Bjørn Ingvaldsen

Far din
Bjørn Ingvaldsen: Far din. Skáldsaga, Gyldendal Norsk Forlag, 2016

„Allir hata pabba þinn, því hann er þjófur. Allir hata þig, því þú átt þjóf fyrir pabba.“

Líf ungs drengs kollvarpast þegar faðir hans, starfsmaður í múrsteinaverksmiðju bæjarins, fer í fangelsi. Skyndilega verður óvissan allsráðandi. Hvað er satt? Hverjum er treystandi? Hvað á hann að gera? Drengurinn stendur frammi fyrir mörgum stórum spurningum sem engin augljós svör eru við. Hann kemst þó ekki hjá því að velta þeim fyrir sér í þessari nýju og breyttu tilveru, þar sem vinir og nágrannar hafa snúið baki við þeim mæðginum.

Sagan er á látlausu máli sem laust er við tilfinningasemi eða sjálfsvorkunn. Ytri og innri átökum er lýst á afdráttarlausan og skýran hátt frá sjónarhóli drengsins. Setningar eru stuttar og meitlaðar. Traustur og nánast upptalningasamur stíllinn endurspeglar andlegt ástand drengsins, mikinn vanmátt og doða, en einnig sterka sjálfsbjargarhvöt og meðfædda getu til að takast á við erfiðleika.

Lágstemmdur og knappur stíll veldur því að textinn titrar af tilfinningum sem leynast undir yfirborðinu: ótta, óvissu, einsemd og skömm. Tilfinningum sem virðast liggja utan orðaforða drengsins, og sem hann á ef til vill þess vegna erfitt með að ná tengslum við. Tilfinningum sem ekki fá útrás, heldur verða um kyrrt í hinu ósagða, í skugga orðanna.

Lesandinn skynjar samt tilfinningar drengsins gegnum meitlaðar samræður hans við annað fólk, og ófegraðar lýsingar á því sem á sér stað í kringum hann. Hvort sem um er að ræða ofsóknir eða útskúfun úr vinahópnum. Þó er ekki tómt svartnætti í þessari sögu. Það er líka ljósglæta. Fólk sem skilur, sem réttir fram hjálparhönd.

Far din („Pabbi þinn“, hefur ekki komið út á íslensku) er skáldsaga sem snertir og grípur lesandann. Hún var tilnefnd til ARKS-barnabókaverðlaunanna árið 2016 og Boksluker-verðlaunanna 2017.

Bjørn Ingvaldsen er þekktur höfundur barna- og unglingabóka í Noregi. 

Fyrsta bók hans, smásagnasafnið Landskap med gul Lada, kom út árið 1995. Fyrsta barnabók hans, Stolpesko, kom út árið 1998. Hann hlaut rithöfundastyrk Rogalands-fylkis 1998, ARKS-barnabókaverðlaunin 2004 fyrir Nei vel, da, og Rasmus Löland-styrkinn árið 2011.