Norðurlandaráð skorar á rússnesk yfirvöld að draga herlið sitt til baka

12.03.14 | Fréttir
President och vice president Nordiska Rådet
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Forseti og varaforseti Norðurlandaráðs, sænsku þingmennirnir Karin Åström og Hans Wallmark, skora á rússnesk yfirvöld að gera ráðstafanir til að draga úr spennu í Úkraínu: „Það er undir úkraínsku þjóðinni komið að greiða úr sínum málum á friðsælan hátt. Það er hagur Úkraínu, Rússlands og Evrópusambandsins að fundin verði friðsamleg lausn í hryggilegu ágreiningsmáli. Vegna núverandi hættuástands sjáum við okkur ekki annað fært en að fresta heimsókn til Múrmansk, sem ráðgerð var í næstu viku, um óákveðinn tíma.“

Yfirlýsing af tilefni hættuástandsins í Úkraínu:

Norðurlandabúar fagna á þessu ári að friður milli þjóðanna hefur ríkt samfellt í 200 ár.  Það má telja einstakt að friður ríki svo lengi á einu svæði og ekki verður nógsamlega minnt á mikilvægi þess fyrir Norðurlöndin í heild. Það hefur gert okkur kleift að mynda traust tengsl á milli ríkjanna, þar á meðal umfangsmikil tengslanet og samstarf á öllum stigum.

Allt frá lokum kalda stríðsins fyrir aldarfjórðungi höfum við einnig átt góð tengsl við nágranna okkar í austri, þar á meðal Rússa. Við eigum bein samskipti við rússneska þjóðþingið og vinnum saman hjá svæðisbundnum stofnunum að lausn á sameiginlegum vandamálum, m.a. vegna málefna Eystrasaltsins og norðurslóða.

Því miður gerir óvissuástandið í Úkraínu að verkum að við neyðumst til að fresta heimsókn til Múrmansk, sem við höfðum ráðgert í næstu viku, um óákveðinn tíma. Við viljum halda áfram samskiptum við þingmenn Rússlands, svo fremi sem ástandið versnar ekki enn frekar. Ástandið í suðausturhluta Evrópu hefur þó óhjákvæmilega áhrif á samskipti þjóðanna í Norður-Evrópu og munum við því fylgjast náið með gangi mála. Dragi ekki úr spennunni munum við væntanlega íhuga afstöðu okkar til áframhaldandi samskipta.

Við tökum undir sameiginlega yfirlýsingu um ástandið í Úkraínu sem utanríkisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Visegrad-landanna Póllands, Tékklands, Slóvakíu og Ungverjalands, sendu frá sér eftir fund þeirra í Narva í Eistlandi 6.-7. mars. Við munum eiga samráð við þingmenn í Eystrasaltsríkjaráðinu sem og kollega okkar frá Visegrad-löndunum.

Við tökum undir fordæmingu utanríkisráðherranna á tilefnislausri aðför Rússa að fullveldi og friðhelgi landsvæðis Úkraínumanna og skorum á ríkisstjórn Rússlands að kalla herlið sitt aftur til herstöðvanna þegar í stað og í samræmi við þar að lútandi samþykktir. Sú ákvörðun að boða til ólögmætrar þjóðaratkvæðagreiðslu á Krímskaga um að gangast undir vald Rússlands brýtur í bága við stjórnarskrá Úkraínu og er óásættanleg. Við skorum á rússnesk stjórnvöld að bregðast þegar við og draga úr spennuástandi sem gæti leitt til nýrra kaldastríðstíma.