Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna um rafræna auðkenningu stuðlar að einfaldari þjónustu þvert á landamæri

15.05.24 | Fréttir
Identity Matching
Ljósmyndari
Greta Hoffman/Pexels
Í nýrri skýrslu samstarfs Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna um rafræna auðkenningu (NOBID) er greint frá því hvernig samstarfið geti gjörbylt aðgengi að opinberri og einkarekinni þjónustu þvert á landamæri innan Evrópu. Vilji stendur til þess að byggja upp hnökralausa stafræna innviði og svæðið stendur frammi fyrir bæði áskorunum og tækifærum.

Skýrslan er afrakstur viðamikillar greiningarvinnu og samstarfs sérfræðinga frá norrænu og baltnesku löndunum og varpar ljósi á stöðu rafrænnar auðkenningar og sannvottun kennsla (e. identity matching) þvert á landamæri. Greindar hafa verið sameiginlegar áskoranir og lausnir sem styrkt geta svæðið í sessi sem leiðandi á hinu stafræna sviði.

Ein helsta niðurstaða skýrslunnar er að þörf sé á betri sannvottun kennsla til þess að mæta áskorunum varðandi rafræna auðkenningu þvert á landamæri. Þetta felur meðal annars í sér skipti á rafrænum lyfseðlum og viðurkenningu á starfsréttindum en hvort tveggja er nauðsynlegur þáttur í hreyfanleika vinnumarkaðarins og opinberrar þjónustu.

Sannvottun kennsla skiptir sköpum þegar kemur að skilvirkri notkun rafrænna skilríkja þvert á landamæri og til þess að greiða fyrir hreyfanleika yfir landamæri Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

Dan Koivulaakso, deildarstjóri yfir deild hagvaxtar og loftslagsmála hjá Norrænu ráðherranefndinni

„Sannvottun kennsla skiptir sköpum þegar kemur að skilvirkri notkun rafrænna skilríkja þvert á landamæri og til þess að greiða fyrir hreyfanleika yfir landamæri Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þessi skýrsla felur í sér greiningu á núverandi lausnum á svæðinu og bendir á tækifæri til frekari stafrænnar samþættingar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna,“ segir Dan Koivulaakso, deildarstjóri yfir deild hagvaxtar og loftslagsmála hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Í skýrslunni er jafnframt lögð áhersla á mikilvægi þess að uppfæra og samræma eIDAS-reglugerðina sem fjallar um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaði ESB. Endurnýjuð reglugerð getur aukið traust og notkun rafrænnar auðkenningar þvert á landamæri.

Í tengslum við þessa vinnu hefur NOBID sett á fót starfshóp sem beinir sjónum sínum að sannvottun kennsla. Hópurinn er skipaður sérfræðingum frá stofnunum og ráðuneytum sem málið varðar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Markmiðið er að skiptast á reynslu, koma á verklagi og afla sameiginlegs skilnings á þeim áskorunum sem svæðið stendur frammi fyrir.

Niðurstöðum skýrslunnar er ætlað að mynda þekkingargrunn sem legið geti til grundvallar og hliðsjónar við frekari vinnu í tengslum við rafræna auðkenningu á svæðinu. Með stuðningi frá ráðgjafafyrirtækjunum Civitta og SK ID Solutions, og þökk sé framlagi frá sérfræðingum á svæðinu, hyggst NOBID áfram vinna að samþættri og sjálfbærri framtíð fyrir íbúa Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.