Framtiden i våre hender – Noregur

Framtiden i vore hender
Photographer
Renate Madsen
Þekking byggð á staðreyndum um áhrif sjálfbærni á framleiðslu og neyslu matvöru.

Framtiden i våre hender er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Í norsku félagasamtökunum Framtiden i våre hender eru um 40.000 félagar og 30 staðbundnir vinnuhópar. Samtökin hafa frá stofnun 1974 unnið að því að breyta lífsvenjum og að sanngjarnri dreifingu á auðlindum jarðar - og hefur matur (bæði neysla og framleiðsla) verið meginviðfangsefni þeirra.

Framtiden i våre hender hefur lagt mikla vinnu í að þróa þekkingu sem byggð er á staðreyndum um áhrif sjálfbærni á framleiðslu og neyslu á matvöru og breytingar sem þarf að gera bæði á framleiðslu og neyslu matvara til þess að byggja upp sjálfbærara matvælakerfi. Í því sambandi hefur Framtiden i våre hender birt fjölmargar skýrslur um sjálfbæra matvælaframleiðslu.

Framtiden i våre hender leggur einnig mikið upp úr því að leiðbeina bæði framleiðendum og neytendum um sjálfbærari matvælaframleiðslu og -neyslu, meðal annars með góðum ráðum varðandi matarsóun og grænan hvunndagsmat. Samtökin sinna einnig ráðgjöf við atvinnulífið og stjórnmálafólk.

Sérstaða Framtiden i våre hender felst í að samtökin beina starfsemi sinni bæði að neytendum og framleiðendum (bæði verslunum og matvælaframleiðendum) og sýna með því fram á að sjálfbært matvælakerfi snýst bæði um neysluvenjur og framleiðsluaðferðir. Annar kostur samtakanna er að þau eru í senn uppbyggileg og gagnrýnin. Starfið sem Framtiden i våre hender innir af hendi skiptir miklu máli fyrir norrænt samstarf vegna þess að ráðgjöf og framlag samtakanna til stefnumótunar byggir á ríkjandi félags- og umhverfislegum aðstæðum á Norðurlöndum. Þess vegna eru samtökin Framtiden i våre hender tilnefnd til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Um þema ársins: Sjálfbær matvælakerfi

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær eru matvælin eins og framast er unnt framleidd staðbundið og notaðar til þess umhverfislega sjálfbærar aðferðir. Á sviði landbúnaðar er fyrst og fremst lögð áhersla á endurnýjanlega næringu úr jurtaríkinu og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir sem taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar vatnsauðlindarinnar. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin umhverfisleg ábyrgð og gildi dýraverndunar tekin mjög hátíðlega. Náttúruauðlindir sem notaðar eru til matar, svo sem villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir, eru skynsamlega nýttar.

Þegar hráefni eru ræktuð til matar er næringargildið látið halda sér eins vel og kostur er. Í matvælaiðnaðinum á sér ekki stað auðlindasóun, vörunum er pakkað á orkuvænan hátt og umhverfisáhrif dreifingarinnar eru eins lítil og mögulegt er. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum aðeins sjálfbæra valkosti og eru auk þess með eigin ráðstafanir til þess að draga úr matarsóun. Matur neytenda byggist á umhverfislega sjálfbærum valkostum, til dæmis grænmetisfæða sem löguð er að árstíðum. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.