Ane Barmen

Ane Barmen
Ljósmyndari
Maria-Olivia-Rivedal
Ane Barmen: Draumar betyr ingenting. Unglingabók, Gyldendal, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Í unglingabókinni Draumar betyr ingenting („Draumar hafa enga merkingu“, ekki þýdd á íslensku) kynnumst við hinni sautján ára gömlu Louise sem hefur flutt að heiman til að stunda nám. Sumarfríið er byrjað og Louise snýr aftur í heimabæ sinn til að vera viðstödd jarðarför ömmu sinnar. Heimkoman og hinar sorglegu kringumstæður vekja sárar minningar frá árinu áður þegar Tormod, besti vinur hennar, dó af slysförum.

Þegar Louise hittir mömmu sína, eldri systur og gamla vinkonu á ný virðist hún niðurdregin, sjálfhverf og neikvæð. Hún ýtir fjölskyldu og vinum frá sér og fylgist með þeim utan frá. Allt í bænum minnir hana á Tormod. Henni veitist léttara að lina sársaukann með bjórdrykkju en að berskjalda sig og tala um það erfiða.

Þetta sumar kemst Louise í beina snertingu við sorgina yfir Tormod, sem veldur því að hún fer smám saman að fikra sig nær fólkinu í kringum sig. Hugsanlega leika kynni hennar af hinni elliæru Karen mikilvægt hlutverk í þessari breytingu. Þrátt fyrir mikinn aldursmun á Louise og Karen – önnur er á leið inn í lífið, hin á leið út úr því – hittast þær í sama núinu sem er merkingarbært fyrir þær báðar, hvora á sinn hátt.

Barmen hefur glöggt auga og lýsir innra lífi Louise sem og umhverfi hennar í nákvæmum smáatriðum og með áhrifamiklum samtölum. Hún hefur kjark til að dvelja við ýmiss konar tilfinningar, andrúmsloft og aðstæður. Þannig kemst lesandinn í mikið návígi við atburðarásina, umhverfið og persónurnar. Þrátt fyrir alvöruna sem undir býr einkennir lágstemmd kímni og gleðiblandin angurværð rödd sögumannsins.

Draumar betyr ingenting er hjartnæm og sannfærandi saga þar sem hversdagslegum þáttum er ljáð tilvistarleg merking. Þetta er bók sem rúmar hið flókna og skjálfandi stökk frá unglingsárum til fullorðinsaldurs á trúverðugan, náinn og nautnalegan hátt.

Ane Barmen er fædd árið 1984. Hún er menntuð leikkona og tónlistarfræðingur. Draumar betyr ingenting er hennar fyrsta bók. Bókin hefur hlotið lofsamlegar umsagnir í heimalandinu og unnið til hinna norsku Brage-verðlauna.