Raddir barna, sem leita hælis ein síns liðs, eiga að heyrast

Hví eru ekki slík samtök í Noregi?
Þetta voru fyrstu viðbrögð sérfræðingahópsins þegar Norræna barna- og ungmennanefndin kynnti Hamza Ibrahim, sem átti frumkvæði að stofnun „Ensamkommandes förbund“ í Málmey í Svíþjóð, hagsmunasamtaka hælisleitandi barna. Sjálfur kom Ibrahim 17 ára gamall til Svíþjóðar frá Sómalíu, og beitir sér nú fyrir því að styðja önnur börn í sömu stöðu. Eftir stofnun samtakanna leið ekki á löngu áður en sveitarfélög og yfirvöld í Svíþjóð voru farin að leita álits þeirra í málum sem varða hælisleitendur á barnsaldri.
„Ef takast á að uppfylla grein Barnasáttmálans um það sem börnum er fyrir bestu er afar mikilvægt að við, sem samfélag, gerum börnum kleift að láta raddir sínar heyrast. Aðeins börnin sjálf geta sagt okkur hvað þeim er virkilega fyrir bestu. Því tel ég að við í Noregi þurfum á líkum Ibrahim Hamza að halda og vona að hann verði öðrum innblástur til að stofna sambærileg samtök í hinum löndunum,“ segir Anne Lindboe, umboðsmaður barna í Noregi.
Við þurfum að læra meira um hvernig nágrannalöndin leysa sameiginlegar áskoranir okkar.
Þekkingarmiðlun mikilvæg
Birgitte Lange, aðstoðarframkvæmdastjóri norsku Útlendingastofnunarinnar, fagnar því einnig að hagsmunasamtök barna sem leita hælis ein síns liðs hafi verið stofnuð, og leggur áherslu á mikilvægi þess að miðla þekkingu og reynslu þvert á landamæri.
„Við þurfum að læra meira um hvernig nágrannalöndin leysa sameiginlegar áskoranir okkar. Meðal annars langar mig að vita hvaða lausnir hin norrænu löndin hafa fundið í samstarfi lögreglu, barnaverndaryfirvalda og útlendingastofnana,“ segir Lange.
Norræna barna- og ungmennanefndin (NORDBUK) birti í vor ritið „Gerið rétt! Norræn sjónarhorn varðandi þátttöku barna og ungmenna“. Þar eru reifuð ýmis góð norræn fordæmi – svo sem Ensamkommandes förbund – sem varða réttindi barna og ungmenna til að hafa áhrif á samfélagið og eigið líf. Markmið starfsins er að veita þeim ýmsu stofnunum sem vinna með börnum og ungmennum innblástur til að læra af hinum norrænu löndunum.
- Gerið rétt! Norræn sjónarhorn varðandi þátttöku barna og ungmenna