Bárður Oskarsson

Træið (”Træet”)
Bárður Oskarsson: Træið. Myndabók, Bókadeild Føroya Lærarafelags, 2017

Hinum megin ...

Bob kanína hefur velt fyrir sér hvað geti leynst hinum megin við tréð. Hvað skyldi vera þarna langt í burtu, þangað sem hann vogaði sér einu sinni en lagði á flótta undan hundi löngu áður en hann náði að svala forvitninni? Tréð og hugsunin um þetta spennandi óþekkta hinum megin það togar enn í hann en hann er ekki viss um að hann þori þangað aftur. En kannski þarf hann þess heldur ekki? Bob getur kannski látið sér nægja að hlusta á sögurnar hans Hilberts vinar hans sem ku hafa farið víða?

Myndabækur Bárðar Oskarssonar eru einfaldar og næfískar en jafnframt fullar af kímni. Hann lætur dýrin sem búa yfir kunnuglegum eiginleikum og tilfinningum mannfólksins kljást við siðferðislegar og tilvistarlegar spurningar án þess að gefa einföld svör. Træið („Tréð“, óþýdd) er engin undantekning hvað þetta snertir. Með hárfínni fyndni er sögð sígild sagan sem alltaf á við um viðleitni til að átta sig á heiminum því hverjum er eiginlega treystandi? Er það ómaksins vert að sjá hlutina berum augum? SKYLDI LEYNAST eitthvað merkilegt hinum megin við tréð? Hver veit?

Bárður Oskarsson myndskreytir söguna um Bob og Hilbert í mínímalískum og næmum stíl sem honum einum er lagið. Stórir næstum einlitir fletir gefa rými fyrir blæbrigði íhugunar og undirstrika áhrifamikla líkamstjáningu vinanna tveggja þar sem þeir eru þungt hugsi í gráum hversdagleikanum með hátt er til lofts og langt út að trénu.

Um höfundinn:

Bárður Oskarsson (fæddur 1972 í Þórshöfn) er myndabókahöfundur, myndskreytir og myndlistarmaður.

Fyrsta barnabók hans, Ein hundur ein ketta og ein mús, (Hundurinn, kötturinn og músin. Mál og menning, 2007) kom út árið 2004 og hlaut barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2006. Sama ár var hún tilnefnd „Special Mention“ á White Ravens hjá The International Children‘s Digital Library. Stríðið um tað góða grasið hlaut sömu viðurkenningu árið 2013.

Bækur Bárðar hafa verið þýddar á dönsku, norsku, sænsku, íslensku, ensku, frönsku, þýsku, slóvensku og tékknesku og hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun. Þar má nefna Barnabókaverðlaun Þórshafnar árið 2007 og LUCHS Kinder- und Jugendbuchpreis árið 2013 fyrir Hin flata kaninin (Flata kanínan. Bókaormurinn, 2015). Árið 2015 fékk hann listamannalaun til eins árs úr færeyska menningarsjóðnum. Hundurinn, kötturinn og músin var tilnefnd til sænsku Peter Pan-verðlaunanna árið 2016 og Wilbert (2016)var tilnefnd á heiðurslista IBBY 2018 í enskri þýðingu.

Þetta er í þriðja sinn sem bók eftir Bárð Oskarsson er tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hann hefur áður veirð tilnefndur fyrir bækurnar Flata kanínan árið 2014 og Stríðið um tað góða grasið árið 2016.