Norðurlönd í fararbroddi í náttúrumiðuðum lausnum við alþjóðlegum krísum

02.11.22 | Fréttir
MR-MK Helsingfors november 2022

Onsdag 2. november møttes de nordiske klima- og miljøministre i Helsingfors.

Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir samþykktu í dag yfirlýsingu um náttúrumiðaðar lausnir. Lausnir af því tagi eru mikilvægar til að leysa bæði loftslags- og náttúruvandann og því munu ráðherrarnir vinna að því að náttúrumiðaðar lausnir verði í brennidepli í viðræðum vegna nýs alþjóðlegs náttúrusamnings á COP15 í Montreal. Jafnframt hvetja þeir norræna aðila til að innleiða náttúrumiðaðar lausnir.

Norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir hittust í Helsingfors miðvikudaginn 2. nóvember. Mikilvægi norræns samstarfs á sviði loftslags- og umhverfismála hefur aukist vegna stríðsins í nágrenni okkar. Orkukreppan bætist við loftslags- og náttúruvandann. Auk jákvæðra samfélagslegra áhrifa taka náttúrumiðaðar lausnir á loftslags- og náttúruvandanum í samhengi. Dæmi um þetta eru til dæmis græn þök, endur endurheimt og sköpun mýr- og votlendis til að safna yfirborðsvatni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á fundinum í Helsingfors skuldbundu norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir sig til að vinna saman að því að áhersla verði lögð á náttúrumiðaðar lausnir í hinum nýja alþjóðasamningi.

„Loftslagsbreytingar og náttúrutap eru tvö af stærstu vandamálunum sem heimurinn stendur frammi fyrir. Við verðum að skoða loftslags- og náttúruvandann í samhengi ef okkur á að takast að leysa þessi stóru vandamál. Það liggja mikil vannýtt tækifæri í því að nýta aðferðir náttúrunnar sjálfrar til að leysa þau miklu loftslags-, umhverfis- og samfélagstengdu úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir. Við ætlum að vinna saman að þessu á Norðurlöndum og leggja áherslu á þetta jafnt heima fyrir sem á alþjóðavettvangi,“ segir Espen Barth Eide, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs.

Aukin norræn áhersla á náttúrumiðaðar lausnir

Á fundinum ræddu ráðherrarnir norræna verkefnið Náttúrumiðaðar lausnir sem á næstu fjórum árum er ætlað að búa til þann þekkingargrundvöll sem stjórnvöld á Norðurlöndum þurfa til að setja aukinn kraft í náttúrumiðaðar lausnir. Mikilvægur þáttur í verkefninu er að nýta og læra af verklagi hvers annars.

„Með þessu verkefni komum við upp þekkingargrunni sem getur stuðlað að því að stjórnvöld, fyrirtæki og borgaralegt samfélag á Norðurlöndum getur sett meiri kraft í náttúrumiðaðar lausnir. Það mun stuðla að því að uppfylla markmiðið um Norðurlönd sem sjálfbærasta svæði heims árið 2030“, segir Espen Barth Eide.

Vinnunni lýkur auðvitað ekki þar. Ráðherrarnir senda einnig tillögu til nefndar Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfaþjónustu (IPBES) þar sem skorað er á hana að taka saman þekkingu um eflingu sjávarvistkerfa og gera hana aðgengilega. Þau eru mikilvæg í tengslum við kolefnisföngun og -geymslu og norrænu ráðherrarnir vilja beina kastljósinu að verndar- og endurheimtaraðgerðum

„Við á Norðurlöndum ætlum að gera okkar til að tryggja að heimurinn haldi dampi í vinnunni að því að draga úr losun og að við náum að gera öflugan og góðan alþjóðlegan náttúrusamning sem setur alþjóðleg markmið fyrir náttúruna,“ segir Romina Pourmokhtari, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar.

 

Staðan í öryggismálum eykur vægi grænna umskipta

Innrás Rússa í Úkraínu hefur ekki aðeins breytt stöðu mála með tilliti til öryggismála og alþjóðasamstarfs heldur einnig valdið hækkunum orku- og hrávöruverði og gert orkumál að öryggispólitísku málefni. Ný staða í öryggismálum hefur styrkt norrænt samstarf og aukið vægi þess á nýjum sviðum, ekki síst þegar kemur að norrænu loftslags- og umhverfissamstarfi.

„Óvægin árás Rússa á Úkraínu hafa ljáð samstarfi norrænu landanna nýtt vægi. Við vinnum nú æ nánar saman með norrænum vinum okkar, bæði hvað varðar orkumál og utanríkis- og varnarmál. Norrænu löndin gegna einnig mikilvægu hlutverki sem alþjóðlegar fyrirmyndir þegar kemur að því að byggja upp samfélög sem eru óháð erlendu jarðefnaeldsneyti,“ segir Maria Ohisalo, umhverfis- og loftslagsráðherra Finnlands.