Bárður Oskarsson

Stríðið um tað góða grasið
Bárður Oskarsson: Stríðið um tað góða grasið. Bókadeild Føroya Lærarafelags (BFL), 2012

Kanínurnar eru búnar að fá sig fullsaddar af því að deila grasinu góða með heimsku hundunum. Hundarnir skíta út um allt, og geta auk þess ekki stillt sig um að elta kanínurnar – það er einfaldlega eitthvað í kollinum á þeim sem segir þeim að gera það. Það er ekki auðvelt fyrir litlar kanínur að standa uppi í hárinu á hundum, en þeim tekst að finna virkilega snjalla lausn. Loksins fá þær að vera í friði, en hvað gengur nú að grasinu? Getur virkilega verið að grasið góða fái ekki þrifist án þessara heimsku hunda? 

Myndskreytingarnar eru í hinum auðþekkta stíl Bárðar; stílhreinar og næmar línur með ríkri tjáningu og kímni. Í bókinni leyfir Bárður sér meiri litanotkun en oft áður – himinninn er fagurlega vatnsblár og grasið góða, þrætueplið í sögunni, er litríkt og auðugt af smáatriðum. Sögusviðið er almenns eðlis og líkt og í fyrri myndabókum höfundar er ekkert sem staðsetur það í einu landi fremur en öðru. Þannig gæti sagan gerst hvar sem er.

Bárður Oskarsson tekst oft á við siðferðileg álitamál og tilvistarlegar spurningar í myndabókum sínum. ÍStríðið um tað góða grasið (Stríðið um góða grasið) segir hann frá erfiðu sambýli tveggja hópa – sögu sem á mikið erindi við samtíma okkar.

Persónur hans eru oftast úr dýraríkinu, þó að þær hafi einnig ýmsa auðþekkjanlega mennska eiginleika, tilfinningar og hegðun. Í þessari bók eru kanínunum, sem eru veikbyggðari líkamlega, ljáðir mennskari eiginleikar en hundunum. Þær eru því betur í stakk búnar til að leggja á ráðin og lesa í aðstæður, en atferli hundanna minnir frekar á hefðbundin dýr. Af þessu leiðir að lesandinn á auðveldara með að samsama sig með kanínunum – samúð hans liggur óskipt hjá veslings nagdýrunum, en hjartnæm viðkvæmni þeirra og varnarleysi breytist smám saman í baráttuhug og þrautseigju. Lesandinn hefur skilning á gremju kanínanna og hrífst af hugrekki þeirra og dugnaði, en verður jafnframt að taka afstöðu til þess hvort þær hafi brugðist rétt við. Sagan vekur lesandann til umhugsunar með því að benda á tengslin milli ótta og árásargirni, og með því að varpa ljósi á þá ókosti þess að þykjast vera sterkur og benda á hættu sem er ímyndunin ein. Jafnframt setur hún ögrandi spurningarmerki við ósjálfráða en algenga tilhneigingu okkar til að finnast við hafa rétt á einhverju.

Söguna má skilja sem aðvörun við skammsýnum og einföldum lausnum á ágreiningsmálum: Það sem í fyrstu kann að virðast snjöll og tilvalin ráðagerð, getur fyrr en varir haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Kanínurnar verða að horfast í augu við að í lífinu skiptast á skin og skúrir og að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Um höfundinn

Bárður Oskarsson (fæddur 1972 í Þórshöfn í Færeyjum) er myndabókahöfundur, myndskreytir og myndlistarmaður. Fyrsta barnabók hans, Ein hundur, ein ketta og ein mús, kom út árið 2004 og hefur verið þýdd á ýmis tungumál og hlotið góðar viðtökur. Hún hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Vestnorræna ráðsins árið 2006 og sama ár var hún nefnd sérstaklega á listanum „White Ravens Catalogue“ á rafbókasafninu The International Children's Digital Library. Árið 2013 hlaut Stríðið um tað góða grasið sama heiður. Bækur Bárðar hafa verið þýddar á dönsku, norsku, sænsku, íslensku, ensku, frönsku, þýsku og tékknesku. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga, m.a. LUCHS-Preis für Kinder- und Jugendliteratur árið 2013 fyrir bókina Flata kanínan (Hin flata kaninin), en hún var einnig tilnefnd til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2014. Nú síðast fékk hann árslaun úr færeyska menningarsjóðnum árið 2015 og tilnefningu til sænsku Pan-verðlaunanna 2016 fyrir Ein hundur, ein ketta og ein mús.