Bent Haller og Lea Letén (myndskr.)

Magnolia af Skagerrak
Bent Haller og Lea Letén (myndskr.): Magnolia af Skagerrak. Skáldsaga, Høst & Søn, 2015

Magnolia af Skagerrak er upplestrarbók þar sem tekist hefur að hleypa sjaldséðum þrótti í þessa grein bókmenntanna.

Aðalpersóna bókarinnar, stúlka að nafni Magnolia, er í sumarfríi hjá afa og ömmu ásamt bróður sínum og tveimur frænkum sem eru aðeins eldri en hún. Dagarnir renna saman í eitt, eins og frídagar eiga að gera þegar fátt skiptir máli annað en að vera saman, upplifa náttúruna og slaka á.

Börnin mega fara í rannsóknarleiðangra um sandhólana, svo fremi sem þau gæta sín á höggormum og skógarmítlum. Þau dorga á ströndinni við sjóinn, sem er of hættulegur að synda í. Og amma og afi eru fastur punktur í tilveru þeirra.

Höfundur lýsir því af mikilli innlifun hvernig börn upplifa og skynja umhverfi sitt og hvernig þau mynda goggunarröð í leikjum sínum. Heimurinn sem hann skapar er sumarfrí og allt sem því fylgir, en þar sem stutt er í háska og sjúkdóma undir yfirborðinu. Amman og afinn gegna hvort sínu hlutverki í þessum tvíræða heimi; amma er tenging barnanna við fastar skorður daglegs lífs, en afi stýrist af ímyndunaraflinu, leikjum og draumum. Þegar ömmu finnst hann ganga of langt fer hann út í skúr og tálgar spýtukarla. (Hann er auk þess ættaður frá Smálöndum í Svíþjóð eins og Emil í Kattholti, svo hver veit nema þar séu tengsl á milli?)

Fyrsti þriðjungur bókarinnar fjallar um lífið í sumarfríinu, einnig sá síðasti, en miðjuhlutinn er töfrandi frásögn þar sem lítill, skrýtinn „klumphvalur“ tekur til máls og tengir friðsæld frísins við hætturnar sem leynast víða, svo og við sögu fjölskyldunnar.  

Myndskreytingarnar í bókinni hæfa hinum mörgu lögum frásagnarinnar sérlega vel: einföld mynd sýnir goggunarröð barnanna, stafaflúr fangar svif fuglsins í vindinum, nokkrar ríkulega myndskreyttar opnur gefa lesanda innsýn í tvöfalt eðli þess sem býr undir yfirborði (sjávarins), og aðalpersóna miðjuhlutans, litli klumphvalurinn, er jafn trúverðug og umskiptin milli veruleika og ímyndunar.

Þá minna myndirnar af hafinu og hvalnum á sum af sterkustu verkum Bent Haller: hina stórkostlegu Kaskelotternes sang og frásögnina goðsagnakenndu af vatnastúlkunni Silke.

Sérstaða Magnolia fra Skagerrak felst í því að bæði texti og myndir búa yfir meðvitund um þá sérstöku eiginleika sem upplestrarbækur þurfa að hafa: lesarinn leggur að sjálfsögðu sitt af mörkum með tilþrifum í lestri, en textinn á ekki aðeins að halda athygli áheyrenda heldur einnig að vekja forvitni þeirra og fá þá til að spyrja spurninga. Þessu koma smáatriði í myndskreytingunum til leiðar – einkum er stríðnislegur talsmáti afans og skondið orðaval hans til þess fallið að fá hlustendur til að grípa fram í og spyrja. Þrátt fyrir 40 ára búsetu í Danmörku eru enn auðheyranleg sænsk sérkenni á talsmáta þessa smálenska grallara þegar hann spinnur upp sögur handa „liten Maggenolia“.

Margar barnabækur ætlaðar til upplestrar koma út á ári hverju, en fáar bera vott um skilning á hinni nánu samveru sem á að felast í lestri fullorðins fyrir barn. Þessi bók er ein þeirra fáu.