Fredrik Prost

Fredrik Prost

Fredrik Prost

Photographer
Portrætfoto: Rebecca Lundh
Fredrik Prost: Leŋges hearggi Sáhčal fatnasa. Persónuleg frásögn, DAT, 2023. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur:

Leŋges hearggi Sáhčal fatnasa er margslungið listaverk. Þetta er leiðarvísir um andleg málefni í menningu Sama og jafnframt fagurlega ort og skreytt fræðileg frásögn sem ekki hefur verið sögð fyrr – um það hvernig taka eigi aftur eitthvað sem manni var sagt að hefði glatast fyrir löngu; samískan trommuslátt og náttúrutrú Samanna. Í bókinni segir Fredrik Prost – sem leggur stund á duodji, hefðbundið samískt handverk – frá samískum gildum og andlegri viðleitni sem hann hefur rannsakað öll sín fullorðinsár. Hann segir frá því hvernig hann var útvalinn sem ungur maður, og frá leit sinni að þekkingu. Frásögnina rammar hann inn með því að flétta við hana sögulegum staðreyndum, upplýsingum úr samtímaheimildum – og ljóðlist. 

 

Þegar bókin kom út lét Harald Gaski, prófessor í samískum bókmenntum og menningu, þessi orð falla: „Samar hafa eignast nýjan Johan Turi.“ Líkt og Turi nýtir Prost sér fræðilega aðferð til að segja frá reynslu sinni í prósaformi. Frásögnin hefst á atburðum sem urðu fyrir 300 árum síðan þegar samísk seiðkona (noaidi) að nafni Nilja Lässi var handsömuð og brennd á báli. Með útgangspunkt í þessum atburðum dregur Prost upp heildstæða mynd af breytingum í samísku samfélagi allt frá upphafi nýlendustefnunnar, þegar hin samíska heimssýn var bönnuð, og fram til nútímans þegar afnýlenduvæðing er orðin að lykilhugtaki í samfélagi Sama og opinber orðræða um hefðbundin samísk trúarbrögð hefur slitið barnsskónum. 

 

Í bókinni fylgjum við Prost í persónulegri frásögn hans, allt frá því að hann fær upplýsingar frá eldri manni sem er þekktur græðari. „Það sem var fyrir skömmu / það sem enn lifir í minni þjóðarinnar / virðist svo fjarlægt / hefur enginn sagt þér / hefurðu ekki heyrt / að það var fyrir stuttu síðan“ (bls. 37).  

 

Hann er kallaður til þess að verða noaidi, seiðmaður, finnur anda sem hjálpa honum áfram og lærir að lokum að leiðbeina öðrum sem leita þess sama. Í bókinni er beitt þekktri aðferð úr frásagnarfræðum þar sem aðalpersónan glímir við hindranir áður en hún aflar sér þekkingar og nær að sigrast á nýjum áskorunum. 

 

Prost hefur safnað saman á bókarform því sem hann hefur lært um heimsmynd Sama og samband þeirra við náttúruna svo að aðrir Samar, einkum þeir sem hafa sérstaka hæfileika, geti einnig haft aðgang að þessari þekkingu.Hin þekkta samíska listakona Mari Boine skrifar í formála verksins: „Að hugsa sér ef ég hefði haft þessa bók“, um það þegar hún leitaði sjálf að andlegri arfleifð okkar á sínum yngri árum. 

 

Bókin er fagurlega hönnuð og hefur hönnuðurinn og myndlýsandinn Inga Wiktoria Påve, lífsförunautur textahöfundarins Prost, unnið stórkostlegt verk. Við upphaf hvers kafla er myndskreyting meðfram síðubrúninni sem vekur hugrenningatengsl við fagurfræði duodji-handverksins, gleður augað og kveikir forvitni lesandans. 

 

Myndskreytingarnar fylgja textanum gegnum alla bókina og lesandinn finnur fyrir því ósýnilega sem ekki öllum er gefið að upplifa með beinum hætti, því að „Sá sem ekki hlustar heyrir ekki / sá sem ekki sér kemur ekki auga á / handan þokunnar hvísla þau og jojka lágt“ (bls. 51).  

 

Í dramatískum og persónulegum textabrotum, þar sem Prost glímir við hindranir en finnur leiðina til þekkingar með hjálp andlegra æfinga, er bakgrunnur textans með dökkleitum myndum. 

 

Hverjum kafla lýkur á ljóði – eða texta úr jojku – sem leiðir lesandann inn í íhugun með aðstoð hinna máttugu verkfæra ljóðlistarinnar. 

 

Bókin í heild er sannkölluð perla sem maður vill ekki skilja við sig, sem ætti að vera til á hverju heimili. 

 

Hún vekur lesandann til umhugsunar um það hver eigi eiginlega tilkall til þess að stjórna menningararfi Sama, bæði hinum áþreifanlegu og óáþreifanlegu þáttum hans. Þetta er brennandi málefni nú á tímum þegar verið er að flytja ýmsa muni aftur á samísk söfn og þess er spurt hver beri ábyrgð á að endurlífga það sem Samarnir hafa glatað. 

 

Að mati höfundarins er ekki nóg að gömlum munum sé skilað á söfn; einnig þurfi að blása nýju lífi í notkun á hlutunum, svo sem samískum trommum. Þess vegna hefur hann varið 20 árum við að rannsaka og safna þekkingu um andlegar hefðir Sama, búið til trommur og lagt sitt af mörkum til að flytja seiðmannslistina áfram. Eins og höfundurinn tekur til orða er engu líkara en að trommurnar hafi nú tekið til máls og biðji okkur að hlýða á.