Ný norræn rannsókn: Matarbankar gætu dregið verulega úr matarsóun

06.02.15 | Fréttir
United Against Food Waste Nordic photo competition
Ný rannsókn Norrænu ráðherranefndarinnar sýnir að svokallaðir matarbankar (food banks) veita þrjár milljónir máltíða á hverju ári með mat sem annars hefði farið forgörðum.

Ný norræn rannsókn sem fjármögnuð var af Norrænu ráðherranefndinni sem hluti af áætluninni um grænan vöxt á Norðurlöndum sýnir að árið 2013 voru veittar þrjár milljónir máltíða sem gerðar voru úr afgangsmat þrátt fyrir að á Norðurlöndum séu aðeins þrír „opinberir“ matarbankar (miðstöðvar sem taka við mat og dreifa til góðgerðarsamtaka).

Rannsóknin sýnir einnig fram á mikilvægi staðbundinnar dreifingar á mat frá heildsölum og matvælaframleiðendum til góðgerðarsamtaka.  Matarbankarnir þrír lögðu til um það bil 1,6 milljónir máltíða, en áætlað er að tvisvar til þrisvar sinnum fleiri máltíðum hafi verið dreift beint.  

Endurdreifing matvæla er gott dæmi um félagslega nýsköpun þar sem tiltækar auðlindir eru nýttar með skilvirkari hætti sem skilar hvort tveggja umhverfislegum og félagslegum ávinningi, segir í skýrslunni:  Food Redistribution in the Nordic Region - Experiences and results from a pilot study.

Fyrsta rannsóknin

Þetta er fyrsta rannsóknin sem gerð hefur verið á endurdreifingu matvæla og ein af mjög fáum kerfisbundnum rannsóknum á endurdreifingu matvæla í Evrópu.  Landsbundnar forkannanir hafa verið gerðar í Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi, hvort tveggja á matarbönkum og staðbundinni endurdreifingu.  

Í Evrópu eru skráðir 257 matarbankar sem tengja saman fyrirtæki með afgangsmat annars vegar og hins vegar góðgerðarsamtök sem nota afgangsmat til að bjóða þurfandi fólki upp á máltíðir. Matarbankar eru skilgreindir sem matvælafyrirtæki í lagalegum skilningi og verða að uppfylla öll skilyrði samkvæmt reglum um matvælaöryggi og samræmdar reglur Evrópusambandsins.  Í nýju rannsókninni er yfirlit yfir reglugerðarumhverfið á Norðurlöndum hvað varðar endurdreifingu matvæla.  

Miklir möguleikar

Mikil ónýtt tækifæri felast í endurdreifingu matvæla á öllum Norðurlöndunum og þau verða könnuð nánar í framhaldsverkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Matarbankarnir munu taka beinan þátt í verkefninu, ásamt matvælaeftirlits- og rannsóknarstofnunum.  

Í þessu seinna verkefni verður lögð áhersla á skipulagslíkön, þróun gæðakerfa og kerfa til að fylgjast með og skrá matinn sem verið er að endurdreifa. Jafnframt verður litið á með hvaða hætti reglugerðum er fylgt eftir í hverju landi til að tryggja öryggi og skilvirkni endurdreifingarinnar.

Verkefnið um matarsóun er hluti af átaksverkefni forsætisráðherra Norðurlanda um grænan vöxt, þar sem kannað er hvernig Norðurlönd geta starfað saman á ýmsum sviðum til að efla sjálfbæra þróun og græna hagkerfið á Norðurlöndum.

 

Tengiliðir vegna norrænu rannsóknarinnar:

Ole Jørgen Hanssen, prófessor, Østfoldforskning (verkefnisstjóri endurdreifingarrannsóknar): +47 90727977;ojh@ostfoldforskning.no
Ingela Dahlin, Livsmedelsverket (sænska matvælastofnunin) (verkefnisstjóri norrænu matarsóunarverkefnanna): Ingela.Dahlin@slv.se

Tengiliðir í hverju landi

Finnland:  Kirsi Silvennoinen, LUKE,  + 358 29 5326 540, kirsi.silvennoinen@luke.fi

Svíþjóð:  Åsa Stenmarck, IVL,+46 8 598 56 366 , asa.stenmarck@ivl.se

Danmörk: Mads Werge, Plan&Milj;ø,  +45 46 76 24 08, mw@planmiljoe.dk

Noregur:  Ole Jørgen Hanssen, Østfoldforskning, +47 90727977, ojh@ostfoldforskning.no

Slóð þar sem hægt er hlaða niður skýrslunni:  http://dx.doi.org/10.6027/Nord2013-001