Eli Hovdenak

Eli Hovdenak
Photographer
Eli Hovdenak
Eli Hovdenak: Det var ikke en busk. Myndabók, Ena, 2018.

Fuglinn Tilde og tröllið Torvald stíga út úr lestinni og inn í stóran, dimman skóg. Þau heyra draugaleg hljóð og Tilde verður hrædd. Hvaða ófreskjur eru þetta og hvað vilja þær?

En þarna er ekkert að óttast. Það kemur á daginn að skógurinn er bara trjáþyrping við járnbrautarteinana. Á milli trjánna leynast engin ófrýnileg skrímsli, bara aðrir fuglar. Og skrýtnu hljóðin reynast koma frá tveimur litlum uglum, sem eru líka hræddar og verða smám saman vinir Tilde og Torvalds. Það sem virtist ógnvænlegt í fyrstu var ekkert hættulegt þegar á reyndi.

Landslagið í Det var ikke en busk eftir Eli Hovdenak er óljóst, allt að því torrætt. Ýmislegt mun lesandinn bera kennsl á. Þó er fleira öðruvísi en virðist í fyrstu. Á fyrstu síðum bókarinnar er umhverfið dimmt, drungalegt og líklegt til að hræða bæði unga og aldna. En brátt lætur kímnin á sér kræla með kjánalegum orðaleikjum, barnalegum misskilningum og furðulegum tilsvörum. Myndskreytingarnar eru sömuleiðis skondnar á undirfurðulegan, lágstemmdan hátt. Tilde segir að trén vaxi í vitlausa átt,  en myndirnar sýna okkur að það er bara spegilmynd í vatnsfletinum. Tilde hefur gleymt lyklinum að bústaðnum,  en við sjáum á myndunum að hann hangir undir mæninum. Þannig er bókin til þess fallin að kveikja samræður milli fullorðins og barns. Þær samræður gætu fjallað um að það útheimti hugrekki að fara inn í dimman skóg, og að það sé gott að gera það með vini. Enn betra ef það endar með hlátri og nýjum vinum.

Fjöldi andstæðna mætir lesandanum á ferðalaginu inn í skóginn. Tilde er lítil en Torvald stór. Tilde er skrafhreifin en Torvald þögull. Til að byrja með eru Tilde og litlu uglurnar kvíðin en áður en yfir lýkur finna þau öll til öryggis.

Myndskreytingarnar eru dimmar en lýsast smám saman upp af rauðum, gulum og grænum pastellitum. Og kímnin er gegnumgangandi andstæða við drungann. Útkoman er kraftmikil og falleg heild.

Det var ikke en busk kann að koma fyrir sem lítil bók, en eins og lesandinn mun komast að raun um er hún frumleg, marglaga og óvenju vandlega unnin.  Hún sækir í hefð sígildra ferðasagna og hægt er að lesa hana á táknrænan hátt. Hovdenak hefur sérstakan stíl og er persónuleg, fáguð rödd í norskum myndskreyttum barnabókmenntum. Á lágstemmdan hátt tekst henni að segja sögu um það að hætta sér á vit hins óþekkta sem er bæði skemmtileg og hjartnæm fyrir lesandann. Bókin hentar hugrökkum börnum og kvíðnum fullorðnum, með öðrum orðum flestu fólki.

Eli Hovdenak, f. 1956, er menntuð í myndlist en verk hennar er m.a. að finna í Nasjonalgalleriet og Riksgalleriet í Noregi og í Norsk kulturråd. Þetta er fimmta barnabók hennar sem hún myndskreytir sjálf. Árið 2014 hlaut Hovdenak verðlaun norska menningarmálaráðuneytisins fyrir bestu myndabók ársins. Bækur hennar hafa verið þýddar á frönsku.