Upplýsingatækni drifkraftur þróunar á Norðurslóðum – NORA blæs til vefráðstefnu

25.11.14 | Fréttir
Grønland
Photographer
Nikolaj Bock
Hvernig getur upplýsingatækni nýst til að hjálpa löndunum í Norður-Atlantshafi að efla hagkerfi sitt og bæta opinbera þjónustu? Þetta verður grundvallarviðfangsefni digitalarctic.com, fyrirhugaðrar vefráðstefnu á vegum Norræns samstarfs í Atlantshafi (NORA).

Eitt helsta viðfangsefnið á NORA-svæðinu snýr að miklum fjarlægðum milli staða. Aðdraganda ráðstefnunnar er að leita í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um NORA-svæðið frá 2011, þar sem tekið er til þess að „upplýsingatækni [geti] gegnt mikilvægu hlutverki við að auka skilvirkni í opinberri þjónustu á strjálbýlum og afskekktum svæðum“. Þar kemur einnig fram að með hjálp netsins megi kynna betri viðskiptatækifæri og hjálpa fyrirtækjum í dreifbýli að komast inn á fjarlæga markaði.

Á grundvelli þessa vill NORA beina sjónum að þeim tækifærum sem stafræn þróun opnar á í atvinnulífinu, fyrir opinberar stofnanir og búsetuþróun á svæðinu, en einnig að tæknilegum áskorunum í fjarskiptaþjónustu. Meðal málaflokka á dagskrá DigitalArctic verða „born globals“, „micromultinationals“, fjarkennsla, fjarlækningar, framkvæmd verkefna og þróun innviða.

Framsögumenn munu setja fram greiningar á stöðu mála, framtíðarsýn og framtíðarviðfangsefnum. Meðal þátttakenda verða leiðandi fræðimenn, fulltrúar fyrirtækja og ríkisstofnana og ýmsir frumkvöðlar frá NORA-svæðinu og vestlægum heimskautasvæðum.

Alfarið á stafrænu formi

Í samræmi við þemað fer ráðstefnan alfarið fram á stafrænu formi; upptökur af kynningum verða birtar á vefnum. Þá hefur NORA látið framleiða stuttar heimildarmyndir um árangursrík verkefni á svæðinu. Þar er m.a. sagt frá því hvernig íbúi í færeysku þorpi getur framfleytt sér á því að byggja flugvelli og hvernig fyrirtæki í smábæ á vesturströnd Noregs, leiðandi á heimsmarkaði á sínu sviði, spratt af tæknilegum þörfum eins manns.

Á vefsíðunni DigitalArctic er hægt að horfa á upptökur af kynningum, skrifa athugasemdir og taka þátt í umræðum þegar hverjum og einum hentar – án þátttökugjalds eða ferðakostnaðar. Með fyrirkomulagi ráðstefnunnar vill NORA sýna fram á hagkvæmni stafrænnar tækni.

Fyrstu kynningunum hefur þegar verið hlaðið upp á vefsvæðið og munu fleiri bætast við. Fylgist með NORA á Twitter og fáið nýjustu fréttir af #DigitalArctic jafnóðum.

Í framhaldi af DigitalArctic

NORA vonast til að fleiri verkefni um upplýsingatækni líti dagsins ljós á árinu 2015. Ef allt fer að óskum mun ráðstefnan blása lífi í aðgerðir, nýsköpun og atvinnulíf á svæðinu, auk þess að vera íbúum og opinberum stofnunum hvatning.

NORA veitir verkefnastyrki, ferðastyrki til verkefnaþróunar og aðstoð við að finna mögulega samstarfsaðila á svæðinu. Nánari upplýsingar eru undir flipanum DO IT á vefsíðu ráðstefnunnar.