Tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022

01.09.22 | Fréttir
fisker
Photographer
Johnér

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022 er náttúrumiðaðar lausnir – alhliða svar við hinum stóru umhverfisáskorunum samfélagsins.

Gróðursetning á marhálmi í Danmörku, endurheimt á framræstu votlendi á Íslandi, elsta UNESCO-lífhvolf sem enn er til í Svíþjóð og sjálfboðasamtök sem endurheimta ár og vatnsföll í Finnlandi. Alls eru sex verkefni tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs sem í ár leggur áherslu á náttúrumiðaðar lausnir.

Náttúran er grundvallarforsenda allra mannlegra athafna. Skógar okkar, bersvæði, almenningsgarðar, húsagarðar og önnur vistkerfi tengjast hlýnun jarðar, orkuöflun, vatnsöflun, matvælaframleiðslu, skipulagi byggðar og heilbrigði. Oft er litið svo á í umræðu um umhverfismál að við verndun, varðveislu og eflingu náttúrunnar halli á hina félagslegu eða efnahagslegu hlið en þannig þarf það alls ekki að vera. Náttúrumiðaðar lausnir styrkja ekki aðeins umhverfið og líffræðilega fjölbreytni heldur má einnig útfæra þær þannig að þær skapi félagsleg, menningarleg og fjárhagsleg verðmæti. Þess vegna er þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár náttúrumiðaðar lausnir og í dag var tilkynnt um tilnefningar á málþingi um þetta málefni í Norðurlandahúsinu í Færeyjum.

Sex tilnefningar

Tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022:

Tilkynnt um verðlaunahafa í nóvember

Tilkynnt verður um vinningshafa umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs þann 1. nóvember í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki. Verðlaunahafinn hlýtur að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 300.000 danskar krónur.

Um þema ársins

Þema ársins er náttúrumiðaðar lausnir – alhliða svar við hinum stóru umhverfisáskorunum samfélagsins. Með þessu þema viljum við vekja athygli á því að náttúran og náttúrustjórnun getur lagt lóð sín á vogarskálarnar með alhliða lausnum við loftslagsvandanum og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni ásamt því að tryggja árangursríka loftslagsaðlögun í borgarumhverfi og um leið bæta heilbrigði og velferð fólks.

Náttúrumiðaðar lausnir styðja við heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun nr. 14 og 15 sem snúa að lífi í vatni og lífi á landi. Með náttúrumiðuðum lausnum er hægt að styðja við þau markmið sem t.a.m. tengjast heilsu og vellíðan (3), hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu (6), nýsköpun og uppbyggingu (9), sjálfbærum borgum og samfélögum (11) og aðgerðum í loftslagsmálum (13).

Norræna ráðherranefndin leggur áherslu á þróun náttúrumiðaðra lausna í framtíðarsýn sinni um græn Norðurlönd.

Um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Hver sem er getur sent inn tillögur að tilnefningum. Umhverfisverðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem öðrum til eftirbreytni hefur tekist að samþætta umhverfissjónarmið starfsemi sinni eða framtaki eða á annan hátt lyft grettistaki í þágu umhverfisverndar. Verðlaunin nema 300.000 dönskum krónum.

Í ár renna umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs til aðila á Norðurlöndum sem hefur lagt eitthvað sérstakt af mörkum í baráttunni við loftslagsvandann og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni með náttúrumiðaðri lausn.