarkmiðum og áætlunum sem hver þjóð leggur fram og það á að staðfesta og endurskoða á fimm ára fresti, í fyrsta sinn árið 2020. Í handbókinni Clever climate legislation er því lýst hvernig þingmenn geta unnið að því að búa til skilvirka loftslagsstefnu í heimalöndum sínum og tryggt að þau markmið og áætlanir sem lagðar eru fram séu stöðugt endurskilgreindar og betrumbættar.

Í handbókinni er lykilþáttum norrænnar, evrópskrar og alþjóðlegrar loftslagsstefnu lýst, kynntir eru mikilvægir viðburðir sem framundan eru og lesandanum er vísað á vísindaleg gögn um loftslagsbreytingar, þar á meðal matsskýrslur frá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Þingmenn eru hvattir til þess að vinna nánar saman þvert á landamæri og taka pólitískar ákvarðanir sem styðja við þær tækniframfarir sem nauðsynlegar eru vegna umskiptanna.

Auk þess er í handbókinni að finna leiðbeiningar um það hvernig beita má frekari áhrifum á alþjóðlega stefnu í loftslagsmálum, t.d. með því að auka áherslu á að draga úr losun frá alþjóðlegum siglingum og flugi sem enn er undanþegin Parísarsamkomulaginu.

„Þingmenn um allan heim verða að minna stjórnvöld í heimalöndum sínum á ábyrgð vegna skuldbindinga sinna og vinna að því að innleiða þessa mikilvægu þætti í loftslagssamninga framtíðarinnar,“ segir Bärbel Höhn, fyrrverandi þingmaður og formaður umhverfisnefndar þýska þingsins. „Handbókin veitir gagnlega innsýn í þau verkfæri og ferla sem nauðsynlegir eru til þess að ná þessum markmiðum og er byggð á áratuga reynslu Steen Gade af alþjóðlegum loftslagsviðræðum.“