Elin Bengtsson

Ormbunkslandet
Elin Bengtsson: Ormbunkslandet. Unglingabók, Natur & Kultur, 2016

Unglingaskáldsagan Ormbunkslandet eftir Elin Bengtsson („Burknalandið“, hefur ekki komið út á íslensku) fjallar um systkinin Margit og Mika sem elska hvort annað. Verkfæraskúrinn heima er þeirra fríríki og griðastaður. Þar geta þau legið þétt saman á stöflum af garðsessum, innan um fiskinet, málningardósir og verkfæri, í skjóli undan fótataki mömmu og augnaráði pabba. Einnig skógurinn býður þeim skjól og gerir þeim kleift að vera kóngafólk í ríki sínu, burknalandinu sem bókin dregur nafn af.

Margit og Mika hafa vitað lengi að samband þeirra hlýtur ekki náð fyrir augum fólksins í kringum þau, að þau eru að gera eitthvað sem aðrir telja óeðlilegt og ógeðfellt. Þegar þau voru yngri og reyndu að finna orð yfir samband sitt í bókasafnstölvunni fundu þau orð sem hljómaði eins og skordýr, en minnti á „skríðandi grápöddu fremur en fiðrildi“.

Lesandinn hefur sjónarhorn Margitar á söguna, en öðlast einnig óbeint hlutdeild í frásögn Mika, enda eru þau eitt. Alla ævi hafa systkinin lifað samlífi, háð sameiginlegan skæruhernað gegn umheiminum. Allt uns Mika ákveður að þetta gangi ekki lengur, að ástarsamband þeirra verði að taka enda. Hann fer burt til að gegna herskyldu og skilur Margit eftir, útskúfaða frá eina samfélaginu sem hún hefur nokkru sinni tilheyrt. Margit þolir ekki við án bróður síns og til að verjast algeru niðurbroti ákveður hún að fara líka burt, til Málmeyjar, þó að hún eigi aðeins tvo mánuði eftir af menntaskólanum.

Elin Bengtsson lýsir af nákvæmni og næmi tilfinningum Margitar gagnvart aðskilnaði, sem hún valdi ekki sjálf. Frásögn Margitar er tilraun hennar til að takast á við sársauka og tómleika og reyna að halda áfram, finna nýtt samhengi að hrærast í og nýtt fólk að verja lífinu með. Margit á sér ekkert burknaland lengur, en hún getur eignast annars konar lönd, til dæmis rifsberjalandið. Og fundið eitthvað annað sem er þess virði að berjast fyrir. Kannski.

Ormbunkslandet er skáldsaga um að glata því sem er manni kærast af öllu, því sem ljær lífinu merkingu, og um að takast á við algera einsemd. En hún fjallar einnig um það hvern er leyfilegt að elska í augum samfélagsins. Með næmri lýsingu sinni á Margit tekst Elin Bengtsson að gera hið illskiljanlega skiljanlegt og veita lesandanum djúpa innsýn í eina forboðnustu birtingarmynd ástarinnar. Það gerir hún með prósa sem er fagur, þéttur og ljóðrænn. Hér er engu orði eða setningu ofaukið. Höfundur sýnir sjaldséða fágun í meðferð sinni á tungumálinu.

Elin Bengtsson er rithöfundur, kynjafræðingur og doktorsnemi við Stokkhólmsháskóla. Fyrsta bók hennar, unglingaskáldsagan Mellan vinter och himmel, kom út árið 2013. Ormbunkslandet er önnur skáldsaga hennar, en hún var tilnefnd til hinna virtu Augustverðlauna árið 2016.