Norðurlöndin vinna saman í kórónuveirufaraldrinum

20.04.20 | Fréttir
Corona
Photographer
Elyxandro Cegarra Ritzau Scanpix
Norðurlöndin vinna saman að því að leysa kreppuna af völdum faraldursins á mismunandi vettvangi hér og nú. Til lengri tíma litið ætlum við að læra af muninum á þeirri stefnumótun sem löndin hafa beitt í nálgun sinni og líta til nýrra stafrænna lausna.

Norrænu heilbrigðisráðherrarnir hafa hist á fjarfundi tvisvar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar síðan kórónuveirufaraldurinn braust út. Markmiðið var að upplýsa hvert annað um þróun kóronuveirufaraldursins og afleiðinga hans og skiptast á þekkingu um þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til. 


„Miklu skiptir að við upplýsum hvert annað jafnt og þétt um hvernig við í hverju og einu Norðurlandanna bregðumst við þessari gríðarmiklu sameiginlegu áskorun sem við stöndum frammi fyrir með covid-19. Við getum án efa lært margt af covid-19-faraldrinum, bæði á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum, og við verðum að standa saman um að komast eins vel frá þessari heimskreppu og mögulegt er,“ sagði Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra og ráðherra málefna eldri borgara í Danmörku, eftir síðasta fjarfund. 


  

    


  
 

Mismunandi nálgun við að leysa kreppu af völdum kórónuveirufaraldursins

Það er ekkert launungarmál að norrænu ríkin hafa nálgast kórónuveirufaraldurinn á mismunandi hátt. Margt fagfólk bendir á að þó að norrænu velferðarkerfin séu hvert öðru lík þá séu þjóðirnar misfjölmennar og landfræði þeirra og lýðfræði mismunandi, auk þess sem kórónuveirufaraldurinn sé á mismunandi stigum í löndunum. Þetta er hluti skýringarinnar. Annar hluti hennar er að stefnumótun stjórnvalda í norrænu ríkjunum hefur gengið út frá mismunandi forsendum. Til dæmis innleiddu finnsk stjórnvöld nýjar takmarkanir rétt fyrir páska á sama tíma og danska þjóðin hlýddi á fyrstu hugmyndir forsætisráðherra síns um að Danmörk gæti (kannski) farið að opnast í skrefum að nýju eftir páska. Finnland og Danmörk eiga samt sameiginlegt - ásamt Noregi - að þar hafa aðgerðir verið meira hamlandi en í Svíþjóð, að mati ýmissa sérfræðinga í heilbrigðismálum.  
 

Við verðum að læra af stöðunni 

NordForsk, rannsóknaráð Norrænu ráðherranefndarinnar, vill setja af stað þrjú rannsóknaverkefni sem hverju um sig er ætlað að varpa ljósi á heimsfaraldurinn. Tvær rannsóknanna munu einblína meðal annars á bóluefni og meðferðir við sjúkdómnum og byggja á klínískum rannsóknum en þriðja rannsóknin mun einblína á samfélagslegt öryggi og á hvernig ríkisstjórnir Norðurlanda standa þegar kemur að viðbúnaði og hættustjórnun. Í þessu sambandi segir Arne Flåøyen forstjóri Nordforsk: 


„Hvert ríki hefur sína eigin áætlun og eigin lausnir við covid-19. Frá sjónarhorni rannsakandans má líkja því sem við sjáum núna við vandaða rannsókn á því hvernig aðilar reyna að leysa sama vandann með ólíkum leiðum. Í gegnum rannsóknarsamstarf getum við lært hvert af öðru og gert samfélög okkar betur í stakk búin til að takast á við heimsfaraldra framtíðar.
 

Stafrænar lausnir í framtíðinni

Árið 2017 var undir formennsku Svía í Norrænu ráðherranefndinni ýtt úr vör verkefninu Fjarheilbrigðisþjónusta þar sem stafrænar lausnir í fjarheilbrigðisþjónustu voru kortlagðar í nýrri skýrslu sem unnin var af Norrænu velferðarmiðstöðinni, Glesbygdsmedicinskt centrum, Västerbotten. Eva Franzén, forstjóri Norræna velferðarmiðstöðvarinnar, og Peter Berggren, umdæmisstjóri heilsugæslu í Suður-Lapplandi orða meginniðurstöðu skýrslunnar svo í Dagens Samhälle: 


„Með aðstoð tækni getur heilbrigðisþjónusta flutt inn á heimili fólks og félagsleg umönnun getur átt sér stað úr fjarlægð. Önnur meginniðurstaða er sú að tæknin sé að miklu leyti fyrir hendi þannig að hægt verður að fjárfesta í frekari stafrænum lausnum varðandi heilbrigðisþjónustu - einnig til þess að nýta í mögulegum faröldrum sem upp kunna að koma. Skýrslan verður kynnt á ráðstefnu í Kaupmannahöfn í árslok 2020.