Guðni Elísson

Guðni Elísson

Guðni Elísson

Photographer
Kristinn Ingvarsson
Guðni Elísson: Ljósgildran, skáldsaga, Lesstofan, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Ljósgildran eftir Guðna Elísson er margslungið og marglaga skáldverk. Uppbygging verksins er kirfilega úthugsuð og meistaralega útfærð samfélagssaga þar sem viðfangsefnið snýst um helstu átakasvið samtímans, t.d. kynjabaráttuna, markaðsvæðingu þjóðfélagsins og loftslagsmálin. Bókin þenur mörk skáldsögunnar á skapandi hátt þar sem hún inniheldur margar ólíkar tegundir texta, auk þess sem hún leikur sér með margvísleg textatengsl og rúmar fjölda vísana í heimsbókmenntirnar sem birtast ýmist sem beinar textatilvitnanir eða skírskotun til atburða, persóna og aðstæðna. Höfundur kinkar ekki aðeins kolli til Íslendingasagna á borð við Njálu og Grettissögu, heldur skrifar sig markvisst inn í evrópska bókmenntahefð með vísunum í James Joyce, Tsjernísjevskí, Tolstoj, Evrípídes, Dante, Shakespeare, Jane Austen og ekki síst Ovid þar sem goðsagan um Orfeif og Evridís er miðlæg í skáldverkinu. En eins og Nóbelsverðlaunaskáldið Louise Glück hefur bent á vilja allir vera Orfeifur en enginn Evridís.

 

Segja má að vísun í epíska söguljóðið rammi inn skáldverkið, en prósenturnar í síðufætinum hafa sama tilgang og línutal í þeim epísku söguljóðum sem hafa ríka frásagnarlega uppbyggingu og einingu. Samtímis vinnur höfundur með ólíkar bókmenntagreinar á borð við hrollvekjuna, fantasíuna og satíruna, sem býður upp á margvíslega túlkunarmöguleika. Það sem virðast vera útúrdúrar í sögunni eru það aldrei, heldur markvissar leiðir til að draga fram ákveðin viðfangsefni, möskvar í þéttriðnu neti merkingar sem bindur verkið saman í eina samofna heild. Höfundur hefur líkt myndmáli sögunnar við meinvarp og vísar þar í viðfangsefni bókarinnar, það hvernig líkingar keyra lífið í þrot frá hinu persónulegasta til stórsagnanna sem stýra heilu samfélögunum. Þar megi finna skaðlegar móðurmyndir sem breiði úr sér fram og aftur um sögulíkamann og þótt áhrif þeirra séu af ýmsum toga gegni þær allar því hlutverki að draga fram ágenga hugsun sem taki smám saman yfir og stýri ákvörðunum einstaklinganna og þjóðarlíkamans alls.

 

Í þessu margradda verki fléttast saman tveir heimar þar sem segir frá harmrænum ástum hjónanna Jakobs og Láru um leið og íslensku stjórnmála- og menningarlífi á tímum veirunnar er lýst á írónískan og afhjúpandi hátt þegar leyndardómsfull öfl taka völdin í Reykjavík og valda usla hjá m.a. forseta landsins og forsætisráðherra og afhjúpa um leið valdakerfi samtímans. Skáldsagan er metnaðarfull tilraun til að fanga umbrotaskeið í sögu íslensku þjóðarinnar þar sem fortíðin er óðum að gleymast og framtíðin er full af blindri von. Í umfjöllun sinni um ljósið og ljósvæðingu heimsins skoðar höfundur framfaratrú mannsins, en athygli vekur að þeir kaflar bókarinnar þar sem birtan er mest eiga það allir sameiginlegt að snúast um þrána eftir því að stöðva tímann og hefja sig yfir forgengileikann. Skáldsagan veltir upp áhugaverðum spurningum um það hvernig við sinnum afkomendum okkar, ekki aðeins í fjölskyldusamhengi heldur samfélagslega og pólitískt, ekki síst á tímum hamfarahlýnunar. Kynjastríðið sem í sögunni birtist er einnig kynslóðastríð, en sérstaklega áhugavert er að skoða hvernig tungumálið er iðulega notað sem þöggunartæki.

 

Spurningin um tengsl skáldskapar og veruleika er eitt af grunnviðfangsefnum skáldsögunnar. Ljósgildran snýst um það hvernig frásagnir eru stýringartæki, jafnt sögurnar sem persónurnar segja sér og öðrum og svo skaðlegar stórsögurnar sem stýra framtíð okkar allra. Ljósgildran er einstaklega vel unnið bókmenntaverk uppfullt af leiftrandi frásagnargleði. Höfundur hefur gífurlegt vald á textanum í þessari frumlegu samtímasögu þar sem bókstaflega allt er undir.

Guðni Elísson (f. 1964) er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og stofnandi loftlagsverkefnisins Earth101. Hann hefur skrifað bækur og fjölda greina á sviði bókmennta, kvikmynda, menningarfræða og umhverfismála. Ljósgildran, som nominerades till Isländska litteraturpriset 2021, är hans första roman.