Bolatta Silis-Høegh

Aima qaa schhh!
Bolatta Silis-Høegh: Aima qaa schhh! Myndabók, Milik Publishing, 2014.

Aima qaa schhh! (Uss, Aima!) er myndabók, 32 síður að lengd, sem einkum er ætluð börnum á aldrinum fjögurra til sjö ára.

Aima er kát stelpa með fjörugt ímyndunarafl. Eitt kvöldið getur hún ekki sofnað. Þá eignast hún ósýnilegan vin, Mannarsi Pandetage Isbo Sodavagn Chokolarsen, eða Manna. Hann hefur ofan af fyrir Aimu næturlangt með því að segja henni sögur, syngja óperuaríur og leika við hana, þó að hún eigi að vera sofnuð. Þrátt fyrir viðleitni foreldranna til að koma Aimu í ró stendur fjörið í þrjár nætur, eða þangað til móðir hennar tekur til sinna ráða og viðurkennir tilvist Manna með því að leggja á borð fyrir hann við morgunverðarborðið.

Það er skrýtið að Aima eigi sér hulduvin. Matarvenjur Manna eru líka sérstakar: hann fær sér haframjöl með mjólk, gúrku og dálitlu af nöglum!

Frásagnarmátinn er líflegur, frumlegur og fullur af orðaleikjum. Bókina prýða myndskreytingar eftir höfundinn; akrýlmyndir, klippimyndir og málningarúði á pappír sem minnir á grafíklist. Litirnir eru draumkenndir og klippimyndirnar af Aimu, Manna og uppátækjum þeirra mynda hressandi mótvægi við fölar vatnslitamyndirnar sem einkenna draumaheim Aimu.

Ósýnilegir vinir koma ósjaldan við sögu í barnabókmenntum. Í þessari undursamlegu bók er slíkur hulduvinur birtingarmynd fyrir þörf barnsins fyrir félaga í draumaheimi þess. Bókin er kjörin til upplestrar fyrir börn, og gefur fyrirtaks tilefni til samræðna um siði og gildi.

Höfundurinn og myndskreytirinn Bolatta Silis-Høegh er menntuð í myndlist frá listaháskólanum í Árósum. Hún er fædd í Qaqortoq á Grænlandi árið 1981 og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar á Grænlandi og í Danmörku. Hún hefur áður gefið út bókina Aima, þar sem segir frá draumum Aimu um hvað hún vill verða þegar hún verður stór.